Færslur frá 1. ágúst 2008

1. ágúst 2008

Snúið á ný til bloggheima

Ég ákvað að hverfa aftur til hollra lífshátta.  Hollir lífshættir eru m.a. að blogga og una sér við hannyrðir.  Þess vegna hef ég (í huganum) lagt drög að svartri klukku, klukkprjónaðri náttúrlega og rifjað upp ýmsar stillingar á þessu bloggi (ekki allar samt - man ekki hvar maður fer inn í kóðann sjálfan en reikna með að finna það fljótlega út).

Sumarið hefur annars liðið í velsæld, sem sjá má að nokkru leyti á myndasíðu mannsins, http://this.is/atli/album. Af eigin afrekum má helst nefna að ég las ævisögu mína undanfarin 4 ár (1500 bls. af bloggi). Mestallt var þetta nýtt fyrir mér og því mjög spennandi að vita hvernig ýmsum málum lyki :)   Þegar ég var farin að lesa í þriðja sinn setninguna “Ég var að klára Fólkið í kjallaranum. Hún er svakalega góð!” einsetti ég mér að  hía á hvern þann geðlækni sem heldur því fram að minnistap eftir raflostmeðferð dekki ekki nema nokkra mánuði!

Ég hef tekið ástfóstri við nýjar hannyrðir sem eru að búa til stafrænar úrklippubækur (”scrap”) af formæðrum mínum og for-hinu og þessu. Hef svifist einskis til að ná í heimildir!

Loks má nefna að ég hef fengið mér nýtt kjörorð eða möntru til að tyggja yfir sjálfri mér, til rósemdar og sáttar við heiminn. Ég var orðinn dulítið þreytt á “einn dag í einu”; “góðir hlutir gerast hægt / með hægðinni hefst það”, “gættu dagsins í dag því hann er lífið sjálft” o.s.fr. Í bíltúr okkar hjóna gerðum við stuttan stans í Húsafelli og þá sá ég þessi kjörorð á legsteini. Síðan hef ég komist að því að þetta er grafskrift á leiði Nikos Kazantzakis (1883 - 1957), frægasta kríska skáldsins, sem m.a. samdi Grikkjann Zorba og Síðustu freistingu Krists. Nýja mantran / tuggan er:

Ég vænti einskis; Ég óttast ekkert: Ég er frjáls. (Δεν ελπίζω τίποτε. Δεν φοβάμαι τίποτε. Είμαι λεύτερος ) 

Keypti mér 2 boli með þessari ályktun og mun kappkosta að lesa grískt letur á haus frá ofan brjósta niður á nafla þegar ég lendi í óvenju ergilegum kringumstæðum í vinnunni og slaka mér þannig niður. Ég vonast t.d. ekki til þess að allir ofvirku nemendurnir séu á ritalíni …

Jæja: Farin að fitja upp og koma mér fyrir til að horfa á hann Barnaby krúsidúllu leysa nokkur morðmál.

Ummæli (12) | Daglegt líf