13. febrúar 2009

Reið, örg og fallin eins og Bubbi

Mikið djöfull er ég búin að vera hrikalega lasin af einu vestrænu lyfi sem ég er tiltölulega nýbyrjuð að taka. Í gær byrjaði ég að skjálfa upp úr klukkan 6 um morguninn en seldi mér þá læknislegu hugmynd að þetta væri nettur skjálfti sem myndi lagast þegar liði á daginn. Klukkan 8 nötraði ég eins og drykkjumaður í delerium tremens.  Það er ákveðin lífsreynsla að nötra frá hnakka oní stórutá en nú veit ég hvernig hún er og þarf ekki fleiri prufur. Ég hefði meldað mig veika nema af því ég var búin að lofa að vera með “gestafyrirlestur” í sálfræðihópi. Svo ég sagði reynslusögu í þeim hópi hríðskjálfandi og gat ekki drukkið vatn af minni FVA-stútkönnu og átti inn á milli erfitt með mál.  Mér datt samt í hug að það væri betra fyrir hópinn að sjá þá almennilega veikan geðsjúkling en frísklegan.

Ég fór heim að reykja, í tíukaffinu, og náði að skella aftur fyrir mig á bílastæðinu, beint á hnakkann. Það var helvíti vont! Síðan þetta var eru komin 3-4 skipti þar sem ég er næstum að skella á hnakkann. Það er eins og jafnvægiskúlan í mér sé vanstillt.

Í morgun vaknaði ég upp úr kl. 5 við það að ég var að tala hástöfum við einhvern um íslenska stafsetningu; nánar tiltekið hvaða reglur gildi um j í endingum. Í svefni tók ég dæmi af “nýi” og “nýja”. Ég hef talað upp úr svefni undanfarið, kenni það einni pillusortinni og þegar umræðefnið er orðið stafsetning finnst mér þetta hátterni orðið sjúklegt!

Í rauninni fattaði ég þá ég sagði sálfræðinemum frá geðveikinni minni hvað þetta er mikil raunasaga því aldrei tekur hún enda og sárasjaldan hef ég verið algerlega ó-geðveik í meir en áratug! Í rauninni finnst mér stundum að ég sé aðallega veik af aukaverkunum lyfja! Og núna er ég orðin reið yfir því ástandi.

Ég hafði verið komin vel á veg með að trappa mig niður og út úr róandi/kvíðastillandi/bla-bla lyfi.  En nú þurfti að keyra það aftur upp því þetta bla-bla lyf slær á skjálfta. Þar með er ég aftur á byrjunarreit og þannig séð fallinn í alvarlegri edrúmennskutilraun.

Mér finnst gott að blogga þessa færslu til að ná úr mér reiðinni. Mér finnst gott að byrja hana á nákvæmlega því sem ég vildi sagt hafa. Vonandi fara einhverjar pempíur, t.d. af mínum vinnustað, ekki að nötra yfir færslunni. Ég get gefið svoleiðis silkiprinsum nóg Zyban sem fær mann til að hrollvekjast gegnum daginn, bara það sé tekið nóg.

Vilborg: Það rifjaðist upp fyrir mér í þessu reynslusögudæmi hjá krökkunum (Góðan dag, ég heiti Harpa og er geðveik …tónninn) að ég hef lesið Hrafninn þrisvar.  Las bókina þegar hún kom út (enda mikill aðdáandi og búin að kenna Korku sögu um árabil) en Hrafninn stuðaðist úr mér.  Mér sagt að mér hefði þótt hún góð svo ég las hana aftur … og þótti hún svakalega góð. En næst þegar ég fór í raflostmeðferð stuðaðist Hrafninn úr mér, eins og fjöldi annarra bóka, myndbanda o.s.fr. enda eru staðhæfingar um að raflost eyði einkum “sjálfsævisögulegum minningum” ekki annað en hélgilja sem borgar sig að trúa ekki.

Nema hvað: Ég er nýbúin að lesa allar bækurnar þínar, nema Korku sögu sem ég man af því það er svo langur tími síðan ég las hana fyrst. Ég vildi segja þér að mér finnst Hrafninn frábær!  Vonandi ertu að skrifa framhald - verða íbúarnir fluttir á þrælamarkað syðra? Ekki annars segja mér það svo ég hafi til einhvers að hlakka :)

3 ummæli við “Reið, örg og fallin eins og Bubbi”

 1. freyja systir ritar:

  Sæl Harpa mín

  Vonandi hefur þetta eitthvað lagast á síðustu dögum því þetta hljómar alveg hræðilega. Rosalega eru þessi lyf erfið.

  batakveðjur og knús

  Freyja

 2. Vilborg D, ritar:

  Ljóta ólyfjanin þetta. Geturðu fengið aðrar pillur við aukaverkununum? Minn var einu sinni með 3-4 sortir, flestar við aukaverkunum.

  Takk fyrir allt komplímentið - leitt þetta með stuðið - og fyrir að kenna mig únglíngunum, ég vona svo sannarlega að þeir séu á sama máli og kennarinn…. varðandi yfirstandandi skrif, eh, nei.. eða…. ég segi það ekki. (En þessi hugmynd er reyndar á bak við eyrað).

 3. Harpa ritar:

  Ég held að helmingurinn af mínum lyfjum séu til að slá á aukaverkanir hins helmingsins. Almennt og yfirleitt þoli ég lyf illa.

  Það má náttúrlega breyta sér í Pollýönnu og hugsa um hvað var heppilegt og skemmtilegt fyrir mig að geta lesið svona góða bók þrisvar - ávallt sem nýja!

  Unglingar fíla Korku sögu í tætlur. Við erum samt að hvíla okkur aðeins á henni í bili. Hrafninn yrði of þung bók fyrir nýnemana. Mér finnst bækurnar þínar allt eins vera fullorðinsbækur og þekki marga fullorðna sem hafa lesið þær og þótt góðar.