6. febrúar 2009

Heilsa og smettiskruddan

Ég er jafn sljó í dag og í gær og á jafnerfitt með allt!  Hins vegar kastaði hinn góði læknir til mín bjarghring sem viskum vona að dragi mig að landi yfir helgina.

Ég hef sem sagt verið kramaraumingi frá þriðjudegi til dagsins í dag en eygi nú von til að komast úr því hlutverki. Þetta var verulega djúp dýfa!  Þegar ég þarf að beita öllum viljastyrks-tætlunum og allri orku dagsins í að koma sjálfri mér í sturtu og fresta því ekki þá er ástandið slæmt.  Frísk fer ég í sturtu dag hvern, líka til að eyða hinni stórhættulegu reykingalykt úr hárinu á mér áður en ég hitti saklaust ungviðið. Og náttla fer ég í fersk föt daglega sama ungviðis vegna.

Raunsætt mat er að nemendur hafi ekki saknað mín neitt heldur leikið lausum hala og alls ekki lesið Bárðar sögu! Við getum vonandi porrað námsefni, nemendur og kennara upp eftir helgina svo okkur leiðist ekki. Njáluhópnum treysti ég til að vera búinn með megnið af Njálu og vita út í hörgul hvernig landslag á þessum slóðum hefur breyst frá því “dalur” var ” í hvolnum”.

Mitt nám í fyrsta bekk í menntó innihélt m.a. Njálu og síðan afar sérsinna setningafræði kennarans sem hvergi hefur verið notuð svo vitað sé og gagnið af henni sennilega ekkert. Kennarinn var doktor í tilvísunarfornöfnunum “sem” og “er”. Sjá allir sem hafa fylgst með síðustu tuttugu árin að þessi doktorsgráða fer fyrir lítið þegar öll íslenskumafían í HÍ snýr sér að Chomsky og fer upp úr því að greina “sem” og “er” sem hvurjar aðrar samtengingar.  Orðflokknum “tilvísunarfornöfn” hent fyrir róða og ekki lengur til og þ.a.l. ekki hægt að drilla nemendur í að finna í hvaða falli þessi orð standa; Samtengingar beygjast ekki í föllum.

Njálukennslan í denn gekk voða mikið út í það hvernig landslagið hefði þurft að vera hefði sagan átt að ganga upp. Alls konar jökulár höfðu breytt um stað og vatnsmagn, jöklar gengið sundur og saman, sjórinn dekkað Vík í Mýrdal og marg-margoft stóð kennarinn við stóra landakortið og dró með fingri Fjallabaksleið nyrðri og Fjallabaksleið syðri. Þar sem ég hafði hvorki smalað á hálendinu né vissi hvar Vík var, svo ekki sé minnst á Dímon (sem ég leyfi mínum nemendum að hafa í karlkyni skv. máltilfinningu) og var álíka áhugalaus um Trausta Einarsson jarðfræðing, sem doktor Harald kennara, þá skilaði þessi fyrstubekkjarkennsla þeim effektíva árangri að bólusetja mig fyrir Njálu í meir en tuttugu ár!  Þegar ég las söguna aftur, eftir tuttugu ár plús, rann upp fyrir mér að þetta er fín spennusaga, með smávegis pornógrafíu í upphafi og blóðir flæðir eins og í hvaða almennilegum vestra. Síðan hef ég velt fyrir mér hvursu drepleiðinlegur kennari þarf að vera til að bólusetja nemendur fyrir lífstíð. Vona að ég verði ekki til þess.

Svo er það Facebook eða Smettiskrudda (nýyrði litla bróður sem ég kann sérlega vel við). Ég sé því miður ekki kostina við Smettiskruddu nema þá helst að geta njósnað um einkalíf yngri sonarins eftir að hann var svo vitlaus að “adda” mér á vinalistann sinn. Þessa dagana hef ég aðeins kíkt þarna inn og finnst allt í kaos og ef kona skráir sig eingöngu til að vera með í ættarmótsgrúppu þá er eins og andskotinn komi með alla sína púka;  gylliboð og vinafjöld. “Það eru allir á Facebook!”  Þessu skal ég trúa því því á smettiskrudduvettvangi ægir öllu saman og allt komið í steik. Auk þess sem ég hef fyrir satt að nemandi norður í S-Þing. hafi “addað” Skagamanni á átjánda ári inn í grúppuna “Bakkaættin” til að stríða yngri syninum. Við sitjum þar með uppi með Skagamanninn á næstu fimm ættarmótum! Fyrir svo utan það að hann heitir nafni og föðurnafni sem einn ekta Bakkaættarmaður ber. (Munar að vísu sennilega 40 - 50 árum en umsjónarmaður grúppunnar hefur sjálfsagt haldið að þetta væri gömul mynd.) Nýi Bakkaættinginn mundi svo sem punta ágætlega upp á samkvæmið í sumar, ég er ekkert að afþakka það.

5 ummæli við “Heilsa og smettiskruddan”

 1. Einar ritar:

  Fínt að fá einhvern til að skúra

 2. Helga ritar:

  Njálureynsla mín er næstum alveg eins og þín. Sagan týndist í drepleiðindum í fyrsta bekk hjá téðum kennara en svo fann ég hana þegar ég kenndi hana einn vetur ca. 1980, þannig að hún varð ÍSLENDINGASAGAN. Eglu, sem annar maður kenndi, fílaði ég hins vegar í tætlur, ekki síst vísurnar. Slíkur er máttur kennarans!

 3. Harpa ritar:

  Lítur út fyrir að við höfum gengið í sama skóla :)

 4. Helga ritar:

  Já, það er rétt.

 5. Vilborg Davíðsdóttir ritar:

  Ég toppa þetta: Á öðru ári í menntó máttum við bekkjarsystkinin í 2.M í Menntaskólanum á Ísafirði lesa upphátt hvert fyrir annað upp úr Eglu og þegar kom að orði merktu fótanótu-tölustaf bar nemanda að færa fingurinn út á spássíu og deila með öðrum orðskýringunni sem þar var að finna, halda síðan lestri áfram þar til kennaranum (sem auk kennslu vann í lögreglunni og síðar hjá Vestfjarða-RÚV) þóknaðist að óska eftir því að annar tæki við lestrinum. Ekki var rætt um efni, innihald, landslag ellegar gildi Egils sögu í þessum tímum svo ég muni og var þetta þó veturinn sem ég tók mig taki og hætti að leggjast fram á borðið og sofna þegar mér leiddist sem mest. Þrátt fyrir þessa skelfilegu meðferð á sagnaarfinum leið þó ekki nema áratugur þar til ég ákvað að leggja til atlögu við hann aftur, las Laxdælu um það leyti sem ég fór að velta því fyrir mér að skrifa kannski sögu um landnámsöldina einhvern daginn.