Færslur nóvembermánaðar 2008

10. nóvember 2008

Lagnafréttir

Nú hefur u.þ.b. tugur sérfræðinga greint vandann, myndað hann, skoðað og komist að niðurstöðu: Það verður að fóðra gömlu leku steinrörin undir húsinu með plasti. Ég þóttist náttúrlega báðum fótum í etu standa því af dyggum lestri Lagnafrétta í mörg ár hafði ég veður af svona plastfóðrun og líka af litlu sniðugu myndkafbátunum sem sigla um rörin blá í sautján ár … æi, missti mig …

Það eina pirrandi við vandamálið sem á að fara að leysa er að það er dj… dýrt!  En við eigum fyrir þessu og það er meira vit í að leggja sitt fé í plasthúðun skólpröra sem endast og endast heldur en í t.d. banka þar sem mölur og ryð og kreppa fá þeim grandað.

Framkvæmdir frestast af þessum lagnalagfæringum - þær verða ekki fyrr en í næstu viku.  Nú er búið að saga neðan af öllum hurðarstöfum, skrapa gamalt flísalím, hreinsa burt gamalt gólfefni o.þ.h. en ekki hægt að flota fyrr en eftir að plasthúðunargræjurnar hafa unnið sitt verk og ekki hægt að leggja gólfefni fyrr en flotað hefur verið og ekki hægt að setja í nýsmíðuð gerefti og hurðir fyrr en gólfefnin eru komin o.s.fr.  Kom í ljós að frummálning eldhússins hefur verið sundlaugargrænt skipalakk (enda skipstjóri sem byggði) en annað merkilegt er ekki að sjá.

Það væsir ekkert um okkur á efri hæðinni. Að sjálfsögðu er það reyklaus hæð en eldhúsið brúkum við og sofum í útilegu á dýnum. Mér finnst svolítið undarlegt að stundum þegar ég kem heim í hádeginu þá finn ég keim af síldarbræðslulykt í forstofunni. Þetta er ekki loðnubræðslulykt og ekki fýlan frá Laugafiski (lengst niður á Neðri- Skaga) … nei, þetta er af síld!

Við fórum í gullbrúðkaupið mikla, við Vífill mættum reyndar bara í seinni helminginn, af því hann þurfti að vinna upp margar vökunætur og ég er of geðveik til að treysta mér í 10 tíma samveru með háværri tengdafjölskyldunni (þeir taka þetta til sín sem eiga ;)   Þetta var ljómandi skemmtilegt kvöld á Hótel Loftleiðum … nema ég átti erfitt að sætta mig við að eta svo fögur dýr sem þarna voru í boði (rjúpur - skýrt tekið fram að væru skoskar -fasanar, krónhirtir o.s.fr.)

Ég hefði getað pínt mig á interessant fyrirlestur litla bróður en hefði þá verið að taka sénsinn á að gefast upp fyrir gullbrúðkaupinu.  Ég vona að einhver hafi komið :)

Síðan síðast hef ég klárað Varginn eftir Jón Hall Stefánsson. Gef henni þrjár stjörnur, hún er ansi fyrirsjáanleg. Hefði mátt þjappa textanum betur og stytta um a.m.k. 100 síður, til bóta. Á bókarkápu segir að Berlinske tidende hafi gefið henni 5 stjörnur ???

Núna er ég með einhverja nýja þunglyndisbók, sem ég man ekki hvað heitir. Ég bjóst við enn einni skruddunni um að soga orku úr jörðinni, drekka grænt te, íhuga og gera Müllersæfingar.  En nú kemur í ljós, á fyrstu síðum, að bókin er skrifuð af fullu viti en ekki mannkynsfrelsurum. Svo ég hugsa að ég lesi hana bara :)

Ég nenni ekki að finna neinar myndir núna, sorrí.

Ummæli (5) | Óflokkað, Daglegt líf

7. nóvember 2008

Myrká

Ég er búin með þessa en einu hugrenningartengslin við titilinn eru virkilega sikk og ógisleg! (Byggð á texta Mannakorna.) Burtséð frá því er þetta vel skrifaður krimmi með áhugaverðu tvisti í lokin.

Það kann að gleðja Skagamenn að eitt ódóið í bókinni heitir Eðvarð og hafði á árum áður kennt í Fjölbrautaskóla Akraness. Það plott leysist ekki en er á tæru að Eðvarð þessi er skíthæll …

Í augnablikinu er ekki svo mikið ryk í stofunni en þó finn ég vel fyrir því á lyklaborðinu. Hér er búið að rífa gólfefni, panel úr eldhúsi, skræla baðherbergið af öllu nema baðkerinu sjálfu. Við erum meira eða minna flutt upp í íbúðina á efri hæðinni; hún er á sölu og við vildum fá að leigja hana meðan mesta raskið er hér á neðri hæðinni.

Eins og alltaf þegar maður ætlar að sansa eitthvað í húsi kemur upp óvænt vandamál. Óvænta vandamálið okkar er raki í eldhúsgólfi, e.t.v. einnig í stofu. Eftir að hafa ráðfært okkur við 7 sérfræðinga (Atli sér um ráðfærsluna en ég brosi blíðlega hans við hlið, til ráðgjafanna, svona eins og Dorrit) þá erum við búin að ákveða að skipta út korksflísunum yfir í korkparkett (vona að það sé til hvítt) og rannsóknarskólplagningarmaður keyrði skólplagningarmyndavél um öll göt og nú á hæst setti pípulagningarmaðurinn að skoða myndirnar í kvöld og ákveða hvort hægt sé að gera dren utanhúss eða hvort verði að gera slíkt innanhúss. Greiningin liggur fyrir: 55 ára gömul steinrör út í göturæsi eru orðin lek. Það ku algengt með svona steinrör.  Aftur á móti ligga okkars þvert í línu gegnum húsið, sem er ekki svo skynsamlegt. Skynsamlegt er að hafa þau meðfram húsinu. Þá vitum við það.

Jæja, nú er ég búin að reykja tvær og get farið aftur að hreiðra um mig á efri hæðinni, með bók …

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf

4. nóvember 2008

Athugasemdir í ólagi

Ég var að komast að því að ekki er hægt skrifa komment við síðustu færslur.  Ég var farin að halda að mínir dyggu lesendur (innifalin sníkjubloggandi systkini mín) væru að hunsa mig gersamlega!  Gleður mig að þetta sé bara tæknilegt vandamál. Mun ég nú skrifa mínum góða vefstjóra og biðja hann að kippa þessu í liðinn.

Ummæli (5) | Óflokkað, Bloggarar, Daglegt líf

3. nóvember 2008

Innrás svörtu hundanna

Mér hefur lengi verið kunnugt um að Churchill kallaði sitt þunglyndi, sem karlinn sökk öðru hvoru í, svarta hundinn. Þegar svarti hundurinn var í heimsókn var karlanginn ekki mönnum sinnandi. Ég vorkenni honum svo sem ekkert mikið því hann gat alltaf sturtað í sig svo sem einum pela af viskíi á dag og þá er manni meira sama um þetta sem hann vildi kalla hund (hér tala ég af eigin reynslu). Til langframa er viskí-aðferðin hins vegar ekki mjög gagnleg, ekki einu sinni þótt maður púi vindla með.

Aldrei hef ég sett sérstakt samasem-merki milli okkar Churchills þótt bæði þjáumst við af sama sjúkdómi. Enda sér hver maður að við erum ekki sérlega lík (a.m.k. útlits). Af þessari mynd að dæma er ég t.d. umtalsvert flinkari í “fake it till you make it” en hann.

Svo hef ég bara átt hund í æsku, litla heimska vingjarnlega tík sem var brún og hvít og glaðlynd.

Í fyrra las ég Þar sem vegurinn endar, eftir Hrafn Jökulsson. Mér fannst hún algerlega frábær! Þar kom fyrir setning um að Hrafn hefði verið lagður inn á Lsp (eða Vog) með svörtu hundana. Þetta fannst mér sniðugur orðaleikur (út frá Winston og rauðu hundunum).

Ég hef verið að renna yfir bókina Ofsi, eftir Einar Kárason. Þar er persóna með geðhvarfasýki, Eyjólfur ofsi heitir sá. Bókin gerist á Sturlungaöld og endar á Flugumýrarbrennu. Satt best að segja finnst mér þetta hundleiðinleg bók og hennar helsti kostur er að hún er stutt. Ég fatta ekki hvað þeir sjá við hana sem koma henni í efsta  sæti metsölulista Eymundsson.

Sagan er brotakennd þannig að hver persóna fær nokkrar blaðsíður um sig, sem eru þá oftast útdráttur úr Sturlungu, svona svipað og kennari fær ef sett er fyrir verkefnið: “Settu þig í spor Guðrúnar Ósvífursdóttur þegar Bolli biður hennar” eða “Skrifaðu dagbókarsíðu í orðastað Kjartans þegar hann kemur að landi og fréttir að Guðrún sé gift” o.s.fr. Allir kennarar landins hafa lesið mýgrút af slíkum úrlausnum.

Auðvitað skrifar Einar Kárason betur en framhaldsskólanemendur, þó ekki væri nema vegna þess að hann er kominn til vits og ára. Hins vegar hefur hann pikkað upp hugmynd Hrafns Jökulssonar og er troðandi svörtum hundum (metafórunni) upp á þennan óinteressant Eyjólf nánast hvar sem persónan fær orðið.

Það sem var sniðugt í bók Hrafns Jökulssonar, sem er brotakennd sjálfsævisaga, er hroðalega ósniðugt í bók sem á að gerast á Sturlungaöld, þegar menn töldu melankólíu stafa af ójafnvægi í vessum líkamans en alls ekki af hundum yfirleitt, hvorki svörtum né móálóttum. (Og er ekki vafamál að svartir hundar hafi verið til í landinu á þessum tíma?)

Ég verð alltaf soldið pirruð þegar ég sé svona ómerkilegar eftirhermur - þetta er eiginlega eins og stolin ritgerð.

Ummæli (5) | Óflokkað, Geðheilsa

1. nóvember 2008

Ekki dauð úr öllum æðum!

Titillinn er eiginlega tvívísandi, þ.e.a.s. annars vegar á “frýs í æðum blóð” vel við þegar mér finnst renna ískalt eitthvað inni í mér.  Mest er þetta aftan á höfðinu - skrítin tilfinning en ekki slæm. Bókmenntaleg túlkun er að ég sé ekki blóðheit persóna. Mér þætti gaman að vita hvort blóðheitar + þunglyndar persónur kvenkyns finnist óverhóved í heimsbókmenntunum.

Hins vegar á fyrirsögnin við það að í gær varð ég svo reið að ég hefði getað drepið mann!  Þetta er yndisleg tilfinning þegar maður hefur verið alsljór og freðinn í langan tíma. Í gær var nefnilega húllumhæið Skammhlaup í skólanum mínum og var frá upphafi ljóst að betra hefði verið að sitja heima!

Mér skilst að íþróttaþrautirnar hafi ekki gefið amrískum herskólaæfingum neitt eftir í áhrifum og ástandi þátttakenda eftir fúttið,  auk þess sem þær tóku helmingi lengri tíma en áætlað var.

Tímasetning annarra atriða var þar með í hönk. Mér var sama því ég nýtti tímann í að vinna neyðar-kennslugögn því ég er svo á eftir miðað við kennsluáætlun. Þegar litlu ljósin komu í sína íslenskuþraut kom í ljós að nánast enginn kann aðra braglínu þjóðsöngsins en nánast allir kunna 4. línu Piparkökusöngsins.  (Ég sting því að Teiti Atlasyni, góðkunningja mínum, og félögum hans að berjast fyrir að “Þegar piparkökur bakar ….” verði gerður að þjóðsöng enda hvergi minnst á guð í þeim ágæta texta.)

Ég gaf fyrir mína þraut og raðaði liðum skv. þar til gerðu matsblaði - júróvissjónröðun var talin alheppilegust í ár. Óumflýjanlega stóðu nokkur lið sig jafn vel, hér og þar á skalanum og því voru t.d. 3 lið með 7 rétt af 10. Svo ég gaf þremur liðum einkunnina 12 (douze points) o.s.fr.

Þegar ég skilaði blaðinu inn þannig varð allt vitlaust:  Svona átti nefnilega ekki að gera og einungis 1 lið að fá 12 stig. Ég spurði stjórnandann hvernig svo mætti búa um hnúta ef gerð væri skítlétt þraut í 10 liðum. Svarið var að ég hefði átt að hafa ritunarspurningu! Ég hafði ekki heyrt þetta fyrr og tilkynnti að ég tæki aldrei aldrei aftur þátt í þessu hallæris-húllumhæi og væri þar af leiðandi skítsama. Í sama mund kom eðlisfræðikennarinn með akkúrat eins útfyllt blað og ég (margar tólfur).

Uppi í vinnuherbergi hitti ég Sögukennara A sem hafði fyrirfram vitað af ritunarspurningunni, fékk upplýsingarnar frá Sögukennara B.  Aftur á móti hafði Íslenskukennara C verið sagt eftir á að raða nemendum á listann eftir því hver af hæsta hópi kom fyrstur og hver annar o.s.fr. og hafði hann einmitt þurft að grufla svolítið yfir því að muna hvenær hver og einn keppandi mætti. Ég tilkynnti þarna að aldrig í livet tæki ég þátt í svona geggjun aftur!

Niðri við stigavörsluna var hins vegar allt á suðupunkti því sumir í framkvæmdastjórninni höfðu sagt liðunum að þau mættu keppa í bóknámsþrautunum í hvaða röð sem þau vildu. Af hyggjuviti mínu, þótt lítil kona sé, sá ég að þetta myndi nú ekki ríma sérlega vel við tímaröðun efstustiga-liða …

Í ár var keppt í að safna sígarettustubbum í kringum skólann.  Þetta er náttúrlega svo brjálæðislega nasísk hugmynd, í besta falli sprottin af illgirni, að ég reiknaði aldrei með að skólameistari tæki hana í mál. En stundum verður að reikna aftur og aftur: Þegar ég var að fara heim, guðsfegin, mætti ég tveimur af mínum nemendum með plastpoka, rennblauta sígarettustubba og blessunarlega hafði einhver haft vit á því að gera þá út með einnota plasthanska.  Ég var svona að vona að strákarnir mínir ættu séns en fyrir utan skólann stóð nemandi með tvo risastóra glæra poka, fulla af sígarettustubbum og sígarettupökkum. Ég reikna með að eldri nemendur hafi ekið einn hring um plássið og losað úti-öskubakka og jafnvel rótað í ruslatunnum bæjarins. Þeir nemendur hafa ábyggilega einir náð douze points í stubbaþrautinni.

Næsta ár liggur beint fyrir að safna tyggjóklessum, ef nota á nemendur sem þrifnaðarafl stofnunarinnar. Sennilega er betra að vigta afraksturinn en telja hverja klessu fyrir sig. Klárir nemendur myndu fara yfir alla rusladalla skólans og tína upp nikótínklessurnar út úr kennurum sínum, sem verður orðið svo harð-, harðbannað að reykja nema hinum megin við götuna. Einnota plasthanskar dygðu til að slá á raddir um slef út út öðrum, alveg eins og núna.

Muldrandi fyrir munni mér: “Aldrei meir … aldrei meir” fór ég heim og fór að undirbúa kennslu og nám sem fer ekki fram með fíflagangi.

Ummæli (1) | Óflokkað, Skólamál