Færslur frá 30. mars 2009

30. mars 2009

Fés og fararheill og flottur fyrirlestur.

Kl. 6 í morgun ákvað ég að nýta morgunsárið til að taka niður þvott og brjóta saman. Árrisul húsfreyja getur komið ýmsu í verk, skal ég segja ykkur. En ekki tókst betur til en svo að ég hrasaði um (tæknilega gallaðan og asnalegan) þröskuldinn á leiðinni þvottahús-eldhús. Verandi með fullt fangið af þvotti datt ég á andlitið, sem betur fer vinstri vangann. Þetta var helvíti vont og ég er fyrst núna, um kvöldið, að fá tilfinningu í tennur og varir - hefur liðið eins og ég kæmi koldofin frá tannlækni í allan dag. Svo verður spennandi að sjá hversu gul, blá og marin ég verð og hvað geta spunnist skemmtilegar kjaftasögur út frá því! (Ekki er til bóta að ég er að kenna unglingunum Grafarþögn … hvar kona er barin eins og harðfiskur og ber þess merki.)

(Ég er búin að detta beint á hnakkann, á bílastæði skólans, aftur fyrir mig á olnbogann um miðja nótt hérna heima - hann bólgnaði ansi mikið og a.m.k. þrisvar í stiganum í skólanum. Er orðin leið á dettiæfingum!)

Svo vil ég vekja athygli á frábærum fyrirlestri, Endurtekin stef um ofsa, óhóf og ágirnd, sem Guðrún Nordal flytur í vefvörpun HÍ.  Þetta eru um tugur stuttra fyrirlestra (yfirleitt 10 mín - korter), ég hef ekki horft /hlustað á þá alla en af þeim sem ég hef skoðað er hennar langbestur, flutningur yfirlætislaus en örlítil svipbrigði og tónfall gerði hann hæfilega lifandi í þessu litla rými. Allir sem hafa áhuga á Sturlungu, Njálu og útrásarvíkingum ættu að geta fundið þar eitthvað við sitt hæfi  

Öll fyrirlestrarrunan er á http://www.hi.is/is/mannlif_og_kreppur

Ummæli (4) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf