Færslur frá 10. janúar 2009

10. janúar 2009

Komst í gegnum heila tónleika! Eða: Vandinn að klæða sig pent!

Við hjónin fórum á hátíðartónleika Rótarýs í gærkvöldi.  Þeir voru haldnir í Salnum í Kópavogi undir dyggri stjórn Jónasar Ingimundarsonar. Þennan dag rak ég fyrst augun í auglýsingu þar sem þess var æskt  að menn væru samkvæmisklæddir, gæsla væri í fatahengi og freyðivín í hléi. Eins og ég hafi ekki verið nógu stressuð fyrir!

Ég fór yfir fataskápinn og vissulega á ég eitthvað af samkvæmisfötum - málið er bara það að ég kemst ekki í neitt af þeim. Loks tók ég þann kostinn að vera í þokkaleg svörtu pilsi og toppi við, útsaumuðu með blómaborðum svipað og samfella eða skautkyrtill. Svo fann ég alltof lítinn svartan brjóstahaldara með tróði og náði þannig hinu eftirsóknarverða útliti nútímans: Að sýna brjóstaskoru! Þetta er aftuhvarf til einhverrar enskrar cleavage tísku og gott ef ekki átti að setja punktinn yfir i-ið, í bókstaflegri merkingu álímdan fæðingarblett. Mín skora var samt ekki nærri því eins flott og þessi sem sést á myndinni.

Háhæluð svört stígvél … og mér fannst ég líta út eins og gleðikona.  Manninum fannst ég fín.

Hitt vandamálið er svo að ég á ekkert dýr til að ganga í. Gæslumenn fatahengis eru að passa alls konar skinnfeldi og pelsa og ég á ekki einu sinni dauðan ref til að bregða um hálsinn! (Sem minnir mig á: Einar og þið hin: Hvað varð um dauðu refina hennar ömmu? Þeir héngu upp á vegg og horfðu á mann svörtum gleraugum þegar maður gekk hjá.) Svoleiðis að ég fór í Kína-jakka sem passaði sæmilega utan um þetta, ekta því ég keypti hann sjálf í Soho Kínahverfinu.

Ef ég á að segja eitthvað um tónleikana þá voru þeir prýðilegir. Þóra Einarsdóttir er sætari en Katherine Jenkins og miklu betri söngkona. Mér finnst reyndar að það hefði mátt hafa betur þekkt lög á efnisskránni - miðað við markhópinn sem sótti tónleikana. Mér fannst líka tónleikarnir of langir … en þar kann að spila inn í að ég er mjög óvön því að vaka mikið fram yfir kl. 21.

Ég er náttúrlega yfir mig hreykin að hafa tekist þetta, þ.e. sitja tveggja tíma tónleika í tiltölulega stórum sal, án þess að fá kvíða að ráði. (Mér sýndist hins vegar gítarleikarinn á þessum tónleikum fá kvíðakast á sviðinu … en hann jafnaði sig fljótt.)

Afrekin í dag eru einungis þrif og síðan óvænt upprifjun úr Njálu, hvar frú Bergþóra segir: “Gjafir eru yður gefnar” og eggjar svo til hefnda. Mér datt aldrei í hug að smjaður yrði til þess að mér væri gefin svona óumbeðin gjöf.

Ummæli (5) | Óflokkað, Daglegt líf