Færslur frá 30. nóvember 2008

30. nóvember 2008

Troða halir helveg …

Púff!  Eins gott að ég er ekki halur! Þá væri veruleg ástæða til að hafa áhyggjur! Nei, ég er kván og get haldið mér kjurri með því að hnipra mig saman eins og lítil kanína og eyða helst megninu af sólarhringnum í þröngri hlýrri holu, sem búin er til úr tveimur sængum.

Þetta er í rauninni svipuð sængurhola og unglingar vilja búa sér til í sínu herbergi.  Sennilega er margt líkt með miðaldra þunglyndum konum og unglingum; annað sem mætti nefna er að hvorugan hópinn langar minnstu vitund til að mæta í skólann á morgnana! (Þetta passar reyndar ekki vel við mig því ég er öfugsnúin í þunglyndi sem öðru og líður skást á morgnana.)

Líf mitt litast af mistökum og sauðshætti. T.d. leitaði ég í meir en korter að lausu músinni við tölvuna uppi í skóla áður en rifjaðist upp fyrir mér og ég sá að þetta er fartölva með skafmiðamús … Ég er bara búin að nota tölvuskömmina í nokkur ár (held ég).

Mér tókst ekki að panta á internetinu og fór fjúkandi vond oní bankann minn … skýringin reyndist vera að í þremur atrennum hafði mér ekki tekist að slá inn réttan gildistíma korts!

Það fer náttúrlega ekki framhjá mínum góðu nemendum að sitthvað er bogið við þeirra kennara … t.d. þegar ég afrekaði í vikunni að leggja saman 2 og 4 og fá út 7, á töfluna!  Svo hripa nöfn nemenda úr mér hraðar en auga á festir. Sem betur fer eru nemendur umburðarlyndir við kennara og ég hef bara sagt þeim eins og er; að kennarinn þeirra sé geðveikur og versni sífellt geðið. Unga liðið hefur ekki sérstaklega mikla fordóma gegn geðveiki. Hið sama verður ekki sagt um fólk á mínum aldri. Þeir sem eru á brún geðveikinnar eru náttúrlega fordómafyllstir allra.

Eins og venjulega hef ég þennan klukkutíma - tvo tíma þar sem ég hugsa nokkuð skýrt og hitti á lyklaborð eins og ekkert sé. Eftir það fer allt á verri veg. Elskulegur maðurinn minn á megingjarðir inn í skáp og hefur sinnt sósíallífi og þrifum þessa heimilis, auk fjarkennslu og þessa tvöfalda djobbs sem hann gegnir - án stimpilklukku. Íbúðin mín er að verða íbúðarhæf að hluta, þ.e. komið klósett sem virkar og ekki lengur gígar í gólfinu. Maðurinn þreif líka íbúðina uppi meðan ég kúrði mig í fjóra tíma í sængurholu, án þess að sofna, en líðandi heldur skár undir sænginni.

Myndin er þjófstolin af NASA síðu og sýnir hvernig sól tér sortna … gæti verið mjög lýsandi mynd af mínu sálarlífi frá hádegi og frameftir deginum. Man því miður ekki hvar ég stal myndinni ofar í færslunni.

Ummæli (10) | Óflokkað, Geðheilsa