Færslur frá 18. október 2008

18. október 2008

HARPA: 1, MÚS: 0

Það fór þó aldrei svo að við hjónin lytum í lægra haldi fyrir músarkvikindi! Nei, maðurinn beitti súkkulaðirúsínunum sínum (takk fyrir tipsið, Sóley!) og það gerði gæfumuninn.  Ég hugsa að Samúel Örn, minn gamli bekkjarbróðir, hefði sagt að nú hefði músin mátt lúta í gras fyrir íbúum þessa heimilis!

Eftir langar og gáfulegar samræður við tengdamömmu um hvort músin gæti hafa verið svart-rottu-ungi (eiginlega örugglega ekki) eða ætti sér hreiður og unga bak við fataskápinn minn (ég harðneitaði að fara út í ruslatunnu til að tékka mjólk í spenum á músarlíkinu) og vísindalega leit á Vefnum hef ég greint kvikindið sem mus musculus, reyndar áreiðanlega kvenkyns því hún var svo hrikalega gáfuð og smart í að forðast gildrur. Og ég var aðeins farin að venjast henni og hætt að reka upp kóngulóaröskrið í hvert sinn sem ég sá hana bruna hér milli herbergja. (Litla myndin krækir í stærri mynd.)

Á Vísindavefnum má lesa um hversu vel af guði gerðar svona húsamýs eru. Sjá “Húsamús getur stokkið um 30 cm. Hún getur hlaupið níu metra upp vegg og stokkið niður 2,4 metra án þess að meiða sig.”  Vá! Vala Flosa og Þórey Edda eru núll og nix miðað við músina okkar sálugu.  Ég er samt voðalega fegin að hafa ekki haft þessar upplýsingar um stökkfimi músarinnar fyrr en eftir að hún var dauð því sennilega eru u.þ.b. 30 cm frá gólfi upp í hjónarúm og dýrið hafði tekið sér bólfestu í svefnherberginu okkar.

Eftir að hafa myndskreytt undanfarið með þægum, prúðum og búttuðum yngri systkinum sýni ég mína stöðu í þessum pissudúkkufansi:


Myndin er tekin í apríl 1970. (Og enn er það Steina að þakka að ég get tínt þessar myndir eins og ber …)

Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli á því að það er tært brjálæði að henda sínum krökkum út í stuttbuxum í apríl í Kelduhverfi! Sérstaklega börnum án fitulags!

Mér hefur sjálfsagt verið sett fyrir að passa yngri systurnar (Oj!) því ég sé ekki aðra skynsamlega ástæðu fyrir því að ég sé með þeim á mynd. Sjálf horfi ég dreymandi oní ána (held að myndin sé tekin á brúnni yfir Litlá, það myndi líka skýra vaðstígvélin sem ég er í), sem kann að stafa af því að ég sá hvort sem er ekki neitt.  Sjónin versnaði hratt á þessum árum, augnlæknar lágu ekki á lausu lengst norður í rassgati, og ég ólst því upp í umhverfi sem leit út eins og Gaussian-blur filter hefði verið lagður yfir allt og alla. En kannski er draumkenndur svipurinn af því ég sé að velta fyrir mér að henda annarri hvorri systurinni í ána … svona til að heyra öskrin?

Ummæli (6) | Óflokkað, Daglegt líf