Færslur frá 21. október 2008

21. október 2008

Týnda barnið

Meðan ég las gegnum Konuna í köflótta stólnum var mér hugsað til þess hvað gæti átt við mig og hvað ekki.  Mjög margt átti við, t.d. svissið úr klassískum verkum í popplög, þess vegna ABBA. Báðar hafa þessar konur, sú í stólnum og ég, prófað aðferðina “drekkja sorgum sínum”, árangurslaust. (Ath. að þetta er bara aðferð en af því sorgirnar geta synt þá skilar hún aldrei neinum árangri.) En þar sem mér fannst Konan í köflótta stólnum vera tímamótaverk fyrir 10 árum þá fannst mér hún nú vera gömul klisja, að vísu ágætlega stíluð klisja en klisja samt.

Ég gat engan veginn samsamað mig því uppátæki konunnar að láta sjá fyrir mér í áratug meðan ég eyddi öllum eigin launum í sálkönnun. Léti ég sjá svona fyrir mér tæki ég jafnframt upp búrku, af skömm. Auðvitað veit ég í stórum dráttum út á hvað svona sálkönnun gengur, las að mig minnir ævisögu sálkönnuðar konunnar um sömu jól og við sem höfum gengið gegnum barnabókmenntakúrs í HÍ erum nokk verseruð í Freud! (Aftur á móti lærir maður voðalega lítið um börn eða þeirra uppáhaldsbækur í svona kúrsi.  Svoleiðis lærist líka best “hands on”!)

Mestan part virtist meðferðin byggjast á einhverju svipuðu og spor AA (mínus kristilegheit) og svolítið að greina líf konunnar í tímabil, kölluð fasar, sem minntu soldið á gamla trú á tunglið og tíðir og þess háttar. Til að enda þessa umfjöllun um konuna í köflótta stólnum staðhæfi ég að hún hefði verið nokk betur sett inni á geðdeild prufandi þríhyrningslyf og talandi við einhvern með fætur á jörðu, sem ekki vökvar blómin í geðlæknistímanum.

Þessi bók kom að góðum notum fyrir mig því ég fór að hugsa og rifja upp og reyna að muna hvenær ég hefði orðið ga-ga. Mjög lengi hélt ég að sjúkdómurinn hefði vaknað þegar við fluttum suður og ég var 11 ára. Það er erfitt að flytja að norðan út af minnimáttarkennd Sunnlendinga þegar kemur að framburði og hreim. En ég held að það sé ekki einn sérstakur trigger (enda hef ég ekki trú á að sjálfið mitt hafi “brotnað sundur” á tilteknum tímapunkti … og ég svo keyrt á  undirvitund og yfirsjálfi það sem eftir var). Sennilega er myndin til hægri tekin haustið 1970 og ég dauðvorkenni stúlkubarninu að þurfa að ganga með hallæristíkarspena sem gerðu útstæðu eyrun enn útstæðari og hárið er svo þunnt og læpulegt að annað hvort er það aldrei þvegið eða stúlkan þjáist af næringarskorti. Á hún ennþá bara eina peysu?

Ég held hins vegar að ég hafi verið orðin talsvert veik 10 - 11 ára gömul.  Ég var einræn, vildi helst sitja útí horni og lesa og loka heiminn þannig af.  Það hefði sjálfsagt virkað ef barnungir foreldrar mínir hefðu ekki haft þá skoðun að lestur væri óholl iðja í óhófi.  Af þessu lærði ég að fela bækur (hafði lykil að lestrarfélaginu fyrir norðan og las nánast allar bækurnar í því) og vissi um leið og ég heyrði klisjuna “Börn barna eru gæfubörn” (Organistinn í Atómstöðinni) að þessi klisja væri algert kjaftæði og í rauninni  ranghermi!

Ég man eftir ofboðslegum kvíðaköstum sem voru afgreidd með “krakkinn er myrkfælinn”!  Enda satt að ég var skelfingu lostin af tilhugsuninni um Grýlu og íslenskar þjóðsögur þaðan í frá! Ég man eftir að hafa legið í rúminu fast upp við vegginn og að hafa átt í mestu vandræðum með að ná andanum - hjartað komið upp kok.

Einhvern tíma leit á mig læknir, á Raufarhöfn.  Ég hugsa að ég hafi verið svona 6 - 7 ára gömul. Þá hætti mér til að fá mikla verki í brjósthol sem leiddu niður í handlegg. Þessi læknir var ein af miðaldra fyllibyttunum sem voru sendar þarna norður í sukkið (síldar- eða síldarleysis). Þarna fyrir norðan var þessi læknisýpa alltaf afsökuð með því að þeir væru a.m.k. góðir handverksmenn þótt þeir væru ansi oft fullir. Þessi læknir greindi mig móðursjúka og gott ef ég átti ekki að taka lýsi. Hann hlustaði þó eftir hvort ég væri hjartveik og ég tel honum það til tekna.

Núna, búin að vera fullorðin og geðveik í áratug sé ég í hendi mér að þessi “millirifjagigt”, hjartsláttur og andnauð voru algengustu birtingarform kvíða. Það sem hefði gert mér gott var ummönnun  og  samúð - ekki norðurþingeysk prótótýpa af “uppeldi”, svo ekki sé minnst á almennilegan lækni sem héngi ekki á hnefanum milli túra.

Ég veit að ég fór í fyrsta sinn á ævinni til tannlæknis hér á Akranesi. Sjálfsagt hefur það verið tengt flutningunum suður. Ég man að ég fór til hans nokkra daga í röð - veit að gert var við fælu af tönnum og skemmdar tennur rifnar úr. En þessi dvöl hjá tannlækninum er í algeru blakkát!  Hvernig má annað vera?  Hann var frægur fyrir fantatök. Alla ævi hef ég verið skíthrædd við tannlækna, lyktin á stofunni er nóg til að skelfingin geri var við sig. Hins vegar hef haft ég príma tannlækni árum saman sem er svo elskulegur að deyfa mig upp að augum áður en hann svo mikið sem skoðar tennurnar ; )

Ég get auðvitað haldið áfram og áfram … um svefnsýkina sem greip mig 13 ára og félagsfælnina upp úr því og alltaf hreint sambúðina við helv. kvíðann, uns ég fattaði að hann mætti deyfa með brennivíni og svo öll sú sorgarsaga upp úr því.

Nei, það sem ég er að velta fyrir mér er hvort ættgengur kvíði (jafnvel þunglyndi líka) geti gert vart við sig mjög snemma á barnsaldri. Og ef svo er hvernig má lækna / laga hann? Ég staðhæfi að lestur Mjallhvítar eða Gilitruttar eða einhvers annars ævintýris hefði ekki virkað hætis hót til lækningar, hvað sem Bettelheim segir og snýtir út úr Freud.

Það sem ég ætla að gera er að nýta mér trikk úr FBA (Fullorðin börn alkóhólista) og reyna að hugga stelpuna hér að ofan.  Taka utan um hana í huganum, losa um ömurlega tíkarspenana og vera virkilega virkilega góð við hana. Kannski verður hún líkari stúlkunni sem var, þessari 7 ára á myndinni hér til hliðar (sem gat spilað sig fríska). Kannski getum við sameinast, týnda barnið og ég, báðum til hagsbótar.

Ummæli (9) | Óflokkað, Geðheilsa