Færslur októbermánaðar 2008

10. október 2008

Um áfallahjálp og áralanga reynslu í að halda sér á floti

Í útvarpinu áðan var geðlæknir að lýsa því hvernig fjármálahavaríið gæti sett fólk gjörsamlega úr sambandi og kvíðinn og þunglyndið tekið við. Skömmu áður hafði einhver gáfaður maður verið að lýsa ástandi þorra fólks sem sorgarviðbrögðum og mætti búast við ofboðslegri reiði þegar dofinn dvínar. Ég hraðrenndi svo gegnum langa bloggfærslu Péturs Tyrfingssonar um hverjir þurfa áfallahjálp og hverjir ekki (og hvers vegna) en nenni sosum ekki að tína þaðan neitt; fólki á kaldhæðnu línunni mun finnast færslan skemmtileg.

Ég hef engar áhyggjur af mér sjálfri.  Sama hvussu djúp kreppa verður og sama þótt áratuga sparnaður fari til fjandans: Ef maður er frískur þá er allt annað húmbúkk. Mínir geðsjúkdómar hafa aldrei tengst neinu í umhverfinu svo ég reikna ekkert sérstaklega með að verða veik eða veikari núna. Til allra lukku eru allir fjölmiðlar svo hundleiðinlegir í umfjöllun um okkar stóra vandamál að það er í rauninni sjálfkrafa slökkvandi á þeim. Svoleiðis að ég rísla mér við mín daglegu störf og forðast heimsósómatal á kennarastofunni eins og heitan eldinn.  - Vilji einhver sjá stærri útgáfu af þessum seðli sem hefur sirkúlerað í tölvupósti í dag er bara að smella á litlu myndina. Bankinn ku heita KGB. Svona andheimsómi er mér að skapi.

Aftur á móti hef ég dálitlar áhyggjur af unglingunum okkar, eftir að hafa gengið fram á nokkra talandi um vexti og verðbætur. Í kennslu skemmtilega óþæga hópsins í dag var ég spurð hvert mitt slagorð væri í þessari kreppu. Ég reyndi fyrst að pumpa hópinn hvort hann hefði ekki tekið eftir bolunum mínum tveimur sem skörtuðu nýjasta slóganinu eða frasanum. Þau mundu sum eftir þessum bláa (en voru ósammála því að hann minnti á Mömmu míu - þessi azúrblái litur … en ekki meir um það). Á bolunum er tilvitnun í Nikos Kazantzakis: Ég vænti einskis / Ég óttast ekkert / Ég er frjáls.

Börnin voru ekkert ginkeypt fyrir þessum frasa en mér sýndist þau betur vakandi meðan ég fór með æðruleysisbænina og mælti með henni til hjálpar í hvers kyns volæði. Auðvitað á ég að vera að kenna þeim hvernig skuli höggva mann og annan og einhver þúsund ára gömul ástardrömu (s.s. þjóðararfinn). En af því þetta er framhaldsskóli get ég blandað guði í málin án þess að hafa áhyggjur af því að trúleysisbolsévíkar blandi sér í málin ;) Svo ekki sé nú minnst á vorönnina þegar ég eyði vikum í basl Þangbrands og hina ágætu kristnitöku sem tókst fyrir rest. En æðruleysisbænin hefur ávallt reynst mér vel til að hafa stjórn á krónískum kvíðanum og má ætla að hún nýtist öðrum áhyggjufullum einnig. Hvernig ætli því yrði tekið ef ég hengdi hana skrautskrifaða upp á vegg í kennslustofunni? Reyndar yrði það að vera feik-skrautskrift úr tölvu því stöðugur handskjálfti varð til þess að ég varð að leggja þetta hobbí á hilluna fyrir nokkrum árum.

Fyrir stórfjölskylduna í maski:  Skoðið myndasöfnin hans Steina! Nýlega voru m.a. settar inn myndir af laugvetnskum stúdentum, flestum hroðalega alvarlegum á svip! Sjálf er ég alveg stopp í myndvinnslunni af því ég þarf að sinna vinnunni og vér móðurmálarar erum yfirleitt að drukkna í heimaverkefnum.

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa

8. október 2008

Alkasamfélagið

Búin með bókina, hef fullt af skoðunum á henni en mun einungis tipla kringum örfá atriði.

Yfirlýst markmið Orra Harðarsonar með þessari bók er að benda fólki á að það geti orðið edrú og hamingjusamt án þess að blanda Guði eða AA-starfi (sem er gegnsósa af guði) í þá edrúgöngu. Ég bendi á að þetta hefur alltaf verið hægt og kallast “að vera á hnefanum”. Ólíkar fylkingar í bransanum hafa svo ólíkar skoðanir á hvursu jákvætt sé að vera á hnefanum.

Orri nær þessu markmiði sínu prýðilega:  Það er gjörsamlega geirneglt í haus lesanda að hægt sé að verða edrú án guðs.  Rök Orra eru, merkilegt nokk, flest sótt í smiðju AA eða Oxford-hreyfingarinnar og felst röksemdafærslan í að benda á hvað hinir eru vitlausir. Það er heimskulegt að trúa á hjálp guðs, spor, bænir o.s.fr. Þess vegna er kirkjan á Staðarfelli vond kirkja og gerir mann vitlaust edrú, talibanar eru illir o.s.fr. (Ég er reyndar sammála Orra um að talibanar reiði ekki endilega vitið í þverpokunum en maður verður að hafa samúð með fólki sem hefur einungis lesið eina bók um ævina og það AA-bókina.  Svo er soldið kjút þegar talibanar vilja koma saman og lesa saman í bókinni :) Aftur á móti kýs ég aðra fundi en þá bænheitu talibanafundi.)

Úbbs, ég er komin út af sporinu …  Nema Orri minnir mig óskaplega mikið á afa minn heitinn. Báðir trúlausir í kirkjulegum skilningi, báðum í mun að berja sér á brjóst og upplýsa trúleysið á torgum og báðir trúandi á vitleysinga; afi hélt upp á Jósef Stalín, Orri er með Þórberg á hægra brjóstinu! Mér finnst alltaf svo merkilegt þegar mestu ofsatrúarmennirnir eru yfirlýstir guðleysingjar!  Og ég hef aldrei skilið af hverju Þórbergur er kallaður Meistari Þórbergur af ákveðinni intellígensíugrúppu þegar maðurinn gekk augljóslega ekki heill til skógar, hvort sem hann var nú sjálfbjarga einhverfur eða með Asberger syndróm. Af hverju þá ekki Meistari Birkiland? Eða Meistari Guð?

Bókin hans Orra er alltof hraðsoðin!  M.a. má finna knúsaðar setningar og málsgreinar, sem ég veit að er sjaldgæft í hans ritstíl - yfirleitt skrifar Orri ljósan og lipran texta. Alls konar sleggjudómar eru settir í gæsalappir en það er ekki fyrr vel er liðið á textann sem farið er að vitna í heimildir.  Í rauninni hefði þurft heimildaskrá í lokin því bókin er ein löng heimildaritgerð. Góður yfirlestur hefði sumsé bjargað miklu í þessari bók.  Besta björgin hefði þó verið að salta textann í einhverja mánuði og ná fjarlægð á efnið. Þetta er jú bók en ekki hraðskrifuð bloggfærsla.

Afi gat ekki farið á Vog af því þar var svo mikið trúboð! (Amma minntist alltaf á Vog við mig eftir að ég komst sjálf á snúruna, fyrir tæpum 20 árum.) Þegar ég hef verið að hugsa um huggandi texta eða lífsskoðanir undanfarið þá held ég að Jósef Stalín hefði dugað ættinni skammt!  Ég gæti aftur á móti vel trúað að gamli maðurinn hefði orðið hrifinn af Alkasamfélaginu, sérstaklega hugmyndunum í fyrri hluta bókarinnar þar sem verið er að sýna fram á að “þetta sé allt eitt stórt samsæri”, eins og vænisjúki Norðmaðurinn í Spaugstofunni hefði orðað það.

Orri ætlar bókina sína e.t.v. til eftirbreytni. Ég staðhæfi að það er minna gagn af lífsreglum Meistara Þórbergs en bænum, í þeirri þeytivindu sem full meðferð er. Ég skráði mig úr Þjóðkirkjunni fyrir um 30 árum. Það stóð mér ekki fyrir þrifum að hlusta á Davíðssálma í litlu kirkjunni og syngja Hærra minn guð til þín. Mér var sagt að gott væri að koma við í kirkjunni á morgnana, draga mannakorn og íhuga textann, ásamt því lesa bæn dagsins í Sálmabókinni. Mér var sagt að líta á þetta sem æfingu í að kyrra hugann. Þetta gerði ég og varð gott af.

Mér finnst svona bók eins og Alkasamfélagið Orra ansi hættuleg ákveðnum hópi.  Hvað með alla þá sem segja: Ég læt afvatna mig í Líbríumþjónustu Vogs; hitti svo bara Jón og Gunnu útí bæ yfir kaffisopa og læt þetta AA batterí alveg eiga sig: Það er hvort sem er búið að sýna hvað þetta er mikið kjaftæði allt saman! Vígstaða aðstandenda verður mun verri og möguleikar á virkri íhlutun þeirra, vinnuveitenda eða annarra sem vilja bata alkóhólista. Ég er doldið hrædd um að þessi ákveðni alkahópur líti lipurlega fram hjá þrettán ára linnulitlum tilraunum til edrúmennsku eða þeim misheppnuðu meðferðum sem á endanum leiddu til niðurstöðu Orra.  

Læt þá þessu tipli lokið … 

Ummæli (31) | Óflokkað, Geðheilsa

7. október 2008

Hræringar

Ég vaknaði á óguðlegum tíma í morgun og komst langt í prófayfirferð.  Það er fátt sem truflar hálf sex á morgnana og ég hraðfletti mogganum, tautandi harmafregn og harmafregn við hverja síðu. Hver nennir að lesa grilljón dálksentimetra af harmafregnum? Ekki ég!

Uppáhaldsbörnin sátu á ganginum og ræddu efnahagsmál þegar ég mætti til að kenna þeim. Mér þóttu þau nokkuð áhyggjufull. Vonandi dugði þetta sem ég sagði þeim um að ástandið hafi nú verið slæmt áður, t.d. þegar síldin hvarf og þegar verðbólgan var meiri en 100% á ári, og yfirleitt hafi nú málin reddast þrátt fyrir harmatölur í fjölmiðlum.  Sleppti frásögnum af sparimerkjabrúðkaupum og þvingunarsparnaði.

Í frímínútum sagði rússneska vinkona mín mér hverju rússneska sjónvarpið hafði spáð Íslandi um morguninn.  Ekki fögur spá það.

Í næstu frímínútum hitti ég á hana og annan kennara og þá voru þær fréttir komnar að Rússar vilji endilega hjálpa okkur. Mér þótti þetta gleðilegt og fallegt af Rússunum - sá líka tækifæri til að taka upp rúblu í staðinn fyrir þessa handónýtu krónu sem við öpuðum eftir Dönum í denn.

Núna áðan sagði maðurinn mér að Norðmenn hefðu lýst sig fúsa til að hjálpa okkur svo við þyrftum ekki að þiggja hjálp frá Rússum. Þar með engin ástæða til að leggja niður hallærismyntina krónu …

Eftir hádegi breytti ég mér í fúríu og hakkaði í mig heilan námshóp! (Elsku baddnalandskjedlingar: Þetta er “metaphorically speaking” og börnin öll á lífi og ómeidd.) Hafandi sýnt hópnum fram á það að yfir þriðjungur hans myndi, að öllu óbreyttu, sitja á ný í þessum áfanga, rökstyðjandi með köldum einkunnatölum úr skyndiprófinu sem þau tóku á mánudag … hótandi því að ekki yrði skipt um kennara …býst ég ekki við öðru en þeir nemendur sitja nú heima og lúslesi Laxdælu.  Sömu örlög bíða hins hópsins á morgun.

Ég þeyttist um og lauk mínum þrifum (sem höfðu verið í huga guðs frá laugardeginum), þvoði þvott, lagði mig, keypti bókina hans Orra og er að verða búin með fyrsta þriðjung. Auðvitað geri ég bókinni einhver skil þegar ég hef lesið hana. Hins vegar er ég í sömu stöðu varðandi blogg um bókina og ef ég vildi blogga um gjaldskrá Jónasar tannlæknis.  Í litlum kardemommubæjum út á landi eiga allir að vera vinir og blogga blíðlega hver um annan …

OK: Þá er að einhenda sér í að ljúka yfirferð yfir hinn hópinn … og æfa grimmdarlega augnaráðið, sem ég er að verða nokkuð flink í.

Myndskreytingar bíða betri tíma.

Ummæli (0) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf

4. október 2008

Laugardagur 4. október

         

  

   

   

    

     

                                   

                                          

                                                                         

                                                                              

                                             

                                                                        

                                                                                                       

Ummæli (2) | Daglegt líf

1. október 2008

Er mella komið af Mlle?

Ég ætla að segja ykkur frá dæmigerðri kennslustund hjá einum af uppáhaldshópunum mínum.  Uppáhöldin eiga að vera að læra Laxdælu en margt tefur og dvelur svo fróðleiksfús ungmenni. 

Titill þessarar færslu vísar í fróðleik sem sömu ungmenni höfðu lært í félagsfræði í morgun. Ég sagðist diplómatískt skyldu athuga málið og skaut mér bakvið meistaraprófið í bókmenntum - ekki málfræði! (Var samt soldið að hugsa um hvers lags arfarugl þetta væri, munandi eftir mellum sem Þór lagði lag sitt við og heita nú tröllskessur, eða mellu í merkingunni “kartöflumóðir”). 

Nú er ég búin að fletta upp  í bókinni mannsins (sem ég merkti mér, óvart, fyrir meir en áratug og auðvitað er þessi félagsvísindatungumálaspeki algert kjaftæði!  Hins vegar nenni ég ekki að skrifa allar skýringar Íslenskrar orðsifjabókar hér - menn geta bara flett sjálfir ef þá lystir. En ég tek bókina með á morgun til að það verði þar eftir naglfast í mínum nemendum að engin fjögurra mögulegra merkinga nálgast franskt kvenfólk.

(Svo fór ég að spá hvort einhvers konar túlkunartengsl séu milli þessarar kenningar um að Mlle > mella og misskilnings sveitunga míns, Jóns Hreggviðssonar, um árið þegar hann sá konur af þessum toga en tók þær fyrir prestmaddömur. Meira skrifa ég ekki um þetta þar sem mér er kunnugt um að einstaka ungmenni innan átján ára les blogg kennarans.)

Næst vildu blessuð börnin fá að vita hvort ég þekkti til prests sem hefði samið eigin orðabók.  Fyrsta skref var náttúrlega að fá að vita hvunær prestur sá hefði verið uppi - börnin mundu að hann væri uppi núna.  Svo var farið að giska á nöfn og loks fattaði ég að félagsfræðikennarinn hafði sagt þeim frá Pétri Þorsteinssyni, presti óháða safnaðarins, og líklega tengslum hans við Jed hinn belgíska, sem vill láta kalla sig Timbur-Helga.  Jed hefur margreynt við mig í tölvupósti til að fá mig með í Hið íslenska Málþvottahús, en mér varð fljótlega ljóst að hann gengur ekki heill til skógar og kemur ekki til mála að ég mæli upp í honum vitleysuna.  Þar finnst mér að guðsmaðurinn mætti taka mig, trúleysingjann, til fyrirmyndar! Sjá nánar http://en.wikipedia.org/wiki/High_Icelandic

Ég er að hugsa um að nefna við félagsfræðikennarann að hann kenni meiri íslensku þar sem börnin eru augljóslega móttækilegri fyrir henni utan íslenskutíma ;)

Annað er svo sem ekki títt. Ég staðhæfi oft á dag að Guðrún Ósvífursdóttir hafi verið sláandi lík Unni Birnu, enda bæði fögur útlits og í vitsmunum, eins og Unnur Birna. Aftur á móti hef ég boðið ákveðnum stjórnanda skólans að líkja Guðrúnu Ó. við Britney Spears, vilji menn bera á mig nægt fé til þess. Ekkert tilboð hefur borist.

Kannski af því maðurinn er móðgaður við sína konu: Hann sagði nefnilega, með stjörnur í augum, að nú væri hún Brynhildur að fara að leika Fridu Kahlo!  (Maðurinn er mjög veikur fyrir málverkum Fridu þessarar.  Hann er líka talsvert veikur fyrir Brynhildi.) Ég sagði að það kæmi ekki til greina að draga mig á leikrit um sambrýnda lesbíu!  Maðurinn tautaði sá að hún væri ekki lesbía heldur bara ”bí”  … og fór svo á Rotarý-fund.   

Ummæli (3) | Óflokkað, Skólamál