15. október 2008

Auðn og tóm í miðju einskisins

(Steinn Steinarr vildi nú meina að auðnin og tómið væru bak við þá grímu sem þú berð … þetta er ansi svartsýnn partur af “Það bjargast ekki neitt, það ferst, það ferst …”  Ég er of frísk til að fíla Stein almennilega!)

Nema ég skrapp í bankann á Neðri-Skaga og fékk útskýrt hvað er nokk sikkert og hvað er ansi óstabílt og hvernig hægt er að spá á þessari stundu. Elsku maðurinn var búinn að fara með svipaðar þulur svo ég gat aktað hæfilega gáfulega. (Dæmi: “Áttu þá við að 62% af þessum sjóði, sem er 71% af heildinni, muni sennilega bjargast?”) Í tilefni þess hve ánægð ég er með mig er hér til vinstri mynd af stærðfræðingi familíunnar. Er ekki örgrannt um að brosmilt barnið sé feitt, eða hvað finnst glöggum lesendum?

Svo lagði ég í gönguna miklu - upp í nýja miðbæinn (sem helgast af Bónusi) og tókst að finna gangstéttir næstum alla leið. Þegar ég nálgaðist Apótek Vesturlands og gekk fram hjá heilu hverfunum af næstum-því-tilbúnum-húsum og fyrirtækjum sem glömpuðu í sólinni rann allt í einu upp fyrir mér að þarna var dauðaþögn! Ekki eitt hamarshögg!  Ekki einu sinni krúnk í hrafni! Bílastæðin auð svo langt sem augað eygði. Mér leið soldið eins og á Hornströndum.

En lyfin mín fékk ég, á ágætis prís miðað við kílóverð reikna ég með. Svo ekki fer ég að leggjast í sorg og sút yfir efnahagsmálum í augnablikinu. (Einum sjóðnum, sem ég hafði núllað fyrir mér, hafði nú verið bjargað að verulegu leyti svo gleðjast má yfir því.) Almennt og yfirleitt hef ég ekki hugsað mér að láta undan sútinni þegar hún bankar á hjartað. Almennt og yfirleitt er það gert með því að sofa eins og ungabarn / gamalmenni um miðjan daginn.  

Barninu hér til hliðar var gjörspillt frá blautu barnsbeini. Það að fæðast strákur í fjölskyldu með þremur eldri systrum er ávísun á (þvingaða) þátttöku í dúkkuleikjum og fleira sissí stússi. Mesta furða hvað varð úr’onum :)

9 ummæli við “Auðn og tóm í miðju einskisins”

 1. Einarbró ritar:

  Það kemur sér ótrúlega vel að hafa átt þrjár eldri systur þegar maður vinnur á svona vinnustað eins og ég.

 2. Harpa ritar:

  Meinarðu að þið séuð mest í barbí … þarna í ráðuneytinu?

 3. Nafnlaust ritar:

  Best ég segi sem minnst! Sé að þetta er að breytast í “éttann sjálfur blogg”. Get annars upplýst að Einar hafði virkilega gaman af bæði mömmó og dúkkuleikjum.

 4. freyja systir ritar:

  af einhverjum ástæðum kom ekki nafnið mitt á innleggið hér á undan.

 5. Einarbró ritar:

  Ég læt ættleiða mig ef þetta á að halda svona áfram. Nei ég var nú mest að hugsa um að ég vinn á vinnustað þar sem kynjahlutföllin eru svolítið merkileg, við karlmenn erum alltaf í minnihluta.

 6. Ragna ritar:

  Hva? Kemur engin mynd af mér?

 7. Einar bró ritar:

  Það er ein ferlega flott af þér hálftannlausri inni í Steinasafni.

 8. freyja systir ritar:

  Mæli með því að setja inn tímamótaverkið “Ragna á koppnum” eða “Ragna að borða fisk”. Ef ég man rétt var hún alveg einstaklega fallegt barn með ljósa lokka og spékoppa.

 9. Harpa ritar:

  Freyja: Þú getur alls ekki munað rétt um Rögnu sem smábarn … af þeirri einföldu ástæðu að þú ert tveimur árum yngri en hún! Ég tek samt undir ljósu lokkana og spékoppa því ég er stórasystir og þurfti alltof oft að passa litlu væluskjóðurnar (lesist Rögnu og Freyju). Ekki taka þetta of alvarlega samt og eyða mér af fjölskyldupóstlistanum ;)