Færslur frá 16. nóvember 2008

16. nóvember 2008

Ég get svo svarið það

að okkar lið var fegurra og föngulegra en þeirra í Kópavogi! En ekki fer alltaf saman gæfa og gjörvileiki, vita allir sem hafa lesið svona tug Íslendingasagna eða svo, auk Kamelíufrúarinnar, og hefði kópvoxni íþróttafréttarinn kallað frammistöðu okkar Skagamanna í Útsvari  ”að lúta í gras”. Eina dæmið sem Orðasambandsbanki Árnastofnunar finnur um þetta er “(<verða að) lúta í gras (fyrir <sverði hans>)”  Svoliðis að mig minnir rétt um að lúta í gras sé að drepast endanlega og því ekki fallegt að sífra það yfir keppnismönnum í gamnikeppni … 

           

              

Þótt okkar lið hafi verið sýnu gervilegra en það kópvoxna komst ég að því áðan að okkar bæjarmerki er klastur eitt hjá þeirra í Kópavogi.  Reyndar má nefna til afsökunar að Akranes notar sitt merki voðalega lítið og sjálfsagt halda flestir, bæði innan og utan bæjarins, að hið gula glaðlega merki ÍA sé bæjarmerkið. Ég sýti ekki þann misskilning eftir að hafa séð lummulegt bæjarmerkið okkar.

Ég hitti kollega minn á vinnustað í gær, hvar hann lék við hvurn sinn fingur (hvernig sem það er nú hægt í ritgerðayfirferð?)  Hann mátti enda una ósigrinum vel því hann var áberandi langvitrastur í liðinu.  Frumburðurinn, sem ég talaði við í síma, bar sig líka ótrúlega vel og sagði að hefði kolleginn minn alltaf fengið að ráða svari hefðu Skagamenn líkast til unnið.

Sjálfri finnst mér að hefði vel mátt splæsa nokkrum aukastigum fyrir óhóflega kunnáttu og á ég þar við ræðu frumburðarins um Bjarna Harðarson. Auðheyrt var að drengurinn kunni jafnmikið eða jafnvel meira um Bjarna þennan en selveste múmínálfana!  Það að draga hann til ábyrgðar fyrir að svara ekki þessari smotteríisspurningu um varamann Bjarna finnst mér lummulegt, þegar búið er að telja upp öll börn Bjarna, segja deili á eiginkonunni o.m.fl. Ég reikna með að báðir ættleggir séu sammála mér um þetta.

Næsta verk frumburðarins verður að skóla til bróðurinn sem brást svo lið FVA vinni nú örugglega lið MK eða hvert það lið sem það mætir :)

Ummæli (7) | Óflokkað, Daglegt líf