31. mars 2009

Fallandaforað, feisbúkk og grunnskólaritunardútl

Freyja: Eftir gáfulegt komment þitt um þröskulda og dráttarvélar fór ég að tékka og komst að því að hér eru bara þrír þröskuldar: Tveir við útidyr + bakdyr og svo þetta Fallandaforað innan úr þvottahúsi.  Ég ætti kannski að hætta að þvo þvott? Er músin ennþá í þínu þvottahúsi? Kannski fæ ég mér mús í mitt.

Ég er sammála Einari um að Fallandaforaðið og dettingar séu viðbrögð æðri máttarvalda við úrsögn úr Feisbúkk. En nú fékk ég uppljómun og veit fyrir hverja Feisbúkk er: Fólkið sem vinnur eftir stimpilklukku! Nú geta jafnt grunnskólakennarar í Kardemommubæjum sem ráðuneytisstarfsmenn unað sér í Feisbúkk daginn út og inn :)   Gaman fyrir þau!

Ég er að byrja enn eina yfirferðarlotuna (hvað ætli ég hafi farið yfir margar ritgerðir um ævina?  Eitthvað um 2000 held ég …). Og enn og aftur fórna ég höndum og spyr mig hvað í ósköpunum grunnskólinn hafi verið að kenna nemendum í 10 ár!  Sveitungi minn orti: “Að lesa og skrifa list er góð / læri það sem flestir.” Ég reikna með að svona sirka helmingur nemenda læri að lesa hjá foreldrum sínum eða öðrum skyldmennum, aftan á mjólkufernur, seríospakka o.þ.h. Ætti þá ekki að vera tími til að kenna að skrifa? 

Ég er með kenningu:  Kenningin er sú að í grunnskólum sé lögð áhersla á einnar blaðsíðu ritgerðir. 

Þá skrifar krakkinn: “Í þessari ritgerð ætla ég að skrifa um Stubb.  Meginmál: Stubbur er ekki stór Stubbur er fimm ára Stubbur á tvo bræður bræður Stubbs heita óli og pétur. Lokaorð: Í ritgerðinni skrifaði ég um stubb og vona að þú lesandi góður hafir haft gagn og gaman að.”

Ég er svo að slást við andskotans stubbamódelið, notað öll tíu árin í grsk. (fyrir utan þann hrylling sem svokallaðar “heimildaritgerðir” eru í grsk.),  upp eftir öllum áföngum og afkenna tiktúrur grunnskólans. Það gengur yfirleitt þokkalega á önn eða tveimur. En ég spyr mig: Hvað eru kennararnir að gera í kennslustundum úr því þeir eru sannanlega ekki að kenna að skrifa og áhöld um að þeir kenni að lesa?

Ég hef þá kenningu að þá séu þær (megameirihluti grsk. er kvenkyns, oft vinstri sinnaðar feminískar barbíur).  Að þá séu stóru barbíurnar að halda við bleiku prinsessuppeldi leikskólans og séu í leiknum “við stelpurnar” alla daga. Strákunum má fleygja fram á gang þar sem þeir geta snapað gams og hugsanlega leitað skjóls á bókasafninu eða bara farið út í fótbolta. Sem betur fer kenni ég 102 og þar eru nemendur talsvert eðlilegri en í 103. (Þetta er náttúrlega smekksmunur en mér finnst óþægilegt og subbulegt þegar nýnemastelpur aðhyllast sömu fatatísku og maður sér í Rauða hverfinu í Amsterdam. Sennilega þykir þetta ekki óþægilegt á að horfa í grunnskólum. Í 102 eru nemendur eðlega klæddir.) 

Nú er ég komin langt frá efninu, eins og kvenlegra kvenna er siður. En óleysta spurningin er: Hvurn andskotann er verið að kenna í ritun í grunnskólanum í 10 ár?  (Guðni O., ég gæti þegið stuðning núna þegar fúríur af báðum kynjum klaga mig í manninn, skólastjórann, hví-hópinn á kennarastofunni, synina báða og föður minn. Síminn hjá honum er 486 1221 en áttræður öldungur klagaði mig fyrir föður mínum eftirlaunaþeganum núna í vor og kannski langar aðra að fara þá leið ;-)

Það væri gaman að sjá tölfræði yfir það hvers konar stúdentar fara í Kennó. Eitt er víst og það er að ekki eru það dúxarnir!

8 ummæli við “Fallandaforað, feisbúkk og grunnskólaritunardútl”

 1. Einar ritar:

  Váts hvað ég held að þú hafir náð að móðga marga með þessari færslu. Las hana meir að segja aftur til að tékka á því hvort þú hefðir minnst á MR og varð fyrir ákveðnum vonbrigðum með að svo var ekki. Fer því pent fram á að þú móðgir líka MRinga í ummælum! Annars get ég upplýst þig um að ég fæ ekki að brúka stimpilklukku nú þegar ég er í láni í fegursta ráðuneytinu.

 2. freyja systir ritar:

  Er ekki hið skrifaða orð ofmetið? Af hverju fá nemendur hvergi að skila innspiluðum ræðum eða fyrirlestrum? Mér finnst algerlega vanta í grunn og framhaldsskólakennslu að nemendur læri að tjá sig munnlega með skýrum hætti (hohoho alltaf gaman að dissa framhaldsskólann). Ætti að vera einfalt mál á þessum tæknivæddu tímum, væri frekar til hagsbóta fyrir kennara, þeir gætu hlustað á verkefni nemenda í baði eða meðan þeir vaska upp.

  Varðandi grunnskólann þá held ég að hann eigi engan séns, börnin koma orðið kjaftfor og alveg ófeimin við fullorðna í 6 ára bekk, hafandi verið á leikskóla árum saman.

  Í þvottahúsinu mínu náðist ein mús í gildru, en það segir akkúrat ekkert um það hversu margar mýs eru lifandi að þvælast þarna í kring, bara að þeim hefur fækkað um eina. Þannig að ég fer ekki í þvottahúsið. Auk þess höfum við verið að grafa hér í lóðinni að leita að klóakröri þannig að guð má vita hvaða önnur dýr gætu komið inn í þvottahúsið.

  Ég verð að segja að þetta er mjög hressandi færsla hjá þér Harpa og bara svona léttmóðgandi fyrir vissa hópa. Hann Einar er orðinn svo viðkvæmur og ráðuneytislegur eitthvað.

 3. Harpa ritar:

  Hún átti einmitt að vera léttmóðgandi og létthressandi. Ég reyni að láta mér dett í hug eitthvert diss á MR, MA og Sjálfstæðisflokkinn í dag.

  Hef ekki dottið neitt í meir en sólarhring :)

 4. Form ICBS ritar:

  Þeir sem hætta á Facebook detta um þröskulda en þeim sem tala illa um Sjálfstæðisflokkinn verður beinlínis allt að fótakefli.

 5. Einar ritar:

  Ég vil taka undir með formanni ICBS og minna á að bölvun Skyrbandalagsins fer víða

 6. Örn Ragnarsson ritar:

  Sæl Harpa frænka
  Ég slysaðist inn á síðuna þína og las mér þennan pistil mér til ánægju. Eins og þú veist þá var ég grunnskólakennari í ótrúlega mörg ár og baaslaði reyndar við að kenna íslensku og þar með talið ritun.
  Eitt sinn tók ég upp gamalt ráð frá þér að láta nemendur skrifa dagbók og skila mér. Hafði gaman af en nemendurnir höfðu mikið gagna af, einkum eftir því sem leið á. Þeir nem. sem ég hafði kennt í þrem efstu bekkjunum náðu því að njóta þess.
  Svo flutti ég í Hafnarfjörðinn. Þar kenndi ég við steinrunninn skóla þar sem miðaldra kennarar voru svo sannfærðir um að þeir hefðu fundið hina einu og sönnu kennsluaðferð og voru ekki til í að hlusta á aðflutta andskota, hvað þá fara að tillögum um breytingar. Svo ég varð hálfgerður eintrjáningur því gömul, ættgeng þrjóska tók sig upp. En mér tókst aldrei að taka upp dagbókarskrif að neinu marki.
  Tvo vetur hafði ég hóp nemenda í svokallaðri “hægferð”. Þetta var þrettán manna hópur. Af þessum þrettán voru ellevu greindir lesblindir. Ég hætti öllum stafsetningaræfingum, einbeitti mér að bókmenntunum, lét gera videomynd úr Gíslasögu, m.a. til að fá þau til að hugsa um söguna frá öðru sjónarhorni. Þegar upp er staðið er ég einna hreiknastur af þessum hópi af þeim sem ég kenndi. En sem betur fer tókst mér að hætta að kenna og er núna að bjarga heiminum í umboði Rauða krossins.
  En nú er mál að hætta. Gangi þér vel með ritgerðirnar. Kannski rekstu á gimstein í rykinu.
  Kv
  Öddi frændi

 7. Harpa ritar:

  Ritgerðirnar komu mér margar skemmtilega á óvart. Ég hafði nánast barið inn í haus nemenda að ritgerð líkist páskaeggi að því leyti að fyrst væri gefið fyrirheit um hvað væri í vændum (toppur + ungi) svo kæmi meginefnið með djúsí upplýsingum og loks væru lokaorð, svona eins og fóturinn á páskaegginu. Til öryggis útlistaði ég þetta líka a la Aristóteles (”Í inngangi segir maður um hvað maður ætli að skrifa” … o.s.fr.)

  Jafnframt afhenti ég þessum rúsínum tveggja síðna plagg hvar önnur síðan var bara um algengar gryfjur sem nemendur pompa í og gera kennara vitlausan.

  Það kom mér svo í opna skjöldu og gleðiega á óvart að mjög margir 102-star höfðu farið algerlega eftir þessu og skiluðu fínum ritgerðum, þar sem ég gaf vel fyrir að mestu án tillits til stafsetningar.

  Míns eru næstum öll lesblind. Sjálf er ég með athyglisbrest (vonandi lyfjatengdan því ég er byrjuð að trappa niður).

  Grafarþögn er frábær bók fyrir þessa krakka. Bárðar saga er ansi vonlaus lesning fyrir þau.

  Gaman að fá komment frá einum óvirkum kennara!

 8. hildigunnur ritar:

  eldri dóttir mín aðhyllist umræddan fatastíl og móðir hennar getur voða lítil áhrif haft. Vonandi tekur hún fljótlega sönsum - ja hún eða tískan. Ég er alltaf jafn ánægð þá daga sem hún fer í gallabuxum í skólann - amm, það gerist líka…