18. október 2008

HARPA: 1, MÚS: 0

Það fór þó aldrei svo að við hjónin lytum í lægra haldi fyrir músarkvikindi! Nei, maðurinn beitti súkkulaðirúsínunum sínum (takk fyrir tipsið, Sóley!) og það gerði gæfumuninn.  Ég hugsa að Samúel Örn, minn gamli bekkjarbróðir, hefði sagt að nú hefði músin mátt lúta í gras fyrir íbúum þessa heimilis!

Eftir langar og gáfulegar samræður við tengdamömmu um hvort músin gæti hafa verið svart-rottu-ungi (eiginlega örugglega ekki) eða ætti sér hreiður og unga bak við fataskápinn minn (ég harðneitaði að fara út í ruslatunnu til að tékka mjólk í spenum á músarlíkinu) og vísindalega leit á Vefnum hef ég greint kvikindið sem mus musculus, reyndar áreiðanlega kvenkyns því hún var svo hrikalega gáfuð og smart í að forðast gildrur. Og ég var aðeins farin að venjast henni og hætt að reka upp kóngulóaröskrið í hvert sinn sem ég sá hana bruna hér milli herbergja. (Litla myndin krækir í stærri mynd.)

Á Vísindavefnum má lesa um hversu vel af guði gerðar svona húsamýs eru. Sjá “Húsamús getur stokkið um 30 cm. Hún getur hlaupið níu metra upp vegg og stokkið niður 2,4 metra án þess að meiða sig.”  Vá! Vala Flosa og Þórey Edda eru núll og nix miðað við músina okkar sálugu.  Ég er samt voðalega fegin að hafa ekki haft þessar upplýsingar um stökkfimi músarinnar fyrr en eftir að hún var dauð því sennilega eru u.þ.b. 30 cm frá gólfi upp í hjónarúm og dýrið hafði tekið sér bólfestu í svefnherberginu okkar.

Eftir að hafa myndskreytt undanfarið með þægum, prúðum og búttuðum yngri systkinum sýni ég mína stöðu í þessum pissudúkkufansi:


Myndin er tekin í apríl 1970. (Og enn er það Steina að þakka að ég get tínt þessar myndir eins og ber …)

Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli á því að það er tært brjálæði að henda sínum krökkum út í stuttbuxum í apríl í Kelduhverfi! Sérstaklega börnum án fitulags!

Mér hefur sjálfsagt verið sett fyrir að passa yngri systurnar (Oj!) því ég sé ekki aðra skynsamlega ástæðu fyrir því að ég sé með þeim á mynd. Sjálf horfi ég dreymandi oní ána (held að myndin sé tekin á brúnni yfir Litlá, það myndi líka skýra vaðstígvélin sem ég er í), sem kann að stafa af því að ég sá hvort sem er ekki neitt.  Sjónin versnaði hratt á þessum árum, augnlæknar lágu ekki á lausu lengst norður í rassgati, og ég ólst því upp í umhverfi sem leit út eins og Gaussian-blur filter hefði verið lagður yfir allt og alla. En kannski er draumkenndur svipurinn af því ég sé að velta fyrir mér að henda annarri hvorri systurinni í ána … svona til að heyra öskrin?

6 ummæli við “HARPA: 1, MÚS: 0”

 1. Valdís ritar:

  Ég kannast við þessi kvikindi frá því ég bjó með Eddu systur niðri í Aðalstrætinu. Þar lærðum við m.a. það að karlkyns húsamýs eru alveg óskaplega hreðjastórar og af þeim er alveg skelfileg lykt.

 2. Harpa ritar:

  Engar hreðjar (kannski vont að sjá þær á 200 km hraða kvikindins hér innanhúss) og engin lykt. Voða pen mús ef ég á að segja eins og er … mátti finna oggulítinn músaskít með lagni.

  - Ég er bara algerlega á móti dýrum hér á heimilinu, eftir að Kalli sálugi varð saddur lífdaganna. Ógislegustu dýrin eru kóngulær. Þess vegna er ég heldur hlynnt járnsmiðum sem stundum sjást því þeir eru víst ljónin í dýraríkinu og éta öll hin dýrin.

  En ein mús á tíu ára fresti … það má lifa við það.

 3. Heiðrún Hámundar ritar:

  Ertu viss um að þetta hafi ekki verið rússnesk skiparotta með sogskálum eins og eymingja litla húsamúsin í reykherbergi nemenda FVA (fyrir 15 árum síðan) stökkbreyttist í á augabragði!

 4. Harpa ritar:

  Almáttugur, Heiðrún, heldurðu að það geti verið? Mér finnst samt að ég hafi skynjað að músin mín væri íslensk, gott ef ekki með skagfirskar rætur. Þessi mús ykkar reyknema (mínus þig - þú reyktir ekki ef ég man rétt), varð hún svona rússnesk í síðari tíma munnmælum?

  Ég man eftir músum sem voru alltaf að slæðast inn í eldhús kennaranna áður en músaheld nýbyggingin reis en hélt alltaf að það væru venjulegar hagamýs eins og í sveitinni. Hagamýs geta verið ljómandi krúttlegar en eru ekki svona straumlínulaga og fljótar í förum og mín mús (sáluga).

 5. Heiðrún Hámundar ritar:

  Músin í reykherberginu fékk þjóðerni og ýmis einkenni eftir því sem fleiri fréttu af henni. Á endanum var hún komin með sogskálar og allt hvað eina.

  Á þessum tíma lágu ryðgaðir rússneskir togarar við höfnina, en það er nú ansi langsótt að blessuð músin hafi komið þaðan.

  Þetta hefur ábyggilega verið ósköp saklaus hagamús í mýrinni á Akranesi.

  Svona geta sögurnar breyst á milli manna;o)

 6. Harpa ritar:

  Ég vek athygli á því hvað litlu systurnar halda fast hvor um aðra og reyna að hlýja sér meðan þessi bloggynja horfir í allt aðra átt, út úr myndinni, og er greinilega svo ekki að samsama sig þeim litlu!