Færslur septembermánaðar 2008

28. september 2008

Þreytt eða löt?

Ég er svo þreytt alltaf hreint. Eiginlega líður mér best í bælinu. Óvísindaleg heimilisráðskönnun bendir til járnskorts (trikkið með að kíkja undir neðra augnlok). Ég er byrjuð á járni + C-vítamíni. Fer í lýsið mjög fljótlega. (Einn heimilislæknanna í okkar góða Kardemommubæ er alin upp og menntuð einhvers staðar austantjalds.  Þ.a.l. finnst henni þessir lífsstílssjúkdómar bara aumingjadómur og er fræg fyrir að ráðleggja öllum það sama: “Ein vika í rúmi og taka lýsi”. Ég hugsa að amma mín heitin hefði kunnað vel að meta þennan lækni.)

Ég gæti sosum farið í blóðprufu en þá yrði ég að tala við lækninn sem vill láta athuga allan andskotann úr því verið er að þessu á annað borð! Mér finnst ekkert sniðugt að láta tappa af mér fimm glösum af blóði (er t.d. ekkert viss um að ég hafi efni á svo miklu) bara af því ég vil láta mæla hem og skjaldkirtilsvaka.

Lýsi í óhófi eða 5 glös af blóði? … það er erfitt að taka afstöðu til þess. Kannski bara best að að fresta.

Ég fór í labbitúr niður á Sandinn og prófaði meira að segja að hlaupa svolítið. Það próf bendir til að best sé að láta hlaup eiga sig - nema náttúrlega maður sé að missa af strætó; Borða alla vega úr einum lýsisstampi áður en hlaup verða næst á dagskrá.  Aftur á móti á ég ekki í neinum vandræðum með að striksa, þ.e. labba hratt og baða út öllum öngum (stundum kallað kraftganga).

Ég tók myndir af marglyttum á Sandinum.  Mér líður pínulítið eins og svona marglyttu. Þess vegna punta tvær þessa þreytulegu færslu.

Ummæli (8) | Óflokkað, Daglegt líf

25. september 2008

Dagurinn í dag

Ég hef einbeitt mér að því að taka einn tíma í einu í dag… við kennarar erum einmitt svo heppnir að geta auðveldlega afgreitt helft vökutímans akkúrat í anda AA-fræða og annarra sjálfshjálparfræða.  Nemendur voru ósköp elskulegir (eins og oftast) og mér tókst að spila írska lagið um Dónald og Mórag, sem giftu sig með bravúr og bæði skólastjórinn og presturinn mættu í veisluna miklu … Það kemur mér ávallt jafnmikið á óvart að börnin mín hafa ekki frétt, í sínum grunnskólum, af því að töluð séu önnur tungumál á Bretlandseyjum en enska. Þess vegna spila ég lagið og dreifi textum (með enskri þýðingu einnig) svo við getum öll ímyndað okkur hvaða tungumál Ólafur okkar pá talaði við afa sinn á Írlandi.

Seinnipartur dagsins var erfiðari. Ég reyndi að sofa aðeins en það gekk ekki. Svo fór ég á kaffihús með vinkonu minni og við slúðruðum um allt til syltetøjs og sláturtöku - listarinnar að finna kartöflugrös og taka svo upp kartöflurnar.  Tek fram að ég hef enga yfirburðaþekkingu á þessum umræðuefnum ;)  

Sannfærði manninn á bókasafninu að það yrði að kaupa Ættir Þingeyinga 16. bindi því ég væri í því bindi! Eftir smávegis spjall um ættfræði og svoleiðis sagði ég honum af krækjunni á heimasíðunni minni, hvar ég rek ættir mínar til Adams og Evu. Maðurinn spurði í forundran: “Voru þau Þingeyingar?” Þá drap ég málinu á dreif og kom mér út.

Ég er enn ósköp hrygg yfir afdrifum frænku minnar. Jafnvel þótt ég hafi ekki þekkt hana sjálfa þá standa að hverri manneskju fjöldi vina og ættingja. Það er fjölskylda hennar sem ég hugsa mest um, ræturnar. Ekki skrítið að í fornu kvæði segi: “Drottinn minn / gefi dauðum ró/ og líkn þeim sem lifa”. Ég held að líknin sé fjarri á þessari stundu en síðarmeir fær fólk vonandi einhverja líkn þótt hún dempi aldrei sársaukann að fullu.

Á minningarsíðunni, sem að stofni var hennar eigin bloggsíða, er boðuð minningarstund seinnipartinn á morgun, í Vídalínskirkju í Garðabæ. Þetta hlýtur að eiga að vera fyrst og fremst stund fyrir vini Hrafnhildar Lilju og þá sem stóðu henni næst.  

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf

23. september 2008

Meyr

sitjandi við tölvuna og veltandi fyrir mér hvað skilur milli lífs og dauða. Það er engin regla í því hvurn sláttumaðurinn slyngi velur:

Dauðinn má svo með sanni
samlíkjast, þykir mér,
slyngum þeim sláttumanni,
er slær allt, hvað fyrir er:
grösin og jurtir grænar,
glóandi blómstrið frítt,
reyr, stör sem rósir vænar
reiknar hann jafnfánýtt.

 

Þegar ég fékk fréttirnar af frænku minni sat ég og starði á skjáinn heillanga stund - svo komu tárin. Ég treysti mér ekki til að setja upp fés og kenna eftir hádegi heldur boðaði forföll. Nú er ekki svo að ég hafi þekkt þessa frænku mína náið - sennilega höfum við örsjaldan sést. En ég þekki til hennar; mömmu, ömmu og aðra.  Það er ótrúlega margt búið að leggja á þessa fjölskyldu!

Ég er ennþá meyr inni í mér og hef mig ekki til nokkurs hlutar.

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa

21. september 2008

Bölvaður kvíðapúkinn

gerir mér lífið leitt!  Ég hef sætt mig við að vakna kringum hálf-sex á morgni hvurjum (enda að berja “ár skal rísa” inn í mína góðu nemendur); hafði fullvissað mig um að án skjálftastillandi lyfs gæti ég ekki unnið (ég gerði tilraun en þá er ekki nóg með að ég geti ekki skrifað á töflu heldur get ég ekki loggað mig inn á tölvu nema ríghalda hægri úlnlið með vinstri hönd og reyna svo að hitta á lyklaborðið); Ég hafði meira að segja sannfært mig um að þetta væri alls ekki kvíði heldur parkinsons-leg aukaverkun sem getur fylgt einu lyfjanna sem ég tek - man ekki einu sinni hvurju.

Með æðruleysið í botni og skynsamlegri sambúð við skjálftann hafði allt gengið prýðilega á önninni. Þangað til í gær. Í gærkvöld var mér boðið í merkisafmæli vinkonu minnar. Ég var búin að kaupa gjöf, sjá út hvaða flíkum ég gæti verið í (meira að segja valið skó) og hlakkaði heilmikið til veislunnar. Í gærmorgun vaknaði ég reyndar klukkan 4.30 en lét það ekki á mig fá heldur hellti upp á kaffi og lúslas morgunblöðin, fór svo yfir ritgerðir og lagði mig loks um það leyti sem hitt heimilisfólkið var að skríða á lappir.

Dagurinn leið vel; tengdó komu í heimsókn og ég eignaðist bæði pekan-hnetu-vínarbrauð (sem eru, að mínu viti, fíkniefni!) og fagra hálsfesti, sem hefði passað við afmælisgallann. Þegar þau fóru reyndi ég að taka pillu og leggja mig aðeins fyrir afmælið en varð stífari og skjálfhentari með hverri mínútunni. Loks fór ég á fætur og ákvað að taka þetta á hörkunni - en þá sá litli kroppurinn (minn) við mér og ég fór að kasta upp. Eftir þrjár uppkastferðir inn á klósett þá hringdi ég í afmælisbarnið og sagði að hversu mjög sem mig langaði til að koma þá gæti ég það ekki. Afmælisbarnið skilur allt og sagði að þetta væri í góðu lagi. Mér sjálfri finnst þetta hins vegar ekki í góðu lagi!

Eins og ég hef margbloggað um eru geðsjúkdómar sérlega líkamlegir sjúkdómar. Sá sem mér finnst slægastur og falskastur er kvíðinn.  Hann getur brotist fram í ótal myndum og sé kona illa haldin af kvíða rúlla einkenni lungnabólgu, parkinsons, hjartaáfalls o.fl. yfir þá litlu konu. Ég kannast við sjóveiki-birtinguna en hef aldrei áður kastað upp af kvíðanum einum saman (reyndar kastaði ég aldrei upp í Akraborginni forðum þótt ég yrði stundum svívirðilega sjóveik).

Ég er ekki viss um að hægt sé að gera nokkurn skapaðan hlut í þessu … og ef einhver stingur upp á grænu te þá kemst ég í drápsham!

Ummæli (5) | Geðheilsa

17. september 2008

Notalegt á Skaganum og smávegis um ritunarkennslu

Veðrið er aldrei þessu vant dýrvitlaust, hér á okkar góða Skaga. Venjulega eru hryðjurnar báðum megin við okkur, undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi; hins vegar logn á Skaganum. Svo er ekki nú. Mér finnst samt ósköp notalegt að sjá varla út vegna seltu á rúðunum og heyra rigninguna belja á húsinu í hryðjum.  Þá er nefnilega svo kósí að kúra sig inni :)

Að vísu bíður mín það leiðindaverk að fara yfir 29 ritgerðir um Hávamál*.  Ekki samt að ég haldi ekki að þær séu góðar - ég gæti meira að segja ímyndað mér að sumar væru skemmtilegar einnig. Þetta liggur í mér sjálfri, þ.e.a.s. að eftir 20 ár í kennslu hef ég ímugust á ritgerðum en hef sömuleiðis sannfærst um að það er ekki hægt að kenna fólki að skrifa nema láta það skrifa. Learning by doing!  Kjaftæðiskenningar sem ganga út á að fólk geti lært að skrifa ritgerð með því að “hanna ritgerð” niður í smæstu atriði, í einhvers konar grind eða fiskmynd (fiskinn tel ég sýna kristilegan áróður sem læðst hefur inn í móðurmálarafræði) … sem sagt er akkúrat ekkert gagn að þessu nema fólk skrifi. Af því ég vil kenna fólki að skrifa með því að skrifa stend ég fyrir dagbóka-handskrifum, mjög misjafnlega þokkuðum meðal dagbókarskrifenda, og gamaldags ritgerðum. Þetta minnir mig á að koma því að að leikni nemenda í handskrift verður minni með hverju árinu. Það veitir sko ekki af að einn kennari og eitt fag andæfi og banni tölvur til dagbókaskrifa!

* Ég ætti að fá tíu ritgerðir í viðbót frá mínum góðu fjarnemendum, um helgina. Gaman!

Það sem tálmar yfirferð einna mest í kvöld er reyfari eftir Läckberg, Ulykkesfuglen heitir sá og er fjórða bók höfundar. (Eftir að hafa klárað Steinsmiðinn, þriðju bókina, gat ég varla beðið eftir þeirri fjórðu! Sem betur fer átti maðurinn leið í Arnold Busck í Köben og var með sérfræðilegan minnislista með sér og hringdi að auki heim - í sérfræðinginn - og kom svo færandi hendi með bókargjöf handa sinni konu!)

Ég gæti náttúrlega talið mér trú um að þar sem mig vanti ábyggilega 2 - 3 ritgerðir sé ekki hægt að byrja yfirferð fyrr en allt sé komið í hús, til að verja sig fyrir ólöglegum afritum og tvíritum …

Ummæli (7) | Óflokkað, Daglegt líf

15. september 2008

Hringsól, hraðall og endurtekningar

Ég er alltaf jafn ofurlítið hissa á hvernig allt endurtekur sig,  gott ef allt streymir ekki? og þá væntanlega í hring, eins og niðurfall í vaski. (Sem minnir mig á ógislega fyndinn Simpson þátt hvar Bart hringdi til Ástralíu til að komast að því í hvaða átt sturtið í klósettinu rynni … en ekki meir um það …)

Tökum dæmi af yfirvofandi heimsendi sem krakkarnir mínir voru svolítið áhyggjufullir yfir (sumir) í síðustu viku.  Ég huggaði margan nemandann með því að til væru nákvæmar uppskriftir af heimsendi í flestum trúarbrögðum og að þær tvær uppskriftir sem ég kannaðist við væru ekki framkomnar og þ.a.l. enginn heimsendi í sjónmáli. Svo ætla ég rétt að vona að blessuð börnin hræddu hafi tekið mark á kennaranum sínum!

Ég hafði enda séð í hendi mér að ef hættan væri mikil hefðu hinir ágætu bæjarstjórnendur hér lánað Akraneshöllina (feikilegt gímald og ljótt eftir því) undir svall og stóðlífi þessa síðustu nótt lífsins alveg eins og Hitaveitutankurinn við Hlemm var brúkaður 1927. Hinir ágætu bæjarstjórnendur hafa hins vegar haft nóg að gera við áhyggjum og ramakveini út af gengi ÍA-liðsins.  Ég veit ekki einu sinni hvort er hægt að kalla þetta “gengi”; hvort ekki verður að svissa yfir í “fallbraut”, eða jafnvel “hvínandi fallbraut”! Þetta er náttúrlega agalegt! (Hef engan áhuga á fótbolta en þegar staðan er þessi stöndum við Skagamenn saman!)

Góðu fréttirnar eru náttúrlega að hægt er að veifa sjálfsmörkum og markaleysi liðsins framan í manninn og rökstyðja þar með að sjóböð geri ekki gagn úr því að böð í ísköldu vatni í fiskikörum - íbætt ísmolum til hátíðabrigða - virka akkúrat ekki neitt!

Í gær átti ég afmæli. (Ég er samt í biðröð með afmæliskringlu á vinnustað því blóminn af kennaraliðinu á afmæli um þessar mundir.  Mér hefur verið úthlutað miðvikudegi.) Hingað kom fólk með blóm og gúmmelaði og við áttum óskup huggulegan afmælissunnudag. Maðurinn hefur aukinheldur fundið það út að áhrif hraðalsins í Sviss hafi einkum verið þau að nú líði afmælisdagar aftur á bak. Maðurinn telur sumsé að ég hafi yngst um eitt ár í gær. Þetta er gott ef satt er. Aftur á móti held ég að maðurinn sé í afneitun. En eftir að hafa LESIÐ í Fréttablaðinu að maðurinn sé gáfaður trúi ég því enda alin upp við að það sem er skjalfest - það blívur.

Ummæli (6) | Daglegt líf

10. september 2008

Í skólanum í skólanum er …

ekki alltaf jafn skemmtilegt að vera!  A.m.k. ef mar sé kennari (hér sýni ég leikni mína í málsniði blessaðra unganna). Ég hef hugsað mér að koma nokkuð inn á vinnuna mína í þessari færslu og beini til móðursjúkra baddnlendinga að stoppa lestur hér svo þær fái ekki flog.

Í það heila er ég með fína krakka. Ég get sosum skilið að innanlandspólitík í Noregi um 850 - 60 er ekki mjög heillandi viðfangsefni. Sem betur fer er alltaf sami gaurinn hafður vondi kallinn í mörgum Íslendingasögum (sem er kóngurinn Haraldur lúfa/hárfagra). Þannig að setningin “Við erum stödd í Noregi um 850/60, jafnvel 880, gerir sig vel í öllum áföngum, enda höfum við vísu kennararnir troðið Íslendingasögum í þá alla. Ég get samt skilið að þotuliðið í Laxdælu heillar ekki jafn mikið og Amy Winehouse eða sú fagra Britney Spears, sem er tvímælalaust kvenna vænst um þessar mundir.  Svo er ég svo lukkuleg að kenn enn einn ganginn hina ágætu hryllingssögu Börnin í Húmdölum, með kennsluaðferðinni “kennarinn les fyrir bekkinn”, sem allir eru hæst ánægðir með.

Inn á milli, í nýnemahópum, verð ég áþreifanlega vör við stelpu-stjan grunnskólans. Ég reikna með að þetta eigi við flesta grunnskóla, þ.e.a.s. á unglingastiginu er sætum, penum, kvenlegum stúlkukindum hyglað á kostnað strákanna, sem eru taldir óalandi og óferjandi af litlum sökum (akkúrat hérna tala ég af reynslu, hef reyndar átt syni í báðum grunnskólum bæjarins og sé ekki mun á þeim). Skilningsríkir femíniskir grunnskólakennarar gera meira ógagn en gagn. Svo ég ýki nú þá er árangurinn sá að meðal fyrsta árs strákur hefur það á tilfinningunni að hann sé glæpon en meðal fyrsta árs stelpa telur að hún sé nafli alheimsins. Þessir hópar ganga náttúrlega ferlega illa saman!

Ég hef, ásamt mörgum öðrum kennurum, ákveðið að láta þessa félagsmótun grunnskólans sem vind um eyru þjóta.  Mér er slétt sama hvort sextán ára fegurðardís mæti með þrjú eða fimm lög af maskara í tíma til mín: Þangað komin á hún að læra og innifalið í því er að læra að allir nemendur eiga jafnan rétt á tíma og athygli kennarans. Maskarann lít ég ekki á!

Mér er ljóst að grunnskólakennarar eru njörvaðir niður í sínu starfsumhverfi* enda má bókstaflega ekki blaka við nemendum án þess að fá foreldrasettið yfir sig. En þegar ég fæ nemendur sem voru kerfisbundið reknir út úr kennslustundum á morgnana og látnir mæla gangana frá 7. bekk þá grunar mig að lært hjálparleysi grunnskólakennara sé fullmikið.

* Um þetta hefur elskulegur eiginmaður minn skrifað langar og lærðar greinar, sjá bloggið hans.

Jæja, þá er ég búin að koma pirringnum út í bili :)    

—-

Út í búð áðan sá ég eina af þessum slæðukonum sem ónefndur Skagamaður kallaði í fjölmiðlum “blæjukeddlíngar með barnavagna”. (Ónefndi Skagamaðurinn er víst búinn að skrifa 400 síðna bók um efnið sem kemur út fyrir jólin … verður spennandi að sjá hvernig hann útfærir hugmyndir sínar um flóttamenn og Ísland.) Þessi fíngerða slæðukona var með slæðu í stíl við buxurnar, í gylltum sjatteríngum, og alveg hreint bráðmyndarleg.(Talsvert myndarlegri en ónefndur Skagamaður verð ég að segja!)   Tvo krakkaskott fylgdu henni eftir um búðina og augljóslega var þarna íslensk kona stuðningsaðili.

Í Mogganum í morgun var fjallað um flóttamennina okkar og ég var stolt yfir að vera Akurnesingur og að bærinn minn fengi að taka á móti þessu fólki. Að vísu fór aðeins um mig, af ástæðum sem ég læt ekki uppi á opinberu bloggi, en sjálfsagt þarf ekki að hafa áhyggjur af því með svona fjölmennt stuðningsapparat í kringum þetta.

Ég er soldið að spá í að ganga með slæðu … þetta virðist geta verið ljómandi klæðilegt og þá þarf kona aldrei framar að hafa áhyggjur af útstæðum eyrum eða einum-og-hálfum hvirfli.

Ummæli (7) | Óflokkað, Skólamál

9. september 2008

Ekki hætt

Ég er alls ekki hætt að blogga en hef haft ansi mikið umleikis upp á síðkastið og þá er ég of tóm í hausnum til að blogga.

Ummæli (1) | Óflokkað, Daglegt líf

6. september 2008

Andleg vakning um beini!

Þegar ég vaknaði af bjútíblundi föstudagsins brá svo við að heimilið var sambandslaust við umheiminn (nema gegnum síma og bréfdúfur - hugsanlega). Ég hringdi í bilanaþjónustu símnets og talaði lengi við agalega huggulegan strák, sem reyndi að leiðbeina mér í að fixa samstarf routers og símalínu. Þegar pilturinn komst að því að ég væri íslenskukennari skipti hann yfir í orðið “beinir” og á tímabili spjölluðum við þannig að hann sagði beinir og ég sagði router … Svo dáðist hann að fornminjum sem ég gat boðið upp á, þ.e.a.s. Netscape.

Ekki gekk þetta hjá okkur og þegar maðurinn kom niður af fjallinu (hann var að leysa íþróttakennara útivistarhóps af) gekk hann blautur og hrakinn í að fixa nettenginguna. Hann talaði við konu og ég held að þeirra samtal hafi verið mun lengra en mitt og piltsins, árangurinn aftur á móti hinn sami og lauk með því að þau, maðurinn og símastúlkan, gáfu út dánarvottorð beinisins /routersins.

Ég sat döpur í dyngju minni, búin að fatta að ég hafði reist mér hurðarás um öxl í vinnunni og netleysið minnti enn betur á að ég myndi sligast eða eitthvað slæmt! Auk þess gat ég ekki unnið í hobbíinu mínu því þá þarf ég að vera tengd amrískri tölvu.

Hvað gera konur þá? Þær taka hálfa svefntöflu og fara að sofa klukkan 21!

Eftir vöknun II í morgun frétti ég að allur Skaginn hefði verið meira og minna sambandslaus í gær svoleiðis að meint andlát routersins var bara firra og vandræðin öll Símans-megin. Þá sá ég náttúrlega í hendi mér að þetta sambandsleysi var leið æðri máttar til að benda enn frekar á hurðarásinn og öxlina! Eftir að hafa fengið þessa andlegu bendingu er tvennt kristaltært:

a) ég kem af mér hurðarásnum með einhverjum leiðum;

b) ég fer í æðruleysismessu annað kvöld!

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf

4. september 2008

Blogg á símaskjá

Blessaðir ungarnir mínir hafa aðeins fattað upp á að lesa bloggið mitt í kennslustund, í gegnum farsíma. Ég er annars vegar standandi bit á tækninni, sem einnig má nota til góðs því annar nemandi las Hávamál Netútgáfunnar meðan ég tætti yfir einstakar vísur - hins vegar er náttúrlega bannað að vera með rafræna smádótið í kennslustundum … Mig langar ekki í svona síma því ég hef verið fjötruð fjöðrum Netsins í óhófi … í denn. En mér þykir svona nett símagræja ólíkt huggulegri og tvímælalaust kvenlegri en fartölva!

Mín elskanlegu spurðu út í vandræði sem þau höfðu heyrt að ég hefði lent í og af því þetta eru nú svo skemmtilegir og húmorískir krakkar sagði ég þeim söguna af blaðadrengnum og  rassálfabombunni baddnalandsins* og brúkaði svo hótanir sjávarþörunga til að kenna börnunum að ekki er allt sem sýnist þarna úti og gott að brynja sig fyrirfram fyrir fólki sem ekki gengur heilt til skógar.

Svo undum við okkur í Laxdælu hvar fyrsta kynslóð söguhetja hrynur nú niður eins og flugur til að skapa rúm fyrir nýtt enn smartara sett. Hér kann að vera rétt að taka fram að ég brúka ekki sama málsnið inni í kennslustundum og á þessu bloggi.

*Hafandi ekki leitt hugann að kvennafansi þessa vefborðs í marga marga mánuði var ótrúlegt að fá annars vegar spurningu og rekast einnegin á tengil sem rekur heimsendaáróður sama spjallborðs. Ég nennti nú ekki að lesa langt í vísindapistlum notenda barnalands en í fljótheitum virtust þeir / þær reikna með heimsendi eftir 2 sólarhringa. Hér er samantekt á spjallþráðum barnlendinga.

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf