Færslur frá 5. apríl 2009

5. apríl 2009

Líkræða

Nú fékk ég bók með ýmsum pappírum í, frá Ástu frænku, í gær. Þetta reyndust hins vegar alls ekki vera þeir pappírar sem kallaðir eru “bréfin” og eru týndir. Nei, a.m.k. einn langur texti, skrifaður með pennastöng og kolsvörtu bleki, ársettur 1907, er líkræða yfir Guðrúnu Grímsdóttur Laxdal. Líkræðan er ofboðslega löng og ofboðslega margt sem hefur prýtt þessa ekkjufrú.

Svo er mökkur af ljóðum, í ungmennafélagsstíl eða þjóðernisrómantík. Ég er að reyna að þekkja skriftina - þau gætu verið eftir Pálínu. (Maður er soldið sjóaður eftir póstkortalesturinn!)  Fram kemur að yrkjandi hefur mikið álit á Guðmundi frá Sandi og eins gott að fara þá að rifja þá upp eitthvað annað en “Ekkjuna við ána”, en á árum áður lærði frumburðurinn þetta kvæði utan að og æfði flutning í kaupstaðarferðum á Selfoss. Ég held að ég hafi líka verið látin læra “Ekkjuna við ána” utan að.  En nú er ég komin eilítið út fyrir efnið …

Svo er þarna einhvers konar hringhendulykill, ansi sniðugur.  (Kannski pikka ég hann upp handa Finnboga ;) Loks er töluvert um rímfræði og skrifara (sem ég held að sé Pálína) mjög í mun að taka upp gömlu íslensku heitin og þar í er mánuðurinn “farfugl” (kemur eftir hörpu). 

En “bréfin” eru ekki þarna og augljóslega einhver annar ættingi með þau.

Mér gengur annars nokkuð vel að semja ættarsöguna miklu en þetta er heldur tafsamt og seinlegt verk. Sem er ágætt því ég get ekki hugsað mér að fara að prjóna lopapeysur þegar allir hinir eru að prjóna lopapeysur, eftir uppskrift. Á mínum aldri má kona vera þversum í tilverunni.

Ummæli (4) | Óflokkað, Daglegt líf, Ættin