Færslur frá 25. september 2008

25. september 2008

Dagurinn í dag

Ég hef einbeitt mér að því að taka einn tíma í einu í dag… við kennarar erum einmitt svo heppnir að geta auðveldlega afgreitt helft vökutímans akkúrat í anda AA-fræða og annarra sjálfshjálparfræða.  Nemendur voru ósköp elskulegir (eins og oftast) og mér tókst að spila írska lagið um Dónald og Mórag, sem giftu sig með bravúr og bæði skólastjórinn og presturinn mættu í veisluna miklu … Það kemur mér ávallt jafnmikið á óvart að börnin mín hafa ekki frétt, í sínum grunnskólum, af því að töluð séu önnur tungumál á Bretlandseyjum en enska. Þess vegna spila ég lagið og dreifi textum (með enskri þýðingu einnig) svo við getum öll ímyndað okkur hvaða tungumál Ólafur okkar pá talaði við afa sinn á Írlandi.

Seinnipartur dagsins var erfiðari. Ég reyndi að sofa aðeins en það gekk ekki. Svo fór ég á kaffihús með vinkonu minni og við slúðruðum um allt til syltetøjs og sláturtöku - listarinnar að finna kartöflugrös og taka svo upp kartöflurnar.  Tek fram að ég hef enga yfirburðaþekkingu á þessum umræðuefnum ;)  

Sannfærði manninn á bókasafninu að það yrði að kaupa Ættir Þingeyinga 16. bindi því ég væri í því bindi! Eftir smávegis spjall um ættfræði og svoleiðis sagði ég honum af krækjunni á heimasíðunni minni, hvar ég rek ættir mínar til Adams og Evu. Maðurinn spurði í forundran: “Voru þau Þingeyingar?” Þá drap ég málinu á dreif og kom mér út.

Ég er enn ósköp hrygg yfir afdrifum frænku minnar. Jafnvel þótt ég hafi ekki þekkt hana sjálfa þá standa að hverri manneskju fjöldi vina og ættingja. Það er fjölskylda hennar sem ég hugsa mest um, ræturnar. Ekki skrítið að í fornu kvæði segi: “Drottinn minn / gefi dauðum ró/ og líkn þeim sem lifa”. Ég held að líknin sé fjarri á þessari stundu en síðarmeir fær fólk vonandi einhverja líkn þótt hún dempi aldrei sársaukann að fullu.

Á minningarsíðunni, sem að stofni var hennar eigin bloggsíða, er boðuð minningarstund seinnipartinn á morgun, í Vídalínskirkju í Garðabæ. Þetta hlýtur að eiga að vera fyrst og fremst stund fyrir vini Hrafnhildar Lilju og þá sem stóðu henni næst.  

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf