13. október 2008

Meistari eða ekki meistari

Til að peppa mig upp eftir veikindadag, hvar sjúkdómseinkenni voru verulega fjölbreytt, sem bendir til þess að mig hafi hrjáð kvíði, af engu eins og venjulega … sumsé ætla ég að skrifa lært blogg um orðið “meistari” og setja fram kenningar og láta eins og ég sé eitthvað lærð kona þótt ég viti fyrirfram að slíkt truflar, skelfir og pirrar marga karlbloggendur.

Í fyrsta lagi: Af hverju eru þessir titlaðir meistarar: Kjarval (málari), Þórbergur (rithöfundur) og Megas (tónskáld og fyllibytta sem lagði sig í líma til að herma eftir Bob Dylan og C. Vreeswijk uns drafið varð hans náttúra)?

Af hverju eru þessir ekki titlaðir meistarar: Erró (málari), Guðbergur Bergsson (kinkí rithöfundur) eða Bubbi (tónskáld og fyllibytta á árum áður sem hermdi eftir fáum)?

Nú á eitt af mínum uppáhalds ljóðskáldum 100 ára afmæli hefði hann lifað. Þótt maðurinn sé stílsnillingur og hafi stundum svarað út í hött (að Tíminn og vatnið sé ballett) þá hefur enginn klínt á hann meistaranafnbót ennþá. Ég er ekki viss um að “Meistari Steinn” gerði sig almennilega … Meistari Aðalsteinn kannski? Truflar það nýmóðins meistaratitlatog að Steinn gekk á hönd kaþólsku kirkjunni?

Tengdafamilían er búin að venja mig á að fletta upp - kannski ekki alveg jafnoft og ekta fjölskyldumeðlimir en þó fletti ég þessu upp: “meistari k. kennari, lærdómsmaður, leiðtogi, maður með tiltekið háskólapróf; iðnaðarmaður með tiltekin réttindi; yfirmaður, húsbóndi; afburðamaður í einhverri grein eða íþrótt … ættað úr lat. magister af magis “meir”, sbr. magnus “mikill”. Sjá majór, mikill og magister. (Íslensk orðsifjabók, s. 613)

Mér til ánægju sá ég að ég er sjálf meistari, meira að segja tvöfaldur meistari.  Hins vegar finnst mér klausan “Meistari Harpa” hljóma enn kauðslegar en Meistari Þórbergur. Kann að valda kyn orðsins.

Ég fletti líka upp í Orðabók Háskólans, Ritmálsskrá, og komst að því að orðið er þekkt frá Nýja testamentisþýðingu Odds Gottskálkssonar. Stór hluti þeirra 52 dæma sem þarna má finna virðist hafa með kristilega yfirmenn að gera, s.s. Meistara Jesú. Mörg dæmi finnast um mismunandi stafsettan Meistaratitil Brynjólfs biskups. Nýrri dæmi snúast helst um iðnaðarmenn eða framúrskarandi íþróttamenn.

Í rauninni er hið eina órannsakaða í þessu máli hvers vegna Frere Jacques hefur orðið Meistari Jakob á íslensku. Ég kann ekki frönsku en ímynda mér að Frere þýði ekki venjulegur bróðir heldur klausturbróðir, m.ö.o. munkur.

En nú má ég ekki vera að þessu dútli lengur.  Mér sýnist einsýnt að þeir sem vilja flagga Meistara-titlum út og suður muni vera undir áhrifum miðaldakristni eða eindregnir vankristniverjar sem eitthvað hafa misskilið pojntið.

Að meira aðkallandi málum: Einsi, hér að neðan er vídjó.  Þú hefur 4 daga til að þjálfa barnið í mjóróma söng. Síðan getið þið feðgar sest niður á Trafalgar Squire, unginn litli sungið og þú setið með tóma ermi og dollu og skilti með “Lost the Arm in the Cod War”. Þá þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af pundunum!

http://www.youtube.com/watch?v=uA3alipmyH4

5 ummæli við “Meistari eða ekki meistari”

 1. freyja systir ritar:

  ég mæli með því að klæða krakkann í of stóra og götótta lopapeysu, láta hann hafa stórt skilti með “ég var rekinnn frá Íslandi - pabbi minn var útrásarvíkingur” og fara síðan (mjóróma röddu) með Stein Steinar. Viðeigandi á þessum tímum er náttúrulega “Í draumi sérhvers manns er fall hans falið”. Til að þetta komist til skila þarf einhverja þýðingarvinnu nema Meistari Steinn sé til á ensku. Útrásarvíkingur = outvasion/exvasion viking?

 2. Harpa MA, Maed. ritar:

  Steinn hlýtur að vera þýddur …

  Þetta vidjó, við klassískt rokk, sýnir útrásarvíkinga í ham og gerir grein fyrir markmiðum þeirra:
  http://www.vikingkittens.com/media/viking_kittens.swf

 3. Einar bro ritar:

  Í banka sérhvers manns er fallið falið
  við fórum mikinn, lifðum hátt og vel
  en þegar upp úr þrotnum sjóð er talið
  þjóðin fær að lepja margt úr skel

  Heimild: http://malbein.net/ (sótt 14.10.2008).

  Ég sé að tekjumöguleikar fjölskyldunnar fara vaxandi. Aftur á móti kveðst eiginkonan, sem situr sem fastast á samningafundum með blessuðum Bretunum, ekki finna fyrir neinni óvild eður aumkun í sinn garð og virðist fæð Tjallana beinast fyrst of fremst að “The Brown Man”.

 4. Harpa J ritar:

  Styð þetta með götóttu lopapeysuna - meistari Harpa ;-)

 5. Dr. Einar bró ritar:

  Í ljósi þessa málflutnings er ég eiginlega ferlega feginn að ég sótti aldrei meistarprófsbréfið mitt - og telst því formlega séð ekki vera meistari