Færslur frá 19. desember 2008

19. desember 2008

Loksins (næstum) búið!

Maðurinn er á þessari stundu að festa hillur í skápana sína, hita Span dótið sitt upp í 200° (eða kannski er bakarofninn ekki Span? Gæti verið Spikk …) Jafnframt er maðurinn búinn að troðfylla uppþvottavélina af rykugu leirtaui og mundi eftir að setja salt á botninn á vélinni (!?!). Kannski er hann byrjaður að raða í skápana, hvað veit ég.

Sé ekki betur en eldhúsgræjurnar séu alltof fullkomnar og tæknilegar fyrir litla konu eins og mig.

Sem góð eiginkona var ég náttúrlega langt komin með að ryksuga sagið í eldhúsinu og dusta af marmaraeftirlíkingarplötunni sem teygir sig eins og Miðgarðsormur eftir eldhúsinu, þegar maðurinn kom heim úr matvörubúðinni.  Við erum nefnilega ekki með eyju. Í gamla daga, meðan ég vann í bókabúð og sjoppum, þótti agalega smart að hafa eyju og eimháf þar fyrir ofan.  Ég sá aldrei pojntið í þessu þar sem þessi eyjudrusla gerði umferð um eldhúsið mun snúnari. Í glanstímaritum fyrri tíma var alltaf mynd af “henni” eða “honum” að ”blanda salat” á eyjunni. Augljóslega meira vit að brúka vaskaborðið til þess … nema þau hafi vanið sig á að fá það óþvegið.  Eyjulaus höfum við eldhúsbekkina í ormslíki.

(Nú veldur minnisskortur því að hugsanlega eru Sörlaskjólskarríerhjónin með eyju - þeirra íbúð strokaðist úr mér við stuðin. Sé svo skulu Sörlskælingar ýta á delete fyrir málsgreinina að ofan.)

Allavega er eldhúsið þannig: Hvítt korkparkett á gólfi, eldhúsinnrétting úr hlyni og reyklituðu gleri (nýju hurðirnar í allri íbúðinni eru líka úr hlyni - þær verða settar upp í janúar), hvítur ask-panell á veggjum þar sem ekki eru skápar eða svoleiðis dót og svört borðplata á láréttum flötum og verður á matarborðinu þá það kemur á morgun.  Þetta er nú ekki alveg eins og hrafntinna eða eitthvað þannig heldur svartur marmari. Eldhúsið er smíðað eftir teikningu mannsins (og á tímabili var umræðan farin að minna mig á “Eldhús eftir máli” með einhvern veginn öfugri kynskiptingu. Auðvitað er ekkert af þessu ekta heldur allt spónlagt. (Hafandi búið í ekta flottri íbúð í Napólí á sínum tíma er ég ekki mikið fyrir ekta.  Ég vil t.d. geta gengið berfætt um íbúðina mína og ekki þurfa að horfa í hvert fingrafar.)

Ég er aðeins að breytast í homo sapiens.  Kannski eru það nýju pillurnar sem valda. Ég er a.m.k. orðin aðeins hressari en morrinn svo eitthvað virka pillurnar. Helsta aukaverkun þeirra er að fólki hættir til að hætta að reykja. En kona hefur látið sig hafa verri aukaverkanir en þessa. Svo á ég nú eftir að sjá hvussu heftandi aukaverkunin er því ég hef alls ekki hugsað mér að hætta að reykja. Í verstu dýfunum eru mínir einu vinir sígarettur og þykk sæng (sem brúkast ekki saman).  Og ef einhver reynir að segja langt leiddum þunglyndissjúklingi að eitthvað sé e.t.v. lífshættulegt - þá setur sjúklingurinn upp steinfésið því hún er of veik til að hlæja hæðnislega.

Ummæli (6) | Óflokkað, Daglegt líf