Færslur frá 28. september 2008

28. september 2008

Þreytt eða löt?

Ég er svo þreytt alltaf hreint. Eiginlega líður mér best í bælinu. Óvísindaleg heimilisráðskönnun bendir til járnskorts (trikkið með að kíkja undir neðra augnlok). Ég er byrjuð á járni + C-vítamíni. Fer í lýsið mjög fljótlega. (Einn heimilislæknanna í okkar góða Kardemommubæ er alin upp og menntuð einhvers staðar austantjalds.  Þ.a.l. finnst henni þessir lífsstílssjúkdómar bara aumingjadómur og er fræg fyrir að ráðleggja öllum það sama: “Ein vika í rúmi og taka lýsi”. Ég hugsa að amma mín heitin hefði kunnað vel að meta þennan lækni.)

Ég gæti sosum farið í blóðprufu en þá yrði ég að tala við lækninn sem vill láta athuga allan andskotann úr því verið er að þessu á annað borð! Mér finnst ekkert sniðugt að láta tappa af mér fimm glösum af blóði (er t.d. ekkert viss um að ég hafi efni á svo miklu) bara af því ég vil láta mæla hem og skjaldkirtilsvaka.

Lýsi í óhófi eða 5 glös af blóði? … það er erfitt að taka afstöðu til þess. Kannski bara best að að fresta.

Ég fór í labbitúr niður á Sandinn og prófaði meira að segja að hlaupa svolítið. Það próf bendir til að best sé að láta hlaup eiga sig - nema náttúrlega maður sé að missa af strætó; Borða alla vega úr einum lýsisstampi áður en hlaup verða næst á dagskrá.  Aftur á móti á ég ekki í neinum vandræðum með að striksa, þ.e. labba hratt og baða út öllum öngum (stundum kallað kraftganga).

Ég tók myndir af marglyttum á Sandinum.  Mér líður pínulítið eins og svona marglyttu. Þess vegna punta tvær þessa þreytulegu færslu.

Ummæli (8) | Óflokkað, Daglegt líf