Færslur nóvembermánaðar 2008

30. nóvember 2008

Troða halir helveg …

Púff!  Eins gott að ég er ekki halur! Þá væri veruleg ástæða til að hafa áhyggjur! Nei, ég er kván og get haldið mér kjurri með því að hnipra mig saman eins og lítil kanína og eyða helst megninu af sólarhringnum í þröngri hlýrri holu, sem búin er til úr tveimur sængum.

Þetta er í rauninni svipuð sængurhola og unglingar vilja búa sér til í sínu herbergi.  Sennilega er margt líkt með miðaldra þunglyndum konum og unglingum; annað sem mætti nefna er að hvorugan hópinn langar minnstu vitund til að mæta í skólann á morgnana! (Þetta passar reyndar ekki vel við mig því ég er öfugsnúin í þunglyndi sem öðru og líður skást á morgnana.)

Líf mitt litast af mistökum og sauðshætti. T.d. leitaði ég í meir en korter að lausu músinni við tölvuna uppi í skóla áður en rifjaðist upp fyrir mér og ég sá að þetta er fartölva með skafmiðamús … Ég er bara búin að nota tölvuskömmina í nokkur ár (held ég).

Mér tókst ekki að panta á internetinu og fór fjúkandi vond oní bankann minn … skýringin reyndist vera að í þremur atrennum hafði mér ekki tekist að slá inn réttan gildistíma korts!

Það fer náttúrlega ekki framhjá mínum góðu nemendum að sitthvað er bogið við þeirra kennara … t.d. þegar ég afrekaði í vikunni að leggja saman 2 og 4 og fá út 7, á töfluna!  Svo hripa nöfn nemenda úr mér hraðar en auga á festir. Sem betur fer eru nemendur umburðarlyndir við kennara og ég hef bara sagt þeim eins og er; að kennarinn þeirra sé geðveikur og versni sífellt geðið. Unga liðið hefur ekki sérstaklega mikla fordóma gegn geðveiki. Hið sama verður ekki sagt um fólk á mínum aldri. Þeir sem eru á brún geðveikinnar eru náttúrlega fordómafyllstir allra.

Eins og venjulega hef ég þennan klukkutíma - tvo tíma þar sem ég hugsa nokkuð skýrt og hitti á lyklaborð eins og ekkert sé. Eftir það fer allt á verri veg. Elskulegur maðurinn minn á megingjarðir inn í skáp og hefur sinnt sósíallífi og þrifum þessa heimilis, auk fjarkennslu og þessa tvöfalda djobbs sem hann gegnir - án stimpilklukku. Íbúðin mín er að verða íbúðarhæf að hluta, þ.e. komið klósett sem virkar og ekki lengur gígar í gólfinu. Maðurinn þreif líka íbúðina uppi meðan ég kúrði mig í fjóra tíma í sængurholu, án þess að sofna, en líðandi heldur skár undir sænginni.

Myndin er þjófstolin af NASA síðu og sýnir hvernig sól tér sortna … gæti verið mjög lýsandi mynd af mínu sálarlífi frá hádegi og frameftir deginum. Man því miður ekki hvar ég stal myndinni ofar í færslunni.

Ummæli (10) | Óflokkað, Geðheilsa

27. nóvember 2008

Ástandið

Myndir lýsir deginum í dag. Hve stutt er þar til ég hætti alveg að geta talað eða lagt saman 2 + 2 eða lesið léttan reyfara er erfitt að meta. Ég væri til í að býtta á þunglyndinu í flesta aðra sjúkdóma en slíkt býðst því miður ekki. Enginn ljós punktur í dag og mikil uppgjöf.

Þetta endar alltaf eins: Kona verður fangi þunglyndis, í lengri eða skemmri tíma.

   

Ummæli (6) | Óflokkað, Geðheilsa

26. nóvember 2008

Pottþétt sparnaðarráð!

Í byrjun af heilsufari: Það er ömurlegt, rétt að ég sé normul milli 5 og 7 á morgnana. Seinnipartinn er ég farin að tala eins og Paul Robson syngur Deep River … ekki mjög kvenlega og ekki mjög hratt. Ég tek nú eina eykt í einu, dagur er of stór biti. Spennan liggur í hvort ég lafi út önnina, prófatímabilið með. Ég skal!

En nú af hinu góða sparnaðarráði sem ég vil benda fólki á. Inn um bréfalúguna hjá mér hrynja bæklingar um rosa sparnaðartilboð á bókstaflega öllu, frá inniskóm til höggbors. Allt er þetta á sérstökum kjörum og hefur snarlækkað. Því miður vantar mig ekki höggbor og hafði hugsað mér að setja kanínufóðraða inniskó á jólaóskalistann.  Svo ég sá ekki fram á að spara neitt.

Ég skal að vísu játa það að ég er afskaplega ódugleg og klén að fara á útsölur í mínum heimabæ. Þó heitir þetta ekki því simpla nafni útsala heldur hafa þessar verslanir forframast í “Outlet” sölur, sem mun þýða “útsölur” (en ekki “Útlát” sem fáfróðir gætu haldið og skilið sem andstæðu útsölu). Þetta minnir mig alltaf á Bör Börson og nú bíð ég spennt eftir pípukerfi í Ozone (íþróttfataverslun) svo hægt sé að “gefa ordrur” um verslunina.

Í fyrradag komst ég hins vegar að því hvernig ég get hrúgað upp sparnaði á engri stund! Ég fór í apótekið og keypti þar tvo minnstu pakka af Nicotinell tyggjói - því stundum viðrar illa til að reykja úti í frímínútum. Einn svona pakki, með 24 tuggum, kostar 1.351 kr. VÁ!! Einn langur Winston, með 20 stykkjum, hefur kostað á bilinu 550 - 600 kr. Líklegast hefur hann hækkað eilítið en af því ég geri magninnkaup (= kaupi karton í einu) veit ég ekki af hækkun ennþá.

Það þarf náttúrlega engan Einstein til að sjá að tuggudótið, sem ekki truflar viðkvæmt lyktaskyn reyklausra er meir en tvöfalt dýrara, auk þess sem maður notar faktískt meira af því en sígarettum yfir daginn. Samt er það margfalt eitraðra miðað við magn nikótíns og gjöreyðileggur slímhimnur í munni, hef ég eftir áreiðanlegum lækni. 

Allir sem vilja spara rosalega ættu nú að hefja reykingar og kaupa ekki nikótínlyf heldur gleðjast yfir því að á degi hverjum spara þeir svona 600 - 700 kall, með puðrinu!

Eiginlega ættu þeir hinir reyklausu, svo ég tali nú ekki um vammlausu, á vinnustaðnum að safna í sjóð handa okkur reykspúandi eymingjunum svo við höfum efni á að hætta að spara og tyggja okkur gegnum daginn, eftir að “Lebensraum” þeirra reyklausu kemst til fullra framkvæmda eftir áramót.   

Ummæli (1) | Óflokkað, Daglegt líf

23. nóvember 2008

Kraftaverkakennari … en að öðru leyti óskup mikil dula!

Elín G. Ólafsdóttir hefur verið svo vinsamleg að láta mig vita af því að ég sé kraftaverkakennari í Gestabók og í persónulegu bréfi.  Ég þakka henni kærlega fyrir það! Önnur færslan í Gestabók er svona:

“Til hamingju með lífið Harpa. Ég vildi að ég væri aftur orðin ung og hress kennslukona að springa úr áhuga og hugmyndaauðgi til að vinna með nemendum.
Þú og ég erum nefndar í sama orðinu í grein Magnúsar Þorkelssonar í Netlu KHI.is. Heiður og sómi.
Baráttukveðjur og gott gengi,
Elín G.”

Ég verð að viðurkenna að ég hef íhugað þessi orð nokkuð: Ég er hvorki ung né hress né að springa úr neinu nema helv… þunglyndinu sem versnar dag frá degi! Núna felast kraftaverkin aðallega í því að komast yfir götuna í skólann - einn dag í einu!  Sem betur fer eru nemendurnir tiltölulega jákvæðir og til í að leiðrétta sinna kennara þegar hann segir Kjartan í stað Bolla eða ísskápur í staðinn fyrir sverð. Öfugt við það sem margir halda eru unglingar oft vænsta fólk.

Ég fletti náttúrlega upp í Netlu (þótt litla systir lesi þetta daglega erum við meira útúr hér í dreifbýlinu).  Grein Magnúsar Þorkelssonar, aðstoðaskólameistara í Flensborg, heitir

Um breytingar í skólastarfi og viðspyrnu við þeim 

Ég hraðskannaði greinina og kannaðist við margt sem þar var rætt, síðan fyrir 5 - 6 árum þegar allir voru að ræða svipuð mál. Mig minnir að ég hafi haft skoðanir á þessu mörgu fyrir löngu síðan en ég hef engar skoðanir lengur. Rétt að maður nenni að stíga fast á tær þeirra sem eru með múður, innan bloggs og utan.

“Á sama tíma má lesa um kraftaverkakennara sem gera allskonar snilldarlega hluti alveg án þess að til sé hliðrað í stundatöflu, húsnæði eða þeim lagðir til sérlega valdir nemendur (Elín G. Ólafsdóttir, 2004; Harpa Hreinsdóttir, án árs; Herdís Egilsdóttir, 2007; Sverrir Páll Erlendsson, 2002). Þannig virðist mér að getan og viljinn til þróunarstarfa séu að miklu leyti sjálfsprottin og það ráðist af getu og vilja hversu mikil hindrun verði af öðrum þáttum. Nær allar ofangreindar heimildir nefna beint eða óbeint að stuðningur stjórnenda við breytingarnar sé lykilatriði (sjá einnig McKinsey og Company, 2007). Þar með er auðvelt að sjá hvernig einstaklingur í kennarahópi ryður sér leið til umbóta, jafnvel lítill hópur.”

Þetta stendur einhvers staðar í miðri grein og maður hefði haldið að litla systir léti mann vita … en svo er ekki! Mér finnst gaman að vera kölluð kraftaverkakennari og sögð geta snilldarlega hluti! Að vísu get ég þetta ekki í augnablikinu en sá tími mun eflaust koma.

Af því þetta gladdi mig (ekki margt sem gerir það) ákvað ég að blogga um hrósið þótt ég viti að Janteloven ríki á kennarastofunni og ákveðinn hópur fær þarna vatn á sína kvörn.

Ummæli (3) | Óflokkað, Skólamál

22. nóvember 2008

Eigi kona rúblur er hún ekki öreigi

Ég hef dúllað við hannyrðir sem sæma melankólískri konu um nokkurt skeið. Þetta eru stafrænar hannyrðir og ég hlakka til að sjá hvernig þær koma út (þótt ég viti nú þegar um villur í stykkinu ;)   Nema hvað: Ég þykist hafa gengið frá öllum endum og sendi nú mína hannyrð til blurb.com, sem mun prenta afraksturinn og senda mér, gegn greiðslu í kreditkorti.

Ég panta - gef upp númer - sé að varan er afgreidd og lögð af stað!  Jess! 

Svo datt mér í hug að gera fleiri eintök og pantaði nokkur í viðbót. Þær pöntunartilraunir hafa allar runnið út í sandinn því Visa-kortið mitt er í einhverjum hroðalegum vandræðum, gott ef ekki á vá-lista.

Þetta var því undarlegra sem nákvæmlega sama vísa-kort hafði verið talið fullgilt í fyrstu atrennu.

Skynug sem ég er fór ég að leita skýringa hjá mínum góða banka Kaupþingi (eða hvað’ann nú heitir núna - svarti sorgarliturinn fer einkar vel á síðunni og mætti ætla að menn hefðu verið forspáir á þeim bænum!).  Kemst að því að ekki sé hægt að taka út útlenska peninga á vísa-kort í þeim banka. Svo skoðaði ég vandlega yfirlitið yfir vísa-kortið, sem ég nota aldrei nema í útlöndum og útlenskum viðskiptum.  Kemur þá ekki í ljós að ég á fyrir eins eintaks greiðslunni af því ég á inni rúmar 5000 kr. í rúblum!

Maðurinn minn elskulegur hafði fyrir svona tveimur mánuðum hjálpað sinni konu að aflúsa og hreingera hennar tölvu. Þá vantaði almennilegt Adaware forrit - eða Spyware. Maðurinn keypti eitt spyware, borgaði og setti upp en í bríaríi var hann langt kominn með að kaupa annað þótt borgunin hafi verið í rúblum. (Ég hef þá reglu að skipta ekki við rúblu-viðskiptamenn af því sambandið getur slitnað í miðju kafi og auk þess er mörgum ekki treystandi.) Enda fór svo að þegar búið var að rukka manninn um allar upplýsingar á kreditkortinu (mínu) gafst forritið upp hálf-niður-halað.

Ég fór daginn eftir í minn góða banka, útlistaði fyrir konu nokkurri hvað hefði gerst (sumsé að við værum nú rukkuð fyrir hálft forrit og eins og allir vita ganga forrit ekki hálf).  Viðskiptin hefðu sumsé mistekist og ég vildi gjarna að þau gengju til baka.  Konan féllst á það.

Rúblurnar sem ég greiddi fyrir hálfa forritið voru svo endurheimtar - í líki rúbla- og lágu inn á kreditkortinu. Þess vegna gátu hinir elskulegu Kanar leyft mér að kaupa eitthvað: Þeir hafa greinilega fullt traust á rúblum en “Something’s rotten in the State of Iceland”!

Ummæli (2) | Óflokkað, Daglegt líf

19. nóvember 2008

Svartir hundar að ganga?

Ég er a.m.k. með svörtu hundana - blásaklaus og hafandi lifað heilsusamlegu lífi í margar vikur! (Hreyfing telst ekki með í heilsusamlegu lífi mínu.)  Vaknaði kl. 5 í morgun og gat alls ekki sofnað aftur. Svo ég fór þá á neðri reykleyfðu hæðina mína (sem lítur út eins og loftárásarrústir, þ.e.a.s. gapandi gígar um öll gólf og steypuhlunkar í bunkum), tiplaði milli gíganna og gat búið til oggulítið pláss í litlu stofunni, hvar ég fór svo yfir annan ritgerðabunkann af tveimur. (Sá bunki angar náttúrlega af náttúruafurðinni Winston - ef krakkarnir kvarta get ég svo sem vel spreiað ilmvatninu mínu með vondu lyktinni yfir …)  Þegar klukkan nálgaðist átta var ég orðin sjóveik og viss um að íslenskri tungu yrði hvussumer ekkert bjargað og efaðist um að ég gæti talað heila kennslustund. Svo ég meldaði mig veika.

Ég hef næstum ekkert getað sofnað í dag og reyndi það á eigin heila að hafi maður svarta hunda þarf að setja upp dæmi á moggaspássíu skuli margfalda stigafjölda með 4! 

Ég hef lítinn áhuga á að liggja í svörtu hundunum lengur, það er nefnilega ekki þægilegt, minnir helst á heiftarlega timburmenn.  Svo ég geri mitt besta til að mæta á morgun!

Kona með svarta hunda segir annars afskaplega fátt títt.

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa

16. nóvember 2008

Ég get svo svarið það

að okkar lið var fegurra og föngulegra en þeirra í Kópavogi! En ekki fer alltaf saman gæfa og gjörvileiki, vita allir sem hafa lesið svona tug Íslendingasagna eða svo, auk Kamelíufrúarinnar, og hefði kópvoxni íþróttafréttarinn kallað frammistöðu okkar Skagamanna í Útsvari  ”að lúta í gras”. Eina dæmið sem Orðasambandsbanki Árnastofnunar finnur um þetta er “(<verða að) lúta í gras (fyrir <sverði hans>)”  Svoliðis að mig minnir rétt um að lúta í gras sé að drepast endanlega og því ekki fallegt að sífra það yfir keppnismönnum í gamnikeppni … 

           

              

Þótt okkar lið hafi verið sýnu gervilegra en það kópvoxna komst ég að því áðan að okkar bæjarmerki er klastur eitt hjá þeirra í Kópavogi.  Reyndar má nefna til afsökunar að Akranes notar sitt merki voðalega lítið og sjálfsagt halda flestir, bæði innan og utan bæjarins, að hið gula glaðlega merki ÍA sé bæjarmerkið. Ég sýti ekki þann misskilning eftir að hafa séð lummulegt bæjarmerkið okkar.

Ég hitti kollega minn á vinnustað í gær, hvar hann lék við hvurn sinn fingur (hvernig sem það er nú hægt í ritgerðayfirferð?)  Hann mátti enda una ósigrinum vel því hann var áberandi langvitrastur í liðinu.  Frumburðurinn, sem ég talaði við í síma, bar sig líka ótrúlega vel og sagði að hefði kolleginn minn alltaf fengið að ráða svari hefðu Skagamenn líkast til unnið.

Sjálfri finnst mér að hefði vel mátt splæsa nokkrum aukastigum fyrir óhóflega kunnáttu og á ég þar við ræðu frumburðarins um Bjarna Harðarson. Auðheyrt var að drengurinn kunni jafnmikið eða jafnvel meira um Bjarna þennan en selveste múmínálfana!  Það að draga hann til ábyrgðar fyrir að svara ekki þessari smotteríisspurningu um varamann Bjarna finnst mér lummulegt, þegar búið er að telja upp öll börn Bjarna, segja deili á eiginkonunni o.m.fl. Ég reikna með að báðir ættleggir séu sammála mér um þetta.

Næsta verk frumburðarins verður að skóla til bróðurinn sem brást svo lið FVA vinni nú örugglega lið MK eða hvert það lið sem það mætir :)

Ummæli (7) | Óflokkað, Daglegt líf

14. nóvember 2008

Yfirvofandi Útsvar!

Við Vífill erum að setja okkur í stellingar fyrir Útsvar. Spennan hefur aukist í dag með miklum bréfaskiptum ættingja minna og strákanna. Austfirska systirin hefur litast af málfari sinna verkamanna-kúnna af ýmsum þjóðernum og sagði: “Máni - þú massar þetta í kvöld er það ekki?” 

Annað austfirskt pepp hljóðaði svona:

“Gangi þér vel í Útsvarinu!

En er ekki málið að mæta á tónleika hjá Háskólakórnum? Besta kórnum á Íslandi og þótt víða væri leitað!”

 

Þau sunnlensku eru heldur linmæltari í sínu hrósi verður að segjast. Þessi tvö litlu voru reyndar á tímabili ógislega fyndin í orðaleikjum um vita (að eigin mati) - NOT!

Máni er kúl og hefur gert sínar ráðstafanir, skv. tölvupósti:

Vitringum bæjarins verður safnað saman í gamla vitanum. Þar verður þremur hröfnum og einum bæjarfulltrúa fórnað til heiðurs Mímis, guðs spurningakeppna. Símavinurinn verður vitaskuld þar.”

 

Ég get ekki séð að hægt sé að undirbúa sig betur en frumburðurinn hefur gert skv. þessu bréfi!

Í lókalblaðinu (Skessuhorninu) var örviðtal við frumburðinn.  Þar sagði hann liðið fullskipað og fullskipulagt: Sjálfur sér hann um að hlaupa, Þorvaldur sér um að leika en Steingrímur kollegi situr í miðjunni og sér um að vita. Mér sýnist þetta fúllprúf skipulag!

 

 

Ummæli (17) | Óflokkað, Daglegt líf

13. nóvember 2008

Handhæg verkefni önnur en lagnir

Freyja: Það er varla að ég trúi því að háskólakennari (vestr’á Melum?) skuli ekki vita- eða skilja að „Ég skildi að orð er á Íslandi til / um allt sem er hugsað á jörðu“ (Einar Ben.) og öll þessi orð eru geymd á Árnastofnun, sem nú dekkar Íslenska málstöð, Ritmálsskrá o.fl. Maður gerir svona:

Opnar http://www.arnastofnun.is/

Dundar sér við að lesa orð vikunnar og ýmislegt annað en uppáhaldið mitt er Ritmálsskrá - sjá menjú neðst í hægra horni.

Slá inn gægsni og fá upp upplýsingar um að fjögur dæmi séu þekkt og fleira krapp sem má sleppa að lesa. Smella á Sjá dæmi.

Kemur þá í ljós að þetta er ekki meinlaust orð eða lítilsháttar fökkjú heldur:


1
hún var miklu eldri en hann og gægsni. gægsni BGröndRit   IV, 362
Aldur: 19ms
2
Svona grasvembill og gægsni eins og því ættir að hafa vit á að þegja. gægsni KristmGNátt   , 100
Aldur: 20m
3
Og þessi gægsni hafði hún verið að hugsa um að giftast. gægsni KristmGBrúð   , 194
Aldur: 20ms
4
Þetta er andskotans gægsni.

Maður ætti kannski að lesa þennan texta eftir Gröndal - lofar góðu! 

Vandamál 2: Tölvupóstur nær ekki til Hörpu.  Sko, við kerfisstjórinn (í FVA) erum búnar að senda póst þvers og kruss án vandkvæða.  Sennilega er þetta sambúðarvandi við blogg.is.  Ég tékkaði á kæfum og ekki er vandinn þar. Það væri voðagott ef Örverpið sendi póst á anna@fva.is með afriti af því bréfi sem það / hann fékk í hausinn um að harpa@fva.is væri týnd og tröllum gefin. Ef málin leysast ekki þannig tala ég við Örvar á blogg.is (ég held reyndar að vandinn sé þar því venjulegur póstur berst óhindrað.

Jæja, verð að fara að búa til krossapróf handa litlu skinnunum mínum …

Sjáumst!

Ummæli (3) | Óflokkað, Skólamál

12. nóvember 2008

Uppgjafir

Í gær hringdi ég í konuna sem ætlar að hafa eróbikk námskeið næstu 6 vikurnar, tvisvar í viku, frá 20 - 21. Um sexleytið fann ég íþróttabuxurnar (sem ég enn passa í) og leitaði dauðaleit að svörtum strigaskóm … sennilega hef ég hent þeim svo ég fann til hvítu strigaskóna í staðinn.

Klukkan 7 hætti ég við að mæta í íþróttahúsið og batnaði um leið flökurleikinn og sjóveikisyndrómið. (Ath. að hér er ég ekki að tala illa um íþróttahús eða þá sem þar sprikla; hér er ég eingöngu að tala um fokkings kvíðaeinkenni!)

Eftir þessa örlagaríku ákvarðanir var ég örmagna og fór að sofa klukkan átta, eins og þægu börnin.

Best að velta sér ekkert upp úr þessu.  Ég er annars komin á línuna “og hvað get ég gert í því” sem ég hygg að sé ein af praktísku slagorðalínunum í algerlega nafnleynda félagsskapnum mínum. Mér finnst ég skilja þenna sjúkdóm minn nánast alveg í botn (nema ég skil ekki af hverju mér var úthlutað honum í genetíska happdrættinu). Málið er ekki lengur að skilja, málið er að framkvæma.  Í því er batinn fólginn. Því miður er eitt af einkennum þessa sjúkdóms voðalegt framtaksleysi og skortur á drift. Þess vegna gengur mér helv… illa að kveða hann niður með handafli.

Nú er að hefjast þessi venjulega geðveiki sem ríkir síðasta skólamánuðinn, í kennslu og prófum. Í dag er próf úr Eglu. Á föstudag taka tveir hópar próf úr Laxdælu. Níutíogþristarnir taka próf í næstu viku úr Börnunum í Húmdölum.  Svo þurfa börnin að fá yfirlit yfir ýmis skil og útreiknaða annareinkunn í lok nóvember.

Ég kvíði þessu sosum ekki neitt, þetta er árviss viðburður (misseris-viss viðburður). En að fara út að labba eða í eróbikk hopp?  Nei … það er of erfitt fyrir litlar konur.

Ummæli (17) | Óflokkað, Geðheilsa