7. desember 2008

Sumt potast en annað ekki

Jákvæðu tíðindin eru að nú er næstum allt búið nema eldhúsið. Og eldhúsið verður sett upp í næstu viku, reiknum við með. Svoleiðis að nú er bara ein vika eftir í útilegunni á efri hæðinni - en við höfum dvalið þar í góðu yfirlæti þannig séð.

Hurðir og dyrastafir kunna að frestast fram í janúar. Ég hef margoft gefið í skyn við okkar góðu tréiðnakennara að ég vilji eftirmynd af Valþjófsstaðahurðinni  sem útidyrahurð … en ævinlega fengið blankt augnaráð og ekkert svar. Í gær stakk Atli upp á að fræst yrðu nöfnin okkar, í útidyrahurðina en þeim tréiðnakennara fannst það ekki sniðugt. Hvenær ætla þessir menn að nota tölvustýrða fræsarann?  Ég bara spyr … En úr því innihurðir eru tilbúnar og spónlagðar með öllu er sjálfsagt ekki hægt að fræsa neitt spennandi í þær hurðir. 

Þótt sumt sé að verða svo fínt að það sé of fínt! Má nefna að eftir lökkun korkparketts  glansar það svo mjög að konur geta ekki verið í pilsi hér inni, þetta er eins og að labba á spegli. Samt stóð á dollunni Silk Mat, segir lakkarinn. Já, þótt sumt sé orðið þannig últra-fínt má finna drusluleg bæli eða afkima (kolbítsins) innan um fínheitin og nefna að við erum eina fólkið í götunni sem ekki er búið að skreyta með svo mikið sem einni peru!  Mér datt í hug að okkar góðu flóttamenn yrðu glaðir að sjá þetta og teldu fólkið í þessu húsi vera upplýst fólk, trúmálalega séð, eftir að hafa séð gyðingakertastjaka í hverju einasta húsi í bænum, tvo og þrjá sumstaðar.

Ætli maður verði ekki að setja upp eitthvert ljósadót?  Menn skreyta sko ekki við sleitur hér á Skaganum og sumir setja ekkert fyrir sig mismunandi uppruna, sbr. jötusenuna með snjókarli öðrum megin og kókjólasveini hinum megin, í næstu götu … Eina ljósadótið sem við eigum hefði sómt sér vel í National Lampoon’s Christmas … og á hverju ári vona ég að það sé ónýtt! Þeir feðgar hafa alltaf skreytt kirfilega einn glugga, þ.e. mokað öllu jólaljósakyns í stofugluggann. Það lítur að sjálfsögðu hörmulega út en við skerum okkur þá ekki úr götumyndinni á meðan.

Ég skoða með að moka út úr helli kolbítsins eftir dúr. Það er alltaf línudans hversu mikið má gera þegar manni líður þokkalega því eftirköstin daginn eftir geta verið slæm. Og á morgun eru mín minnstu börn í prófi og þurfa bjartsýnislegan kennara sem getur talað / hvíslað og man orð. Sami kennari þarf að geta horft hlýlega og óþunglynt á hvern nemanda og helst að brosa uppörvandi (sem er verulega erfitt sé kona djúpt sokkin).

Mía litla skreytir aldrei fyrir jólin eða hvað? 

6 ummæli við “Sumt potast en annað ekki”

 1. gua ritar:

  Ég man þá tíð þegar ég labbaði framhjá svona bælum (á fjóra syni) og rétti bara út hendina til að loka hurðinni svo brækjan færi um alla íbúð :) kv.gua

 2. gua ritar:

  þetta átti að vera færi ekki um alla íbúð he he

 3. Kornelia ritar:

  Verð bara að segja það að ég sakna allrar ljósadýrðarinnar sem er alltaf heima um jólin.
  Hér setur fólk upp ljós þegar það flytur inn og skiptir þá ekki máli hvenær á árinu því þau nenna ekki að standa í þessu veseni á hverju ári að setja upp og taka niður.
  Svo grýlukertin og allavega ljósaperur sér maður allt árið, en bara kveikt á þessu dásemdum um jól ef það man þá eftir því og ef svo vel tekst til að þau séu í gangi yfir jól já þá geta þau fengið að vera í gangi þangað til næsta haust :P

 4. Níels ritar:

  Sæl Harpa,

  Ég fann eina mynd þar sem Mía litla er a.m.k. að hjálpa til við að skreyta.

  http://farm3.static.flickr.com/2406/2160752412_83504dc170.jpg?v=0

  Kv.
  Níels

 5. Máni Atlason ritar:

  Mér sýnist hún vera að stela skrautinu.

  Mímla væri vís til að skreyta, en ég veit ekki með Míu.

 6. Harpa ritar:

  Svei mér þá ef þetta er ekki rétt, Níels! Ég er í sjokki … hugsandi um krosstré sem önnur tré og annað álíka.