21. mars 2009

Sökk, sökking sökk!

Hvað er hægt að segja annað sitjandi við gluggann og sjá allar tegundir af veðri á fimm mínútum, þ.m.t. hagl?  Og krókusarnir nýbúnir að blómstra!

Til að veita geðvonskunni útrás las ég enn einu sinni yfir dagskrá SM (ekki sadista samt) á ráðstefnu sem er akkúrat í gangi núna. Mér fannst að ég gæti gert alveg helling annan en að hlusta á þessa örfyrirlestra, t.d. bloggað tíkarlega á þokkalegu máli, með eðlilegri fyrirsögn og er nú einmitt að því / verandi einmitt að því / bloggaði ef ég mætti og gæti o.s.fr.

Það er einhver slagsíða á ráðstefnunni … eitthvað sem mætti kannski kalla MR-heilkennið. Yfirleitt kemur þetta heilkenni best í ljós í spurningakeppni framhaldsskólanna og það merkilega er að nokkrir skólar pródúsera fólk með þessa lífssýn, ekki bara MR.

Ármann Jakobsson er MS-ingur sem kennir við MR. Hann vakti athygli á sér og sínum í vetur með því að “uppgötva” þau sannindi að það væri æskilegt að tala við nemendur um fornbókmenntir!  Stundum skrifaði hann bara eitt orð á töflu í heilan tíma. Vá! … Mér finnst að Váið ætti einkum að vera fyrir því að maðurinn tylldi í kennslu.  (En hann er náttúrlega í vernduðu umhverfi þar sem heilkennið “að hafa ekki fattað að heimurinn er til utan MR og hefur verið lengi” ýtir undir skrítilegheit, jafnvel svo rammt að fráhvarf frá þeim þykja merkileg uppgötvun.

Það væri ofsalega gaman að vita hvernig Ármann hugsar sér að fornbókmenntakennsla fari fram annars staðar, t.d. í þeim lágstéttarskólum sem heita fjölbraut, þar sem konur hafa troðið sér í kennarastétt og ýmsar aðrar byltingar hafa átt sér stað. Ég hef aldrei séð þennan Ármann læf en í kastljósþættinum sem ég hraðspólaði í gegnum í tölvunni minnti hann mig mjög á hobbita. Mér fundust hobbitar sætir í gamla daga.

Nú hefur Ármann fattað þetta: ”Ritunarkennsla virðist stundum ekki mjög mikils metin í skólakerfinu. Sérstök ritgerðareinkunn er gefin af gömlum vana en ritun er sjaldnast ætlað rými í stundaskrám, móðurmálskennarar fara yfir ritgerðir ofan á alla aðra vinnu en ritgerðum fækkar í öðrum námsgreinum. ” (Feitletrun bloggynju.)

Sérstök ritgerðareinkunn er auðvitað hvergi gefin nema í afdönkuðum fornskólum.  Annars staðar er gert ráð fyrir því að ritgerðir séu innifaldar í kennslu og námsmati áfanga. Í venjulegum fjölbrautaskóla stynja nemendur sáran undan ritgerðaáþján í fjölda faga, meira að segja stærðfræði.

Ég sé að tískuskólinn Verzló, sem hefur verið í hópi skóla duglegustum að kraka til sín fé fyrir fjarnemendur sem aldrei sjást og eru þá sennilega álfar, hafa líka sérstaka ritgerðareinkunn fyrir stúdentspróf. Sjálf hef ég tveggja ára reynslu af þessu fyrirbæri þá ég kenndi við ML.  Vitlausara fag og einkunn finnst varla.

Soffía, sem ég minnist sem hressar og skemmtilegrar konu, hefur klárað master og verkefnið verið að skoða ritgerðir nemanna úr Versló 2006 (það hlýtur að hafa tekið tímann sinn að fá leyfi þessara tvöhundruð nemenda fyrir notkun á þeirra texta) og “rannsóknarspurningin” (djíses, ég hélt þetta væri bara í kennó ;) er: Er ungt fólk hætt að nota viðtengingarhátt? Ég hef ekki hugmynd um svarið en hverjum er ekki sama? Það er næstum jafn mikil tímasóun að leita svarsins (sem hlýtur að vera neikvætt því annars væri rannsóknarspurningin “Notar ungt fólk viðtengingarhátt?”) og að hraðsökkva sér ofan í ljóðabréfaskil gamals prests, vitandi allan tímann að vinnan væri til einskis og ekki þarf nema nokkur stuð til að ljóðabréfin poppi út. Það eina jákvæða er að Soffía er eflaust jafn skemmtileg og mig minnir og ábyggilega allt í lagi að hlusta á’ana.

Mætti halda að ég væri spæld fyrir að fara ekki á ráðstefnuna. En nei, ég er glöð að hafa sleppt henni. Vill þar t.d. svo til að ég er íslenskukennari eða framhaldsskólakennari sem kenni íslensku. Ég er enginn fokkings móðurmálskennari (sem mér finnst alltaf að sé einnig leikskólakennari / grsk. kennari upp í svona 3. bekk). Þess vegna eiga samtök móðurmálskennara alls ekki við mig, auk þess sem ég vil ekki tengjast misvísandi skammstöfuninni. Enda er ég ekki í SM.

Í gær var ég að útlista fyrir 2 x 102 hvernig skynsamlegt verklag væri að skrifa stutta ritgerð, sem þau fá einkunn fyrir en gildir bara inni í aðaleinkunn fyrir ÍSL 102, rétt eins og skriflegu íþróttamenntirnar gilda bara sem hluti af þeirri grein o.s.fr. Ég spurði þessa krakka hvað þeim hefði verið kennt í grunnskólum (þau koma úr a.m.k. fimm grunnskólum) og þeim hafði verið kennt að ritgerð væri endursögn “svo kennnarinn viti að ég hafi lesið bókina”. Þess vegna byrja ég ævinlega á því að afkenna grunnskólakennsluna. Jafnframt reyni ég á dramatískan hátt að venja þau af “og vona ég að þú lesandi góður hafir haft gagn og gamna af” í lokin og “hafir gagn og gaman af” í upphafi.

Bara þetta tvennt, að afkenna ofantalið, er stór árangur í nýnema-ritunarkennslu. Svo getur maður farið í þetta hefbundna; praktísk not af þankahríð, flokkun hugmynda, uppkast í bútum o.s.fr.

Af því nú lifum við á þeim tímum að ritendur eru örugglega fleiri en lesendur verðum við að búa við þá staðreynd að ritunin líkist ekki endilega stpr.ritgerðum MR og Versló (guði sé lof!) og að eina rétta sóknin, beri maður hag íslenskunnar fyrir brjósti, er að auka lestur.

“þakka þeim sem hlýddu” (þessa lokasetningu hef ég fengið í ritgerð, man ekki hvort það var stúdentsprófsritgerð eða bara venjuleg).

4 ummæli við “Sökk, sökking sökk!”

 1. Einar ritar:

  Vá, annars hélt ég að hann Ármann vinur minn væri lektor við HÍ.

 2. Harpa ritar:

  Sko, vinur þinn uppgötvunarkennarinn virðist kenna í tveimur skólum og mun fljótlega uppgötva fjölgreindarkenningu Gardners því síðasta sumar þurfti MR að taka við öllum nemendum; umsóknum hefur fækkað svo mjög. Breytist skólinn í venjulegan hverfaskóla hugsa ég að syndrómið láti undan síga.

 3. Einar ritar:

  Held nú reyndar að fréttina megi skrifa frekar á fréttamanninn en Ármann, það er nú yfirleitt þannig.

 4. Harpa ritar:

  Ja hvenær skrifar maður sjónvarpsfrétt og hvenær ekki? Hver er stjórn fréttamanns á svona og hverju stjórnar viðfangið?

  Það sem ég var annars að reyna að draga fram í þessari geðvonskulegu færslu er hve gömlu bekkjarskólarnir eru einangraðir í sínu djúpa fari og hvað það kemur stundum hallærislega út. Dagskráin segir líka margt um SM og hve gamaldags og lítið spennandi sá klúbbur er. Ég mundi frekar ráða mig í fúavörn hjá Orlofssjóði en ganga aftur í fornmannafélagið ;)