1. október 2008

Er mella komið af Mlle?

Ég ætla að segja ykkur frá dæmigerðri kennslustund hjá einum af uppáhaldshópunum mínum.  Uppáhöldin eiga að vera að læra Laxdælu en margt tefur og dvelur svo fróðleiksfús ungmenni. 

Titill þessarar færslu vísar í fróðleik sem sömu ungmenni höfðu lært í félagsfræði í morgun. Ég sagðist diplómatískt skyldu athuga málið og skaut mér bakvið meistaraprófið í bókmenntum - ekki málfræði! (Var samt soldið að hugsa um hvers lags arfarugl þetta væri, munandi eftir mellum sem Þór lagði lag sitt við og heita nú tröllskessur, eða mellu í merkingunni “kartöflumóðir”). 

Nú er ég búin að fletta upp  í bókinni mannsins (sem ég merkti mér, óvart, fyrir meir en áratug og auðvitað er þessi félagsvísindatungumálaspeki algert kjaftæði!  Hins vegar nenni ég ekki að skrifa allar skýringar Íslenskrar orðsifjabókar hér - menn geta bara flett sjálfir ef þá lystir. En ég tek bókina með á morgun til að það verði þar eftir naglfast í mínum nemendum að engin fjögurra mögulegra merkinga nálgast franskt kvenfólk.

(Svo fór ég að spá hvort einhvers konar túlkunartengsl séu milli þessarar kenningar um að Mlle > mella og misskilnings sveitunga míns, Jóns Hreggviðssonar, um árið þegar hann sá konur af þessum toga en tók þær fyrir prestmaddömur. Meira skrifa ég ekki um þetta þar sem mér er kunnugt um að einstaka ungmenni innan átján ára les blogg kennarans.)

Næst vildu blessuð börnin fá að vita hvort ég þekkti til prests sem hefði samið eigin orðabók.  Fyrsta skref var náttúrlega að fá að vita hvunær prestur sá hefði verið uppi - börnin mundu að hann væri uppi núna.  Svo var farið að giska á nöfn og loks fattaði ég að félagsfræðikennarinn hafði sagt þeim frá Pétri Þorsteinssyni, presti óháða safnaðarins, og líklega tengslum hans við Jed hinn belgíska, sem vill láta kalla sig Timbur-Helga.  Jed hefur margreynt við mig í tölvupósti til að fá mig með í Hið íslenska Málþvottahús, en mér varð fljótlega ljóst að hann gengur ekki heill til skógar og kemur ekki til mála að ég mæli upp í honum vitleysuna.  Þar finnst mér að guðsmaðurinn mætti taka mig, trúleysingjann, til fyrirmyndar! Sjá nánar http://en.wikipedia.org/wiki/High_Icelandic

Ég er að hugsa um að nefna við félagsfræðikennarann að hann kenni meiri íslensku þar sem börnin eru augljóslega móttækilegri fyrir henni utan íslenskutíma ;)

Annað er svo sem ekki títt. Ég staðhæfi oft á dag að Guðrún Ósvífursdóttir hafi verið sláandi lík Unni Birnu, enda bæði fögur útlits og í vitsmunum, eins og Unnur Birna. Aftur á móti hef ég boðið ákveðnum stjórnanda skólans að líkja Guðrúnu Ó. við Britney Spears, vilji menn bera á mig nægt fé til þess. Ekkert tilboð hefur borist.

Kannski af því maðurinn er móðgaður við sína konu: Hann sagði nefnilega, með stjörnur í augum, að nú væri hún Brynhildur að fara að leika Fridu Kahlo!  (Maðurinn er mjög veikur fyrir málverkum Fridu þessarar.  Hann er líka talsvert veikur fyrir Brynhildi.) Ég sagði að það kæmi ekki til greina að draga mig á leikrit um sambrýnda lesbíu!  Maðurinn tautaði sá að hún væri ekki lesbía heldur bara ”bí”  … og fór svo á Rotarý-fund.   

3 ummæli við “Er mella komið af Mlle?”

  1. Einar ritar:

    Er þetta ekki bara eins og blessuð flökkusagan um tilkomu orðsins peysa - sem ku eiga að vera afbökun á franska orðinu paysant (man ekki stafsetinguna) eða sem sé bóndi! Skilst að þetta hafi upphaflega verið brandari hjá Viggu stofnun sem hefur breiðst út. Varðandi presta sem skrifa orðabækur mætti ef til vill nefna til sögunnar Jón Guðmundsson sem sumir sögðu lærðan, en alla vega prestlærðan, en hann er af sumum talinn höfundur fyrstu íslensku orðabókarinnar, þ.e. basknesk-íslenska orðasafnsins sem varðveist hefur frá fyrri hluta 17. aldar.

  2. Harpa ritar:

    Einmitt, mig rámaði eitthvað í þessa basknesku orðabók. Besta dæmi um uppruna orðs / orðtaks er skýringin á “að rísa upp við dogg”. Sagt er að hálfdrukknuðum sjómennum útlenskum hafi gjarna verið stungið upp í rúm og ýmist heimasætan eða sængur margar notaðar til að reyna að hlýja þessum ræflum. Þegar náðist bati og sífelld hundgáin glumdi um allt settist viðkomandi útlendi sjómaður upp og stundi “a dog!” - himinlifandi feginn að vera þessa heims. Þá sögðu reynslumiklir bændur og búalið þeirra tíma: “Nú er hann risinn upp við dogg!” og var talið ótvírætt lífsmark.

  3. Elías ritar:

    Meira segja er ein Þórskenningin “Mellu dólgr”.