25. janúar 2009

Löt bloggynja spáir í net-stjórnmál

Þetta með letina er reyndar álitamál. Á miðöldum töldu menn þunglyndi til dauðasynda. E.t.v. hefur MGD, þ.e. Medieval Guild of Depressed (hagsmunafélag þunglyndra) fengið því framgengt að dauðasyndinni var breytt í leti. Og upplýsingar um MGD eru allar týndar, nema þessi eina tilvísun í þessari einu bloggfærslu.

Sem sagt ráfa ég og reika um bloggheima (vil ekki segja refilstigu því ég passa mig auðvitað að detta ekki í neina drullupolla sem aðrar bloggendur hafa grafið á sínum bloggstígum - Hér á frasinn Live and Let Live afar vel við. Hann á einnig gasalega vel við þessa bloggfærslu).

Ég er búin að skoða þessi tvö framboð sem komin eru. Annað tekur strax fram að það sé ekki framboð og ekki flokkur ??? Þau gætu notað orðið hreyfing ef þeim er svona meinilla við öll f-orð. Sjá Nýtt lýðveldi.

Fjórir eru hvatamenn þessa fyrirbæris (sem er ekki flokkur, ekki samtök, ekki framboð o.s.fr.) sem sjá má hér. Ég kannast við 3 af þeim fjórum “okkur” og get ekki ímyndað mér hvað þetta fólk á sameiginlegt annað en heilbrigðan áhuga á fornum fræðum ýmiss konar. En ég hef sosum ekki nennt að lesa allt á síðunni, heldur gripið oní textann hér og hvar. Það sniðugasta sem ég hef séð er að nota hvíta plastborða til að vekja athygli á sér: Það er eitthvað svo kínverskt og austurlandadulúðin sveipar mjúklega allar misfellur sem kunna að vera. Nokkrar hækur myndu gera sig vel á síðunni. 

Hitt ekki-framboðið o.s.fr. telur sig byltingu, a.m.k. heitir það Lýðveldisbyltingin. Þar fann ég enga hvatamenn eða forystusauði sem e.t.v. helgast af því að byltingin er algerlega anarkísk; Ætli þetta eigi ekki að vera bylting fólksins? Með frekara grufli mátti finna út að eftirtaldir linkuðu í Lýðveldisbytinguna:  anna.is, Egill forstjóri Brimborgar, Einar Indriðason og Soffía Sigurðardóttir. Kannski eru þetta forsprakkarnir? Anna heldur a.m.k. utan um teljarann.

Síðan þar er gerð í einhverju MediaWiki sem ég veit ekkert um en fær mig til að gruna að síðan höfði til þeirra sem telji sig lítt hafa fengið hljómgrunn til þessa,  feminístar, nýhílistar og alls konar afgangsgrúppur í þjóðfélaginu. (Nýtt lýðveldi virðist meira ætlað fólki með a.m.k. eina háskólagráðu.)

Í forritinu MediaWiki getur hvaða skráður notandi sem breytt texta og skrám.  Eldri skrárnar vistast sjálfkrafa og því er hægt að sjá hvernig textanum hefur verið breytt og væntanlega einnig hvaða notendur gerðu það.

Það væri sterkur leikur hjá Lýðveldisbyltingunni að koma sér upp appelsínugulum plastborðum í áróðri;  Það er einmitt svo kínverskt og Falun Gong legt … og nokkrar hækur myndu punta upp á forsíðuna. (Þeim má svo skipta út eftir smekk hvers og eins.)

Líklega telur Lýðveldisbyltingin þetta ákaflega frjálslynt kerfi.  Ég spái því að síðan verði algerlega ónothæf innan skamms,  ef unglingateymi finna hana og auglýsa sem skemmtiatriði á Fésbók, eða einhverjir kennarar sem vakna um 5 leytið á nóttu hverri og hafa ekkert skárra fyrir stafni meðan beðið er dagmála. Eða einhverjir Eyjamenn …

Bæði þessi ekkiframboð hafa mjög svipaða forsíðu; Skjaldarmerkið er haft lengst til hægri - svo titillinn og linkar á fyrirsjáanlegum stöðum. Ég legg til að undirskriftarlistar þessara tveggja framboða verði samkeyrðir þegar fram líða stundir því ég býst við að stór hluti sé fólk sem skrifar á undirskriftalista hvar og hvenær sem er, bara af undirskriftarkikkinu einu saman. Því má ætla að talsvert stór hluti undirritaðra sé hinn sami hjá báðum ekkiframboðunum.

Hvernig væri að bylta almennilega og lofa því að skipta úr skjaldarmerki?  Taka fálkafánann af MR og þar með verður hann kominn í hring og í þær hendur sem upphaflega áttu að eiga hann. Auk þess er þetta skjaldarmerki svo karlrembulegt að konu verður ómótt! Enginn fulltrúi kvenna hefur ratað með fjór”menningunum”! Mætti uppfæra MR-fánann í örn eða öllu heldur össu! Þetta er það eina pólitíska sem mér hefur  dottið í hug við lestur á krókaleiðum bloggsins.

—– 

Ætli maður haldi sig ekki við það að kjósa listann með skásta liðinu eins og endranær, vera ekki að velta stefnumálum allt of mikið fyrir sér en passa t.d. að kjósa ekki fasista eða rasista eða kalla sem blogga drukknir um nætur eða feita kalla í jakkafötum o.s.fr.

Mér er ljóst að ég safna ekki mörgum vinum með þessari færslu. En nú hafa lífsgildin mín breyst svo mjög á áratug að ég er nánast ný og miklu syndugri manneskja. Miðað við hvað er mikilvægt í þessu lífi er kjökur móðgaðra bloggara eins og hver önnur smákökusneið!
 

11 ummæli við “Löt bloggynja spáir í net-stjórnmál”

 1. Atli Harðarson ritar:

  Þurfa offitusjúklingar að fara úr jakkafötunum til að þú kjósir þá. Sjálfur kynni ég nú betur við að hafa grannvöxnu frambjóðendurna nakta en þassa feitu með einhverjar dulur utan um sig.

 2. Harpa ritar:

  Ég sé að skv. hefð hefurðu misskilið mig! Ég var að meina feita klædda karla, get takmarkað meir eins og skippa slíkum með brennivínsnef og talanda einsog lítil plata væri spiluð á 33 snúninga hraða …

  Ég ítreka að ég vil sjá alla frambjóðendur klædda (í eitthvað)! “Framboð nakinna” fær sko örugglega ekki mitt atkvæði.

 3. Einar ritar:

  Ónefndur fyrrverandi alþingismaður sem ég spjallaði við á föstdag tjáði mér að þegar kallaðir voru inn varaþingmenn fyrir karlmenn á alþingi hafi þær konurnar gjarnan talað um að skipt hefði verið út tonni á móti tonni.

  Annars hélt ég alltaf að appelsínuliturinn væri ættaður úr Úkraínu og byltingunni þar sem Jú…eikkað reyndi að bylta Jú…eikkað (sem var spilltur), með hjálp Jú..líu, sem núna er orðin óvinur Jú..eikkað (1) vegna þess hvað hann er spilltur en Jú..eikkað (2) er aftur kominn til valda enda datt Jú..Eikkað (1) fljótlega út vegna spillingar. Júlía ku einnig hafa orð á sér fyrir spillingu. ÞAð er flott að vera með svona fyrirmyndir. Rétt er að taka fram að eini Úkraínumaðurinn sem hefur meikað það án spillingar, Andreji Schevchenko, styður Jú…eikkað (2) og greiðir regluglega í kosningasjóði hans.

 4. Harpa ritar:

  Ég er næstum viss um að þú ert að meina Júlíu Tímósjenkó og að nafnið er nánast rétt haft hjá mér. Sessunautur minn í vinnunni á nefnilega úkraínskt vegabréf og við ræðum einstaka vinnum hárgreiðslu Júlíu þessarar og erum báðar jafn gapandi hrifnar!

 5. freyja systir ritar:

  Væri ekki flott ef sumir ráðherrar (eða fyrrverandi ráðherrar) tækju upp þessa hárgreiðslu?

 6. Harpa ritar:

  Þeir hafa ekki hárið í hana …

 7. Harpa ritar:

  Gleymdi að taka fram að flottasti ráðherrann þarf að fara að láta lita í rót.

 8. freyja systir ritar:

  Sko, Harpa þú fattar vonandi að fléttan hennar Júlíu er gerviflétta? Meira að segja Steingrímur J. gæti verið með þessa greiðslu ef hann bara vildi.

 9. Einar ritar:

  Ég hélt að þetta væru heyrnartól fyrir æpodd.

 10. Harpa ritar:

  Eruð-ðið eitthvað verri, þið litlu? Þjónustustúlka Júlíu fléttar hana morgun hvern, höldum við Lúdmila!

  Á kannski næst að halda því fram að Hallgerður langbrók hafi verið með hárkollu? Og gengið í leggings?

 11. Harpa ritar:

  Ég sé að ég hef óvart (af dys-einhverjum völdum) sagt skjaldarmerkið lengst til hægri á forsíðum tveggja ekki-framboðanna. Skjaldarmerkið er vitaskuld lengst til vinstri.