Færslur frá 12. nóvember 2008
Uppgjafir
Í gær hringdi ég í konuna sem ætlar að hafa eróbikk námskeið næstu 6 vikurnar, tvisvar í viku, frá 20 - 21. Um sexleytið fann ég íþróttabuxurnar (sem ég enn passa í) og leitaði dauðaleit að svörtum strigaskóm … sennilega hef ég hent þeim svo ég fann til hvítu strigaskóna í staðinn.
Klukkan 7 hætti ég við að mæta í íþróttahúsið og batnaði um leið flökurleikinn og sjóveikisyndrómið. (Ath. að hér er ég ekki að tala illa um íþróttahús eða þá sem þar sprikla; hér er ég eingöngu að tala um fokkings kvíðaeinkenni!)
Eftir þessa örlagaríku ákvarðanir var ég örmagna og fór að sofa klukkan átta, eins og þægu börnin.
—
Best að velta sér ekkert upp úr þessu. Ég er annars komin á línuna “og hvað get ég gert í því” sem ég hygg að sé ein af praktísku slagorðalínunum í algerlega nafnleynda félagsskapnum mínum. Mér finnst ég skilja þenna sjúkdóm minn nánast alveg í botn (nema ég skil ekki af hverju mér var úthlutað honum í genetíska happdrættinu). Málið er ekki lengur að skilja, málið er að framkvæma. Í því er batinn fólginn. Því miður er eitt af einkennum þessa sjúkdóms voðalegt framtaksleysi og skortur á drift. Þess vegna gengur mér helv… illa að kveða hann niður með handafli.
—
Nú er að hefjast þessi venjulega geðveiki sem ríkir síðasta skólamánuðinn, í kennslu og prófum. Í dag er próf úr Eglu. Á föstudag taka tveir hópar próf úr Laxdælu. Níutíogþristarnir taka próf í næstu viku úr Börnunum í Húmdölum. Svo þurfa börnin að fá yfirlit yfir ýmis skil og útreiknaða annareinkunn í lok nóvember.
Ég kvíði þessu sosum ekki neitt, þetta er árviss viðburður (misseris-viss viðburður). En að fara út að labba eða í eróbikk hopp? Nei … það er of erfitt fyrir litlar konur.