Færslur frá 13. apríl 2009

13. apríl 2009

Sloppadagur og kjútípæ

Það sem í uppeldi mínu kallaðist “leggjast í kör fullfrísk manneskjan eins og aumingi!” heitir núna “taka sloppadag svo maður (öllu heldur kona) höggvi ekki mann og annan í fjölskyldunni (ekki bókstaflega, þetta er metaphorically speaking og sýnir áhrif þess að kenna Eglu tvisvar á ári í tuttugu ár!).” - Svo er Leó að spyrja mig hvort ég sakni ekki Eglu? Ég er að reyna að bakka út úr Eglu og verða obbolítið kvenlegri en ekki hugsa um hve væri gaman að gubba framan í þennan eða bíta hinn á barkann.

 Ath. að myndskreytingar við þessa færslu koma færslunni ekkert við. En finnst ykkur þessi litli ekki vera mikið kjútípæ?  Og hann hefur næstum ekkert breyst, þessi elska.

Ég hef sumsé tekið svoleiðis sloppadag  í minni kör enda eru allir hinir á heimilinu frískir á ferð og flugi, í heimsókn í annað kjördæmi eða að skutlast með pizzur hér innanbæjar. Úfin og ótótleg sef ég og les til skiptis og et bara óhollt  og drekk sterkt kaffi og lítrana af sódavatni og með þessum góðu ráðum hefur mér tekist að líða nokk vel í dag. Enda bakkaði ég í mitt eigið niðurtröppunarplan í gær. Virðist skila sér. (Þarf að reykja tvo pakka yfir daginn ef vel á að vera.)

Nú er ég búin með Hetjurnar frá Navarone, en það var soldið skrítið að til þess að skilja hana varð maður að hafa séð myndina Byssurnar frá Navarone (djíses hvað Gregory Peck er sætur!). Maðurinn hafði af hyggjuviti sínu fengið myndina lánaða, alveg sjálfur og einn.  Seinni bókin er sem sagt ekki skrifuð eftir fyrri bókinni heldur eftir myndinni sem var gerð eftir fyrri bókinni. Hálflesnar eru bók eftir Kinsella sem er ekki alveg að gera sig, tveir hálflesnir reyfarar sem ég fann á dönsku í Hagkaup (kaupi alltaf danska reyfara ef ég rekst á þá) og svo náttúrlega Njála en ég hef ákveðið að dagurinn á morgun dugi alveg í að setja mig inn í lögfræðikjaftæðið og hvurnig fyrsta mál klúðraðist fyrir fimmtardómi.

Þarna höfum við annað krútt og ég átti aldrei séns hjá þessum ljósu lokkum og spékoppum!  Sennilega hef ég byrjað að æxla með mér þunglyndi /óyndi / geðhvarfasýki eitt tvö þrjú og allan þann pakka þegar þetta krullaða kjútípæ mætti á svæðið.

Sem sjá má, innan um allan vaðalinn, er ég svona aðeins að vinna í Ættarsögunni miklu.  Verst að það er svo helv… seinlegt að skanna! Og familíunni hefur verið flest betur gefið en myndataka! Og það er snjór á næstum hverri mynd; skaflar, ísjakar o.s.fr.  Ekki skrítið að ég sé kuldaskræfa og inniklessa, eftir vetrartráma bernskunnar! Skil ekki hvernig nokkur hefur getað búið þarna við heimskautsbaug, jafnvel þótt veiddist þar síld. Skil ekki hvernig nokkur maður lætur draga sig úr húsi þegar hitamælirinn sýnir fyrir neðan 0°.  Mundi ekki fara á skíði þó mér væri borgað fyrir það!

Ummæli (3) | Óflokkað