7. október 2008

Hræringar

Ég vaknaði á óguðlegum tíma í morgun og komst langt í prófayfirferð.  Það er fátt sem truflar hálf sex á morgnana og ég hraðfletti mogganum, tautandi harmafregn og harmafregn við hverja síðu. Hver nennir að lesa grilljón dálksentimetra af harmafregnum? Ekki ég!

Uppáhaldsbörnin sátu á ganginum og ræddu efnahagsmál þegar ég mætti til að kenna þeim. Mér þóttu þau nokkuð áhyggjufull. Vonandi dugði þetta sem ég sagði þeim um að ástandið hafi nú verið slæmt áður, t.d. þegar síldin hvarf og þegar verðbólgan var meiri en 100% á ári, og yfirleitt hafi nú málin reddast þrátt fyrir harmatölur í fjölmiðlum.  Sleppti frásögnum af sparimerkjabrúðkaupum og þvingunarsparnaði.

Í frímínútum sagði rússneska vinkona mín mér hverju rússneska sjónvarpið hafði spáð Íslandi um morguninn.  Ekki fögur spá það.

Í næstu frímínútum hitti ég á hana og annan kennara og þá voru þær fréttir komnar að Rússar vilji endilega hjálpa okkur. Mér þótti þetta gleðilegt og fallegt af Rússunum - sá líka tækifæri til að taka upp rúblu í staðinn fyrir þessa handónýtu krónu sem við öpuðum eftir Dönum í denn.

Núna áðan sagði maðurinn mér að Norðmenn hefðu lýst sig fúsa til að hjálpa okkur svo við þyrftum ekki að þiggja hjálp frá Rússum. Þar með engin ástæða til að leggja niður hallærismyntina krónu …

Eftir hádegi breytti ég mér í fúríu og hakkaði í mig heilan námshóp! (Elsku baddnalandskjedlingar: Þetta er “metaphorically speaking” og börnin öll á lífi og ómeidd.) Hafandi sýnt hópnum fram á það að yfir þriðjungur hans myndi, að öllu óbreyttu, sitja á ný í þessum áfanga, rökstyðjandi með köldum einkunnatölum úr skyndiprófinu sem þau tóku á mánudag … hótandi því að ekki yrði skipt um kennara …býst ég ekki við öðru en þeir nemendur sitja nú heima og lúslesi Laxdælu.  Sömu örlög bíða hins hópsins á morgun.

Ég þeyttist um og lauk mínum þrifum (sem höfðu verið í huga guðs frá laugardeginum), þvoði þvott, lagði mig, keypti bókina hans Orra og er að verða búin með fyrsta þriðjung. Auðvitað geri ég bókinni einhver skil þegar ég hef lesið hana. Hins vegar er ég í sömu stöðu varðandi blogg um bókina og ef ég vildi blogga um gjaldskrá Jónasar tannlæknis.  Í litlum kardemommubæjum út á landi eiga allir að vera vinir og blogga blíðlega hver um annan …

OK: Þá er að einhenda sér í að ljúka yfirferð yfir hinn hópinn … og æfa grimmdarlega augnaráðið, sem ég er að verða nokkuð flink í.

Myndskreytingar bíða betri tíma.

Lokað er fyrir ummæli.