Færslur desembermánaðar 2008

31. desember 2008

Gleðilegt farsælt nýár!

Ég óska öllum í fjölskyldu og tengdafjölskyldu gleðlegs árs, sem og mínum dyggu lesendum. Megi nýja árið verða okkur farsælt.

Ummæli (4) | Óflokkað, Daglegt líf

28. desember 2008

Snuff óátalið á Moggabloggi

Ég er yfir mig hneyksluð á sofendahætti Moggabloggs / Morgunblaðsins; að umsjónarmenn þess séu ekki búnir að taka bloggarann Jens Guð og fleygja honum og hans bloggi út í hafsauga. Auðvitað hefur kona eins og ég samúð með fólki sem ekki gengur heilt til skógar (eins og margir á topp-tíu lista moggabloggins enda tæpast á færi nema öryrkja að blogga þrisvar-fjórum sinnum á dag / nótt) en einhvers staðar fær maður nóg. Núna er það linkurinn í snuff-myndina sem Jens hefur sett inn, hvar horfa má á manneskju drepna í alvörunni. Ég hef ekki skoðað myndbandið, til þess þykir mér of vænt um mig.

Ég leit á skilmála bloggsins og fann þessa gullvægu reglu sem Morgunblaðið hefur sett: „Með því að staðfesta þessa skilmála er notandi að staðfesta að hann beri ábyrgð á öllum skrifum, myndbirtingum, myndbandabirtingum og öðru efni sem birtist á síðu hans. Óheimilt er að birta á síðum efni sem særir blygðunarsemi manna. Morgunblaðið ber á engan hátt ábyrgð á því sem notandi eða þeir sem heimsækja síðu notanda setja á síðu notanda.“  Sumsé er óheimilt að birta „efni sem særir blygðunarsemi manna“ en Mogginn ætlar samt ekkert að  skipta sér af því bloggarinn sjálfur ber ábyrgð á að birta efni sem er óheimilt að birta!??!!

Jensi Guðmundssyni auglýsingateiknara hefur á einhvern dularfullan hátt tekist að sannfæra obba lesenda sinna um að hann hafi 5 háskólagráður eins og Georg Bjarnfreðarson. Það er merkilegt, ekki síst í ljósi þess að auglýsingateiknun taldist iðnnám og var kennd í Myndlista- og handíðaskólanum.  Núna heitir þetta nám grafísk hönnun en er líklega enn á framhaldsskólastigi. Um ævina hefur þessi maður síðan unnið sitt lítið af hvurju og virðist ekki hafa safnað ryki í sama starfinu lengi. Þannig að stórkarlalegar yfirlýsingar hans um menntun í markaðsfræði og markaðsfræðilegar rannsóknir sem hann hefur gert eru sennilega svipaðar og nemendur vinna í sálfræðiáföngum framhaldsskóla.

Nú má auðvitað spyrja sig af hverju ég sé að blogga um þetta mál.  Verður það ekki til þess að fjölga heimsóknum á blogg Jens Guðmundssonar? Virkar þetta eins og auglýsing? Á maður að láta „Sleeping Dogs lie“ og ekki skipta sér af misvitru eða misbiluðu eða misfullu fólki?  Þeir eru margir sem lýsa þeirri skoðun sinni í kommentadræsu guðsins, altso að sé ógislegt kík mar ekki …

Mér finnst gott að hreinsa minn huga af soranum með  bloggi. Þessi færsla virkar því svipað og brúsi af Brasso fyrir mig. Hún virkar væntanlega eins og blekbytta fyrir talsmenn algers tjáningarfrelsis.

Ummæli (19) | Óflokkað, Geðheilsa

26. desember 2008

Jólamyndir

Netið er í algeru fokki svo ég reyni ekki að skrifa færslu! Bendi á jólamyndir mannsins af fjölskyldunni, sjá http://this.is/atli/album/.

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf

23. desember 2008
19. desember 2008

Loksins (næstum) búið!

Maðurinn er á þessari stundu að festa hillur í skápana sína, hita Span dótið sitt upp í 200° (eða kannski er bakarofninn ekki Span? Gæti verið Spikk …) Jafnframt er maðurinn búinn að troðfylla uppþvottavélina af rykugu leirtaui og mundi eftir að setja salt á botninn á vélinni (!?!). Kannski er hann byrjaður að raða í skápana, hvað veit ég.

Sé ekki betur en eldhúsgræjurnar séu alltof fullkomnar og tæknilegar fyrir litla konu eins og mig.

Sem góð eiginkona var ég náttúrlega langt komin með að ryksuga sagið í eldhúsinu og dusta af marmaraeftirlíkingarplötunni sem teygir sig eins og Miðgarðsormur eftir eldhúsinu, þegar maðurinn kom heim úr matvörubúðinni.  Við erum nefnilega ekki með eyju. Í gamla daga, meðan ég vann í bókabúð og sjoppum, þótti agalega smart að hafa eyju og eimháf þar fyrir ofan.  Ég sá aldrei pojntið í þessu þar sem þessi eyjudrusla gerði umferð um eldhúsið mun snúnari. Í glanstímaritum fyrri tíma var alltaf mynd af “henni” eða “honum” að ”blanda salat” á eyjunni. Augljóslega meira vit að brúka vaskaborðið til þess … nema þau hafi vanið sig á að fá það óþvegið.  Eyjulaus höfum við eldhúsbekkina í ormslíki.

(Nú veldur minnisskortur því að hugsanlega eru Sörlaskjólskarríerhjónin með eyju - þeirra íbúð strokaðist úr mér við stuðin. Sé svo skulu Sörlskælingar ýta á delete fyrir málsgreinina að ofan.)

Allavega er eldhúsið þannig: Hvítt korkparkett á gólfi, eldhúsinnrétting úr hlyni og reyklituðu gleri (nýju hurðirnar í allri íbúðinni eru líka úr hlyni - þær verða settar upp í janúar), hvítur ask-panell á veggjum þar sem ekki eru skápar eða svoleiðis dót og svört borðplata á láréttum flötum og verður á matarborðinu þá það kemur á morgun.  Þetta er nú ekki alveg eins og hrafntinna eða eitthvað þannig heldur svartur marmari. Eldhúsið er smíðað eftir teikningu mannsins (og á tímabili var umræðan farin að minna mig á “Eldhús eftir máli” með einhvern veginn öfugri kynskiptingu. Auðvitað er ekkert af þessu ekta heldur allt spónlagt. (Hafandi búið í ekta flottri íbúð í Napólí á sínum tíma er ég ekki mikið fyrir ekta.  Ég vil t.d. geta gengið berfætt um íbúðina mína og ekki þurfa að horfa í hvert fingrafar.)

Ég er aðeins að breytast í homo sapiens.  Kannski eru það nýju pillurnar sem valda. Ég er a.m.k. orðin aðeins hressari en morrinn svo eitthvað virka pillurnar. Helsta aukaverkun þeirra er að fólki hættir til að hætta að reykja. En kona hefur látið sig hafa verri aukaverkanir en þessa. Svo á ég nú eftir að sjá hvussu heftandi aukaverkunin er því ég hef alls ekki hugsað mér að hætta að reykja. Í verstu dýfunum eru mínir einu vinir sígarettur og þykk sæng (sem brúkast ekki saman).  Og ef einhver reynir að segja langt leiddum þunglyndissjúklingi að eitthvað sé e.t.v. lífshættulegt - þá setur sjúklingurinn upp steinfésið því hún er of veik til að hlæja hæðnislega.

Ummæli (6) | Óflokkað, Daglegt líf

14. desember 2008

Endurhlaðið (Refreshed) heimili og endurhlaðinn eiginmaður

Maðurinn tók sig til í gær og fór með fjórar kerrur af rusli til Sorpu (svo nú er minn góði sólpallur auður á ný); Skúraði alla íbúðina okkar og bónaði stofuna og ryksugaði húsgögnin (steinryk hefur þann leiða eiginleika að smjúga um allt) - bar svo allt okkar dót úr hústökuíbúðinni uppi og hingað niður nema eldhúsdótið því við höfum ekki eldhús enn.

Myndin sýnir ekki ektamanninn eins og glöggt má sjá af hári fyrirsætunnar.  Aftur á móti gæti maðurinn tekið upp þetta verklag miðað við afköstin í gær!

 Ég þvoði eina þvottavél rúmlega 7 um morguninn og hélt á nokkrum tuskum af mér sjálfri niður í okkar íbúð, rétt meikaði að hengja þær upp. Maðurinn straujaði hins vegar fælu af skyrtum og brókum af sér sjálfum.

Myndin til hægri gæti sýnt mig ef ég færi einhvern tíma í freyðibað … það er þetta letilega lúkk sem passar við mig og myndin ágæt til mótvægis við manninn í baðinu …

Maðurinn hefur auk þess undanfarið steypt í tvær gamlar ristar, sparslað og málað. Ég hef hlustað kurteislega á upplýsingar um hversu mátulega þykkt steypuna verði að blanda og hvað gerist ef hún er of þykk eða of þunn. Hef hlustað á þetta þrisvar og þykir ekki mikið miðað við hve hallar á mig í framkvæmdum.  Það verður aldeilis munur þegar frumburðurinn lítur við því hann er mikill steypusérfræðingur og getur rætt þetta fræðilega við föður sinn!

Maðurinn er búinn að setja upp svolítið af National Lampoon’s jólaljósum. Ég hef hins vegar keypt eina hýasintu og látið það duga.

Með einbeittan valvilja og tvo minnislista að vopni fór ég í tvær búðir í gær. Í dag ætla ég að fara og skila tveimur gjöfum og fá aðrar í staðinn.  Gríðarlegur valkvíði er fylgifiskur þunglyndis og þótt maður eyði klukkutímum í að fletta bóka- og plötutíðindum og skrifa skipulega gjöf á kjaft þá fer náttúrlega allt úr böndunum þegar maður fer að skoða. Ég held að ég fengi alvöru taugaáfall ef ég reyndi að fara í Kringluna!

Svo hringdi ég í stærðfræðinginn til að fá útreiknað hvernig gjöfum verður komið til skila: Lagt inn og sótt. Eitthvað var stærðfræðingurinn hvumpinn - e.t.v. að reikna - og talaði í norðlenskum tón en ekki því sem synir mínir kalla “sænskan vælutón” og segja að ég taki upp þegar ég er mjög veik. (Sorrí litla systir … þetta eru náttúrlega fordómar í krakkakvikindunum!)

Niðurstaðan var að koma þessu öllu á litla bróður enda geymir hann kjötið okkar. Það hefur aftur á móti ekki náðst í litla bróður til að fá samþykki (sem er nú óþarfi því hann er pappírslega séð minnstur …) og hvussu skuli bera sig að með allar gjafir utan Eskifjarðar, Tenerife líka. Ég reikna með að litla fjölskyldan sé einhvers staðar á reginfjöllum eins og flestar helgar og skipulegg á morgun.

Ég er að fara að pakka inn. Hef uppgötvað að ég gleymdi að kaupa merkimiða og límband en treysti á að maðurinn hafi gert það um daginn (hann er búinn að ganga frá öllu sínu, þessi elska).

Þið sem lásuð þessa löngu færslu: Ef ég verð alveg lens með fé kann að vera að ég bjóði upp manninn á ebay. Fylgist með! 

Ummæli (1) | Óflokkað, Daglegt líf

11. desember 2008

Vímuð

Ég er svo vímuð af epoxy-lyktinni að ég hugsa varla skýrt.  Skil ekki hvernig nokkur maður getur haldið út að verða lím-fíkill! Ég man eftir þessu trendi í gamla daga, fyrir svona 30 árum síðan …

En mikið déskoti er ask-panellinn flottur!!

Hef reiknað út að ég fer yfir rúmar 1000 síður í þessari prófatörn (og svoleiðis törnum almennt). Rúmlega 100 nemendur og rúmlega 10 síður í nær öllum prófunum gera 1000, er það ekki?  (Held ég sé of epoxy-uð til að finna þetta út. Maður fer að skilja af hverju fíklar og alkar sækja í bókmenntir - sjálf meðtalin - þar sem ekkert er skilið jarðlegri spekt.)

Ef ég les einu sinni enn “Honum var beitt ofbeldi” eða “Henni var beitt ofbeldi” læt ég leggja mig inn! Ég höndla gömlu villurnar ágætlega ekki síður þær nýrri af nálinni.

Ummæli (6) | Óflokkað, Daglegt líf

7. desember 2008

Sumt potast en annað ekki

Jákvæðu tíðindin eru að nú er næstum allt búið nema eldhúsið. Og eldhúsið verður sett upp í næstu viku, reiknum við með. Svoleiðis að nú er bara ein vika eftir í útilegunni á efri hæðinni - en við höfum dvalið þar í góðu yfirlæti þannig séð.

Hurðir og dyrastafir kunna að frestast fram í janúar. Ég hef margoft gefið í skyn við okkar góðu tréiðnakennara að ég vilji eftirmynd af Valþjófsstaðahurðinni  sem útidyrahurð … en ævinlega fengið blankt augnaráð og ekkert svar. Í gær stakk Atli upp á að fræst yrðu nöfnin okkar, í útidyrahurðina en þeim tréiðnakennara fannst það ekki sniðugt. Hvenær ætla þessir menn að nota tölvustýrða fræsarann?  Ég bara spyr … En úr því innihurðir eru tilbúnar og spónlagðar með öllu er sjálfsagt ekki hægt að fræsa neitt spennandi í þær hurðir. 

Þótt sumt sé að verða svo fínt að það sé of fínt! Má nefna að eftir lökkun korkparketts  glansar það svo mjög að konur geta ekki verið í pilsi hér inni, þetta er eins og að labba á spegli. Samt stóð á dollunni Silk Mat, segir lakkarinn. Já, þótt sumt sé orðið þannig últra-fínt má finna drusluleg bæli eða afkima (kolbítsins) innan um fínheitin og nefna að við erum eina fólkið í götunni sem ekki er búið að skreyta með svo mikið sem einni peru!  Mér datt í hug að okkar góðu flóttamenn yrðu glaðir að sjá þetta og teldu fólkið í þessu húsi vera upplýst fólk, trúmálalega séð, eftir að hafa séð gyðingakertastjaka í hverju einasta húsi í bænum, tvo og þrjá sumstaðar.

Ætli maður verði ekki að setja upp eitthvert ljósadót?  Menn skreyta sko ekki við sleitur hér á Skaganum og sumir setja ekkert fyrir sig mismunandi uppruna, sbr. jötusenuna með snjókarli öðrum megin og kókjólasveini hinum megin, í næstu götu … Eina ljósadótið sem við eigum hefði sómt sér vel í National Lampoon’s Christmas … og á hverju ári vona ég að það sé ónýtt! Þeir feðgar hafa alltaf skreytt kirfilega einn glugga, þ.e. mokað öllu jólaljósakyns í stofugluggann. Það lítur að sjálfsögðu hörmulega út en við skerum okkur þá ekki úr götumyndinni á meðan.

Ég skoða með að moka út úr helli kolbítsins eftir dúr. Það er alltaf línudans hversu mikið má gera þegar manni líður þokkalega því eftirköstin daginn eftir geta verið slæm. Og á morgun eru mín minnstu börn í prófi og þurfa bjartsýnislegan kennara sem getur talað / hvíslað og man orð. Sami kennari þarf að geta horft hlýlega og óþunglynt á hvern nemanda og helst að brosa uppörvandi (sem er verulega erfitt sé kona djúpt sokkin).

Mía litla skreytir aldrei fyrir jólin eða hvað? 

Ummæli (6) | Óflokkað, Daglegt líf

4. desember 2008

Búleikur

(ég kunni ekki við að hafa titilinn “Barbídúkka í búleik” ef einhverjir skyldu enn kannast við þann gamla brandara.)

Í heilan mánuð hafa iðnaðarmenn skrælt hálfa íbúðina oní stein og byggt hana svo upp á nýtt. Það versta var tíminn þegar verið var að skoða skólplagnir með myndavélarkafbát og leggja þær upp á nýtt, innan í þeim gömlu, sem voru á síðasta snúningi. (Ath. Ef hús er um 50 ára gamalt og skólplagnir eru úr steini og einhvern tíma fyrir ekki langalöngu var skipt yfir í hitaveitu með hitaveituafrennslisskólpvatni - ÞÁ ættu menn að fá Ásgeir með röramyndavélina.

En sumsé meðan strákarnir með rörin á sinni könnu voru að leita að endum röranna var doldið ókræsilegt hér um að litast því grafa þurfti gíga hér og þar um gólfin og einnig djúpa gröf úti í garði. (Þeir slepptu því að grafa oní garðgröfina og mér þótti það vel við hæfi því ég var að kenna Grafarþögn akkúrat þá … Atli er búinn að hálfmoka oní hana.)

Núna er komið glansandi nýtt og fínt og æðislegt baðherbergi. Komið er ljóst korkparkett á hálfan flötinn sem það á að lenda á, sennilega stærri parturinn af íbúðinni. (Öll gólf flotuð þegar búið var að steypa í gígana og mér fannst þau æðisleg enda höfum við einu sinni gert þau mistök að leggja parket á óflotað gólf.)

Eldhúsið var endanlega skrælt í gærkvöldi og núna áðan fór ég að dást að litunum: Þetta eldhús hefur verið pastel-blátt, pastel-bleikt, dökk-grænt, dökk-lambaskítsgult, ÍA-gult og nú síðast þokkalega ljósgult (sem ég málaði sjálf yfir ÍA og dökkgræna litinn). Í dag smíðuðu strákarnir nýjan sökkul undir nýju eldhúsinnréttinguna sem er verið að smíða úti í bæ. Á morgun geta þeir ríslað sér við að kork-parkettleggja að sökklinum, reikna ég með.

Sirka 50% af þeim fjölda iðnaðarmanna sem nú hafa komið við sögu eru gamlir nemendur. Hins vegar var Pólverjinn Róman ekki gamall nemandi og hélt að hann gæti eitthvað skipað mér fyrir verkum í minni eigin íbúð með því að benda á nýmálað eldhúsloftið og segja: ”Mála, mála fínt! Ekki reykja inni!” og skálma svo einbeittur fram í þvottahús til að kveikja í og svo út. Ég þóttist ekkert skilja.  Hann hefur sjálfsagt haldið að ég væri lítil pen kona sem gerði eins og mennirnir segðu. Svona gerast kúltúrsjokkin.

Sem betur fer búum við á efri hæðinni (þökk sé okkar ágætu nágrönnum sem við söknum sárt) og þar er eldhús og baðherbergi og svona dót sem maður vill hafa í kringum sig.

Af heilsufari er bara þetta sama gamla leiðinlega að frétta: Ég þurfti að melda mig veika í yfirsetu í dag.  Hugsanlega var ég með svona slæma magapest - hugsanlega var þetta enn ein birtingin á þunglyndi / kvíða og því drasli. Ef ég læt undan þessu á morgun enda ég á að komast ekki út úr húsi. Svo ég ætla í yfirsetur á morgun.  Prófayfirferð í einum áfanga er lokið en ég held að ég hafi aldrei á ævinni verið jafnlengi að fara yfir próf! Ég er orðin svo leið á að vera aumingi að ég gæti gubbað!

Ummæli (8) | Óflokkað, Daglegt líf