Færslur frá 4. september 2008

4. september 2008

Blogg á símaskjá

Blessaðir ungarnir mínir hafa aðeins fattað upp á að lesa bloggið mitt í kennslustund, í gegnum farsíma. Ég er annars vegar standandi bit á tækninni, sem einnig má nota til góðs því annar nemandi las Hávamál Netútgáfunnar meðan ég tætti yfir einstakar vísur - hins vegar er náttúrlega bannað að vera með rafræna smádótið í kennslustundum … Mig langar ekki í svona síma því ég hef verið fjötruð fjöðrum Netsins í óhófi … í denn. En mér þykir svona nett símagræja ólíkt huggulegri og tvímælalaust kvenlegri en fartölva!

Mín elskanlegu spurðu út í vandræði sem þau höfðu heyrt að ég hefði lent í og af því þetta eru nú svo skemmtilegir og húmorískir krakkar sagði ég þeim söguna af blaðadrengnum og  rassálfabombunni baddnalandsins* og brúkaði svo hótanir sjávarþörunga til að kenna börnunum að ekki er allt sem sýnist þarna úti og gott að brynja sig fyrirfram fyrir fólki sem ekki gengur heilt til skógar.

Svo undum við okkur í Laxdælu hvar fyrsta kynslóð söguhetja hrynur nú niður eins og flugur til að skapa rúm fyrir nýtt enn smartara sett. Hér kann að vera rétt að taka fram að ég brúka ekki sama málsnið inni í kennslustundum og á þessu bloggi.

*Hafandi ekki leitt hugann að kvennafansi þessa vefborðs í marga marga mánuði var ótrúlegt að fá annars vegar spurningu og rekast einnegin á tengil sem rekur heimsendaáróður sama spjallborðs. Ég nennti nú ekki að lesa langt í vísindapistlum notenda barnalands en í fljótheitum virtust þeir / þær reikna með heimsendi eftir 2 sólarhringa. Hér er samantekt á spjallþráðum barnlendinga.

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf