10. janúar 2009

Komst í gegnum heila tónleika! Eða: Vandinn að klæða sig pent!

Við hjónin fórum á hátíðartónleika Rótarýs í gærkvöldi.  Þeir voru haldnir í Salnum í Kópavogi undir dyggri stjórn Jónasar Ingimundarsonar. Þennan dag rak ég fyrst augun í auglýsingu þar sem þess var æskt  að menn væru samkvæmisklæddir, gæsla væri í fatahengi og freyðivín í hléi. Eins og ég hafi ekki verið nógu stressuð fyrir!

Ég fór yfir fataskápinn og vissulega á ég eitthvað af samkvæmisfötum - málið er bara það að ég kemst ekki í neitt af þeim. Loks tók ég þann kostinn að vera í þokkaleg svörtu pilsi og toppi við, útsaumuðu með blómaborðum svipað og samfella eða skautkyrtill. Svo fann ég alltof lítinn svartan brjóstahaldara með tróði og náði þannig hinu eftirsóknarverða útliti nútímans: Að sýna brjóstaskoru! Þetta er aftuhvarf til einhverrar enskrar cleavage tísku og gott ef ekki átti að setja punktinn yfir i-ið, í bókstaflegri merkingu álímdan fæðingarblett. Mín skora var samt ekki nærri því eins flott og þessi sem sést á myndinni.

Háhæluð svört stígvél … og mér fannst ég líta út eins og gleðikona.  Manninum fannst ég fín.

Hitt vandamálið er svo að ég á ekkert dýr til að ganga í. Gæslumenn fatahengis eru að passa alls konar skinnfeldi og pelsa og ég á ekki einu sinni dauðan ref til að bregða um hálsinn! (Sem minnir mig á: Einar og þið hin: Hvað varð um dauðu refina hennar ömmu? Þeir héngu upp á vegg og horfðu á mann svörtum gleraugum þegar maður gekk hjá.) Svoleiðis að ég fór í Kína-jakka sem passaði sæmilega utan um þetta, ekta því ég keypti hann sjálf í Soho Kínahverfinu.

Ef ég á að segja eitthvað um tónleikana þá voru þeir prýðilegir. Þóra Einarsdóttir er sætari en Katherine Jenkins og miklu betri söngkona. Mér finnst reyndar að það hefði mátt hafa betur þekkt lög á efnisskránni - miðað við markhópinn sem sótti tónleikana. Mér fannst líka tónleikarnir of langir … en þar kann að spila inn í að ég er mjög óvön því að vaka mikið fram yfir kl. 21.

Ég er náttúrlega yfir mig hreykin að hafa tekist þetta, þ.e. sitja tveggja tíma tónleika í tiltölulega stórum sal, án þess að fá kvíða að ráði. (Mér sýndist hins vegar gítarleikarinn á þessum tónleikum fá kvíðakast á sviðinu … en hann jafnaði sig fljótt.)

Afrekin í dag eru einungis þrif og síðan óvænt upprifjun úr Njálu, hvar frú Bergþóra segir: “Gjafir eru yður gefnar” og eggjar svo til hefnda. Mér datt aldrei í hug að smjaður yrði til þess að mér væri gefin svona óumbeðin gjöf.

5 ummæli við “Komst í gegnum heila tónleika! Eða: Vandinn að klæða sig pent!”

 1. Einar ritar:

  Við ákváðum að sleppa refunum hennar ömmu aftur út í náttúruna.

  Annars hefðiru getað talað við mágkonuna - hún á einhvern slatta af pelsum, þökk sé markaði sænska hjálpræðishersins og dánum konum

 2. Harpa ritar:

  Þið eruð svo græn og náttúruleg … því var ég búin að gleyma. Mágkonan getur auðvitað ekki mætti í pels á fundina í útlöndum; er ekki alltaf verið að friða og friða, þ.m.t. sel, ísbjörn, ref og jafnvel mink?

  Mér hefur annars dottið í hug að fjárfesta í pels í Kolaportinu, hvar þeir hanga í búntum og eru víst af dánum dönskum konum. Svo hef ég farið að hugsa: “Hvenær get ég verið í’essu” og ekki getað fattað upp á neinu. Þessir Rotarýtónleikur voru fyrsta (og kannski eina) tækifærið til að ganga í dauðu dýri.

  Ég á smá-flík með roði og þykir hún fín enda hef ég enga samúð með fiskum heldur gleðilegt að hægt sé að nýta af þeim einhvern hluta.

 3. hildigunnur ritar:

  Jámm, Þóra er frábær söngkona, Katherine Jenkins er eiginlega bara sæt ;) Hver var annars gítarleikarinn?

 4. Harpa ritar:

  Gítarleikarinn var Ögmundur, styrkhafi Rotarýs í ár. Hann spilaði ljómandi vel en lent svo í miðju kafi í anstyggilegum trillum (í eina verkinu sem ég kannaðist við - á það sennilega á vinyl) og klúðraði þeim. Þá vildi hann endurtaka en klúðraði aftur. Ég hugsa að hann hafi verið orðinn svo skjálfhentur þegar hér var komið sögu og dauðvorkenndi honum alveg hroðalega. En Jónas bjargaði málunum, talaði rólega við salinn og hleypti öðru atriði að á undan … eftir það gekk allt smurt og Ögmundur spilaði eins og engill.

 5. Einar ritar:

  Sko, konan mundi mæta með dauðan sel undir hendinni á fundi, ef hún mundi ekki lenda í vandræðum í tollinum. Ef það væri ekki fyrir hana væri búið að friða miklu fleiri dýrategundir í þessum heimi.