Færslur frá 8. ágúst 2008

8. ágúst 2008

Dagamunurinn

Ég hef sigið neðar á geðslagsmælikvarðanum undanfarna daga. Það er hundleiðinlegt!  Eitt sem fylgir er rugl á svefni: Nú sef ég á þrískiptum vöktum og næturvaktinni lýkur kl. 5. Ég reyni að njóta rólegheitanna þegar heyrist ekkert nema tístið í litlu góðu fuglunum (við að skíta á pallinn minn) og smellirnir í bréfalúgunni þá pappírsflóðið berst. Ég get upplýst að í þessu hverfi  berst mogginn kl. 5.15 og fréttablaðið kl. 6.05.

Að sjálfsögðu ákvað ég að líta á þessa lægð sem hvurn annan dagamun. Sumir skreppa á barinn til að gera sér dagamun; ég hjúfra sófann og les, í þessu ástandi.

Las: “Hún hafði rumskað aðeins en var að koma til, hugur hennar var eins og mysa, gráhvítur og óskýr.” (Fritz Már Jörgensson. 2008. Grunnar grafir, s. 229, feitletrun mín.) Persónunni hafði verið byrlað Ropan í miklu magni en var ekki beinlínis að gera sér dagamun eða föst í dagamun en líðanin virðist svipuð. Orðsifjasinnaður heimspekingur heimilisins fór strax að fabúlera um að af þessu orðalagi og ástandi, þ.e. að hugurinn sé eins og mysa, væri dregið orðið myslyndur!

Mér finnst mysa hryllilega vond!  Mér finnst dagamunur líka hryllilega vondur. Af því leiðir að ég samþykki umsvifalaust að myslyndur sé orðsifjalega rétt stafsetning og mun hér eftir reyna að tryggja ypsilonið.

Ummæli (2) | Óflokkað, Geðheilsa