2. janúar 2009

Ísakshús … og staðreyndir sem stangast á

Mér datt í hug að fara að hræra saman kennsluáætlunum og uppfæra áfangavefsíður … en sá að þetta er svo  óumræðilega leiðinleg iðja að ég snéri mér að öðru.

Rannveig Dýrleif Stefánsdóttir er hreint ekki eins dularfull og látið er!  Eiginlega er stórfurðulegt að Íslendingabók skyldi hafa komið ættinni í svo opna skjöldu sem varð. (Sorrí, ég er enn undir málfarsáhrifum frá Norðra og Lögbergi-Heimskringlu :)

Staðreyndir:  Pálína Jónsdóttir Laxdal var fædd 1869, gift Jóni Einarssyni og flutt á Raufarhöfn laust fyrir aldamótin 1900. Þáu eignuðust bara einn son. Svo þau hjón taka Rannveigu Dýrleif í fóstur.  Hún er fædd 1884 og því ekki nema 15 árum yngri en Pálína. Stelpuskottið hlýtur að hafa verið stálpað þegar það kom til Pálínu.

Ekki verður annað sagt að hún launi vel  fóstrið: Þegar Rannveig Dýrleif var gift kona (Ísaki)  lét hún frumburð sinn heita Jón Einarsson Ísaksson (f. 1904), elstu dóttur heita Pálínu Brynhildi en hún dó í bernsku og þá reynir Rannveig enn einn ganginn að koma nafni fóstru sinnar upp og lætur næstu dóttur heita Pálínu Hildi Ísaksdóttur. Sú Pálína Hildur dó í hárri elli í desember 2003.

Hégilja? Okkur var alltaf sagt að Pálína Hildur hafi harðbannað að láta heita í höfuðið á sér og því hafi móðursystir mín verið skírð Ásthildur, í höfuðið á báðum ömmunum (hin hét Ástfríður) og smyglað inn hálfu nafninu. Undarlegt.

Nafnið Rannveig Dýrleif er vægast sagt sjaldgæft. Okkar Rannveig Dýrleif var fædd 3. 10.1884 í Kræklingahlíð við Eyjafjörð. Til var önnur Rannveig Dýrleif Hallgrímsdóttir, fædd 13. sept. 1854, á Grund í Eyjafirði. Um þessa er sagt: “Frú Rannveig var þannig af góðum eyfirzkum ættum, fékk hún gott uppeldi og meiri mentun en alment gerðist á hennar uppvaxtarárum.” Hún krækti í enn einn Laxdals kauphéðininn, sá var Eggert Laxdal. Þau áttu þrjú börn sem öll dóu. Í minningarorðum um Rannveigu Dýrleif Laxdal, í Norðra 1906, segir að hennar sé nú sárt saknað, m.a. af uppeldisbörnum, en þau eru ekki nafngreind. Það hljóta að vera tengsl milli þessara tveggja nafna.

Í minningarorðum um Pálínu Hildi Ísaksdóttur (Mbl. 8. des 2003) segir: “Móðir Pálu, Rannveig, var tekin í fóstur og alin upp hjá Jóni Einarssyni, kaupmanni á Raufarhöfn og Pálínu Jónsdóttur Laxdal.”  Einnig segir:

“… Pála fæddist á Raufarhöfn og ólst þar upp fyrstu æviárin eða til 14 ára aldurs. Þar bjó fjölskyldan í húsi sem kallað var Ísakshús. Eftir því sem hún bezt vissi var búið í því fram á síðustu ár og hefur trúlega verið góður viður í því. … Foreldrar hennar, sem byggðu áður nefnt hús, byggðu einnig samkomuhús við íbúðarhúsið og þar var dansað og seldu þau kaffi og límonaði, vindla og sígarettur.”

Kommon! Hin dularfulla fósturdóttir er fimmtán árum yngri en frú Pálína og hefur varla verið lengi í fóstri sem barn. Kannski hefur hún átt að vera frú Pálínu selskapsdama eða þjónustustúlka? Rannveig lætur svo heita í höfuðið á þeim kaupmannshjónum og er elsti sonurinn jafngamall Fríðu ömmu (f. 1904) sem frú Pálína tók svo í fóstur.  Fjölskylda Rannveigar Dýrleifar flyst ekki frá Raufarhöfn fyrr en 1923, sem vill svo skemmtilega til að er sama árið og afi (Einar Baldvin Jónsson) og amma (Hólmfríður Árnadóttir) gifta sig.

Það er ótrúlega dularfullt hvernig Rannveig og fjölskylda hefur verið þögguð niður. Nema afkomendur Fríðu og Einars séu upp til hópa með selektífan athyglisbrest.

Hvar er Ísakshús?

10 ummæli við “Ísakshús … og staðreyndir sem stangast á”

 1. Einar ritar:

  Kvameinarru selektífan athyglisbrest… yfir hverju?

 2. freyja systir ritar:

  ég man allavega ekki eftir þessari konu enda flutti hún frá Raufarhöfn rúmlega 40 árum áður en ég fæddist ;-)

  M og P vita alveg hvar Ísakshús er/var.

  Gleðilegt ár annars.

 3. Harpa ritar:

  Skeði eitthvað? Móðgaðist einhver í kringum 1920?

  Freyja mín, ekki taka svona allt til ðín og Einar: Ég var að nota fínt khí-legt orð yfir sauðshátt! Af hverju vissu ekki M og P og við systkinin um konuna, húsið og nöfnu langömmu?

  Ég veit að Ragna veit alveg helling um þetta allt.

 4. Harpa ritar:

  Datt í hug í þessum skrifuðum orðum að e.t.v. hefði verið rígur milli Bræðranna Einarsson og höndlun Ísaks og Rannveigar. Þetta hefur náttúrlega verið bein samkeppni. Sömuleiðis er væntanlega bein samkeppni við greiðasölu Rannveigar Grímsdóttur Laxdal Lund. (Fyrir selektívu athyglisbrostnu: Rannveig Lund var systurdóttir Pálínu, sú sem var skilin eftir þegar öll fjölskylda hennar flutti til Amríku. Hún giftist Maríusi Lund og fékk þannig lengingu á nafnastrollunni.)

  Svona lítið þorp hefur kannski ekkert haft að gera með valkosti. Kuffilagið náði aldrei neinni fótfestu á Raufarhöfn, hefur mér skilist. Kannski lærði Rannveig Dýrleif bókhald og verslunarrekstur af Br. Einarsson búðinni og þeim hafi fundist hún stinga undan sér með opnun sölu veitinga á dansböllum?

 5. Harpa ritar:

  OMG - Rannveig Lund var bróðurdóttir Pálínu - sorrí ..

 6. Einar ritar:

  Hef soldið verið að velta því fyrir mér hvort þetta tengist eitthvað uppgötvun Rutherfords þegar honum tókst að kljúfa atómið þarna 1920. Var ekki Rutherford líka frá Raufarhöfn?

 7. Harpa ritar:

  Einar - mundu að ég er eldri og þ.a.l. gáfaðri en þú og get svo vel tekið þig í gegn! Ég skal samt viðurkenna að þessi færsla og kommentadræsan er komin út um víðan völl og eiginlega í rugl

  Mér sýnist augljóst að atóm-karlinn hafi verið frá Raufarhöfn - það sést á nafninu.

  Næst blogga ég um eitthvert tryggt umræðuefni eins og t.d. lántöku íslenska ríkisins til að standa skil á Icesave, hugleiðingar um hvort Eva sé alvöru norn (og af hverju hún galdri þá ekki lögguna og breyti í froska) … eitthvað svona seif sem allir eru að tala um.

 8. Ragna ritar:

  Ég veit nú svo sem ekki mikið meira um þetta mál. Ég náði þó tvisvar að heimsækja Pálínu, fyrst ein og svo með foreldrunum. Hún var alveg ótrulega ern og algjörlega með kollinn í lagi - mig minnir að hún hafi dáið þegar hún var 97 ára eða þar um bil. Veggirnir í íbúðinni voru þaktir myndum og meðal þeirra var mynd af Pálínu og Jóni og voru það sömu myndirnar og voru upp á vegg alla tíð hjá ömmu Fríðu.

  Ég man að mamma, pabbi og hún töluðu heilmikið um þetta Ísakshús á Raufarhöfn en ég held að það hafi staðið einhvers staðar nálægt kirkjunni.

  Pálína á mjög marga afkomendur, mig minnir að þau hjónin hafi eignast fimm syni og hafa a.m.k. nokkrir þeirra verið annálaðir aflaskipstjórar.

 9. Ragna ritar:

  Smá framhald - Ég man að Pálína sagði mér að hún hefði nokkrum sinnum hitt ömmu og líka Ástu frænku þannig að einhverjir í ættinni vissu greinlilega um tilvist fóstursysturinnar Rannveigar.

 10. Gísli Guðlaugsson ritar:

  Sæl Harpa.
  Gaman að rekast á Ísakshús hér er búinn að vera að leita og spyrjast fyrir hjá fólki frá Raufarhöfn hvort þau þekktu húsið.
  Svo er ekki verra að Rannveig langamma skuli vera nefnd, en hún er móðuramma mín. Afi er svo fæddur í Ísakshúsi en hann hét Sigurður Gunnar Ísaksson.
  Stendur Ísakshús ennþá ?