16. nóvember 2008

Ég get svo svarið það

að okkar lið var fegurra og föngulegra en þeirra í Kópavogi! En ekki fer alltaf saman gæfa og gjörvileiki, vita allir sem hafa lesið svona tug Íslendingasagna eða svo, auk Kamelíufrúarinnar, og hefði kópvoxni íþróttafréttarinn kallað frammistöðu okkar Skagamanna í Útsvari  ”að lúta í gras”. Eina dæmið sem Orðasambandsbanki Árnastofnunar finnur um þetta er “(<verða að) lúta í gras (fyrir <sverði hans>)”  Svoliðis að mig minnir rétt um að lúta í gras sé að drepast endanlega og því ekki fallegt að sífra það yfir keppnismönnum í gamnikeppni … 

           

              

Þótt okkar lið hafi verið sýnu gervilegra en það kópvoxna komst ég að því áðan að okkar bæjarmerki er klastur eitt hjá þeirra í Kópavogi.  Reyndar má nefna til afsökunar að Akranes notar sitt merki voðalega lítið og sjálfsagt halda flestir, bæði innan og utan bæjarins, að hið gula glaðlega merki ÍA sé bæjarmerkið. Ég sýti ekki þann misskilning eftir að hafa séð lummulegt bæjarmerkið okkar.

Ég hitti kollega minn á vinnustað í gær, hvar hann lék við hvurn sinn fingur (hvernig sem það er nú hægt í ritgerðayfirferð?)  Hann mátti enda una ósigrinum vel því hann var áberandi langvitrastur í liðinu.  Frumburðurinn, sem ég talaði við í síma, bar sig líka ótrúlega vel og sagði að hefði kolleginn minn alltaf fengið að ráða svari hefðu Skagamenn líkast til unnið.

Sjálfri finnst mér að hefði vel mátt splæsa nokkrum aukastigum fyrir óhóflega kunnáttu og á ég þar við ræðu frumburðarins um Bjarna Harðarson. Auðheyrt var að drengurinn kunni jafnmikið eða jafnvel meira um Bjarna þennan en selveste múmínálfana!  Það að draga hann til ábyrgðar fyrir að svara ekki þessari smotteríisspurningu um varamann Bjarna finnst mér lummulegt, þegar búið er að telja upp öll börn Bjarna, segja deili á eiginkonunni o.m.fl. Ég reikna með að báðir ættleggir séu sammála mér um þetta.

Næsta verk frumburðarins verður að skóla til bróðurinn sem brást svo lið FVA vinni nú örugglega lið MK eða hvert það lið sem það mætir :)

7 ummæli við “Ég get svo svarið það”

 1. Harpa J ritar:

  Akranesliðið var miklu flottara. Og er ég samt uppalin í Kópavoginum…

 2. skyld í 7.lið ritar:

  Sæl Harpa.Ef þér finnst ekki hroki að kalla fullorðna menn pólitíska pabbastráka og illaútlítandi sauðahjörð (jafnvel hundurinn var miður sín)erum við með mjög svo ólíkar skoðanir.Ég hef hingað til getað látið álit mitt í ljós ódrukkin(áttir þú ekki við það með glösin 9)en við skulum láta það liggja á milli hluta með ágæti mitt og eða hvort ég er með fulla fimm,dæmi það hver fyrir sig.Varðandi svívirðingarnar eins og þú segir í sambandi við systkini þín,hafði þessi klausa mín ekkert með systur þínar að gera.Einar má hins vegar taka þetta með hundinn til sín.Það er mitt mat að Einar er vel af Guði gerður og ekki telst það til svívirðinga.Ég biðst velvirðingar á því að hafa ekki skrifað undir fullu nafni.Vertu svo blessuð og sæl og eigðu góðar stundir.Sigurveig Ingimundardóttir.

 3. Harpa ritar:

  Sæl Sigurveig

  Ef markmið mitt væri að skrifa af djúpri auðmýkt um allt og alla og aldrei segja neitt neinum til hnjóðs myndi ég að sjálfsögðu skrifa guðspjöll en ekki blogg, enda væri ég þá dýrlingur en ekki bloggynja.

  Hástafir í tölvupósti eða neti tákna öskur. Þú öskraðir nokkrum sinnum eitthvað með eða um hundinn. M.a. þess vegna og af nánum kynnum við ættingja mína almennt taldi ég ólíklegt að þú værir edrú. Þín vegna vona að ég að þú drekkir sem sjaldnast. Mér hefur tekist að hanga á snúrunni næstum tvo áratugi en er ekki endilega með fúlle femm - geri þó hvað ég get í þeim málum.

  Það er lítilmannlegt og hallærislegt að koma með öskrandi gagnrýni án þess að geta nafns. Í þínu tilviki var bara svo pínlega auðvelt að giska á hver þetta væri.

  Amma mín og pabbi þinn voru systkini … gerir það okkur ekki að skökkum þremenningum? Ég pant ekki vera sú skakka!

 4. skyld í 7.lið ritar:

  Sæl Harpa.Ég ætla ekki að munnhöggvast við þig,en sem bloggynja áttu að geta tekið gagnrýni.Þó að einhverjir ættingjar þínir eigi við áfengisvanda að stríða getur þú ekki sett mig undir þann hatt.Við getum alveg eins verið í 7.lið eins og skakkir þremenningar.Góðar stundir.Sigurveig Ing.

 5. Guðrún Vala ritar:

  er þessi kona frænka þín og/eða Gylfa?
  annars ætlað ég bara að benda þér á www.taska.is allveg brilljant….

 6. Harpa ritar:

  Konan og Gylfi eru sjálfsagt skakkir þremenningar. Pabbi hennar er yngstur í Bakka-systkinaröðinni.

  Töskudæmið er æði! Ég þarf að skoða það betur.

 7. Gurrí ritar:

  Sammála, Akranesliðið var miklu flottara, sætara og skemmtilegra. Máni fór á kostum, við sonur minn lágum í kasti yfir honum og sáum m.a. fyrir okkur jólafrí Vífils þar sem hann stautar sig fram úr Biblíutextum fyrir Gettu betur. Akranesliðið var mjög gott, það hvílir bara einhver bölvun á keppni þess gegn fokkins Kópavogi. (hehehehhe)