28. september 2008

Þreytt eða löt?

Ég er svo þreytt alltaf hreint. Eiginlega líður mér best í bælinu. Óvísindaleg heimilisráðskönnun bendir til járnskorts (trikkið með að kíkja undir neðra augnlok). Ég er byrjuð á járni + C-vítamíni. Fer í lýsið mjög fljótlega. (Einn heimilislæknanna í okkar góða Kardemommubæ er alin upp og menntuð einhvers staðar austantjalds.  Þ.a.l. finnst henni þessir lífsstílssjúkdómar bara aumingjadómur og er fræg fyrir að ráðleggja öllum það sama: “Ein vika í rúmi og taka lýsi”. Ég hugsa að amma mín heitin hefði kunnað vel að meta þennan lækni.)

Ég gæti sosum farið í blóðprufu en þá yrði ég að tala við lækninn sem vill láta athuga allan andskotann úr því verið er að þessu á annað borð! Mér finnst ekkert sniðugt að láta tappa af mér fimm glösum af blóði (er t.d. ekkert viss um að ég hafi efni á svo miklu) bara af því ég vil láta mæla hem og skjaldkirtilsvaka.

Lýsi í óhófi eða 5 glös af blóði? … það er erfitt að taka afstöðu til þess. Kannski bara best að að fresta.

Ég fór í labbitúr niður á Sandinn og prófaði meira að segja að hlaupa svolítið. Það próf bendir til að best sé að láta hlaup eiga sig - nema náttúrlega maður sé að missa af strætó; Borða alla vega úr einum lýsisstampi áður en hlaup verða næst á dagskrá.  Aftur á móti á ég ekki í neinum vandræðum með að striksa, þ.e. labba hratt og baða út öllum öngum (stundum kallað kraftganga).

Ég tók myndir af marglyttum á Sandinum.  Mér líður pínulítið eins og svona marglyttu. Þess vegna punta tvær þessa þreytulegu færslu.

8 ummæli við “Þreytt eða löt?”

 1. Einar ritar:

  Ég byrjaði í ágúst að graðga í mig hákarlalýsi og viti menn, liðagiktin meir eða minna horfin.

 2. Elín Arna ritar:

  Hvað er trikkið með að kíkja undir neðra augnlok? Hvað á maður að sjá það? Ég er einmitt að leka niður í klofið á mér þrátt fyrir að vera á geðlyfjum sem eiga að hressa upp á mig, og vil helst hvergi annarsstaðar vera en í bólinu, sem er eilítið vandamál þar sem ég er að reyna að hanga í námi…

 3. freyja systir ritar:

  Borða speltbrauð, ekki spurning. Auk þess geta kókosbollur verið ágætar.

 4. Harpa ritar:

  Freyja: Maðurinn stökk frá mér um síðustu helgi (á ráðstefnu á Selfossi … segir hann). Það má telja honum til hróss að hafa skilið eftir handa mér 4 kókosbollur, sem ég át í tveimur hollum. Er ekki frá því að ég hafi verið eilítið hressari síðan. Það var reyndar ýmislegt hollt (og þ.a.l. vont) í ísskápnum.

  Elín Arna: Ef slímhimnan innan á neðra augnloki er föl þá vantar mann járn. Þetta eru gömul alþýðuvísindi.

 5. Hrefna ritar:

  Þetta kom fyrir mig fyrir nokkrum árum síðan. Ætlaði að gefa blóð og var send heim með þau skilaboð að ég hefði ekkert að gefa, engar járnbirgðir að finna hjá mér. Engin skýring fékkst af hverju nema ef vera kynni óhemjumikið skyrát (var nýflutt heim og hafði ekki fengið skyr að ráði í 8 ár), flatkakan með hangikjötssneiðinni vóg ekki nægilega upp á móti. Svo að öllu mjólkurkyns var hent út og við tók nautasteik og allt sem var nægilega blóðugt. Hresstist til mun á nokkrum vikum. Reyndi að vísu ekki þetta með kókosbollurnar en hljómar vel, tala nú ekki um ef maður skolar þeim niður með lítilli kók í gleri (svona upp á nostalgíuna að gera).

 6. freyja systir ritar:

  ég hitti manninn á ráðstefnunni svo hann var þar (alla vega fyrri daginn…). Ég er sammála Hrefnu um nauðsyn þess að éta blóðugt (svo er rauðvín líka ágætt en hentar kannski ekki). Nú er sláturtíð og þið maðurinn hljótið náttúrulega að taka slátur eins og annað fólk úti á landi. Blóðmör, hjörtu og nýru, lifur og allt það dót er áreiðanlega mjög gott við blóðleysi.

 7. Vilborg ritar:

  Marglyttulíðan! Snilld, þessar myndir úr fjörunni. Nú veit ég af hverju ég er stundum eins og ég er: Það er mín innri marglytta sem tekur yfir. Einu sinni var sagt við mig að ef ég þyrfti að sofa mikið þá væri það vegna þess að ég væri mjög þreytt. Það minnkaði samviskubitið yfir ,,letinni”. Svo komst ég að því að ég svaf í rauninni mjög lítið á nóttunni þótt ég héldi annað, og tíminn fór allur í að dreyma alls konar vitleysu, enginn djúpsvefn fyrr en gigtarlæknirinn skrifaði á mig svefndýpkunarvítamínpillur (surmontil).
  Þessi grein gagnaðist mér líka og nú poppa ég líka alla vega litum venjulegum-vítamínpillum á morgnana:
  http://www.vefjagigt.is/grein.php?id_grein=23

 8. Einar bro ritar:

  Slátur er rosalega 2008