26. apríl 2009

Harpa:1, Seroquel:0!!!

Þetta eru mikilvægustu úrslit helgarinnar á mínu heimili! Það versta er búið (2 fyrstu næturnar og seinnipartar daga) og í lok næstu viku verður eins og ég hafi aldrei snert á Seroqueli. Þar lýkur 9 vikna tröppun! Hárlosið, sem var búið að gefa í skyn að væri ímyndun í mér, er hætt; baðkerið og hárburstar ekki lengur útbíað í hárum en hins vegar fullt af illhærum í vinstra kollviki, sem bendir til að litla góða hárið sé einmitt að fara að vaxa þar!

Næst snúum við okkur að Lítíum-ógeðinu en ég hef ekki trú á að það verði eins erfitt; mun þó væntanlega gleðjast yfir að geta safnað nöglum sem líta út eins og neglur en ekki bárujárn. (Þetta er óskráð aukaverkun af Litarex og því gef-í-skyn-ímyndun mín, svona stundum alla vega.)  Ég hugsa að ég láti Litarexið bíða fram undir næstu helgi. Þar erum við að tala um tvær tröppur. Og næst … sjáum til!

Meirihluti kjósenda á þessu heimili er dulítið spældur en nær sér niður á að hía á kosningasigur minnihlutans hér á bæ. Mér er slétt sama! Auðvitað kaus ég Gutta og Ólínu, ekki hvað síst af því ég held að þau hafi bæði svo gott af því að kynnast hvort öðru! Auk þess vita þau ýmislegt um skóla og menntakerfið í landinu sem er meira en hægt er að segja um kvótakónga og fiskverkunarkonur vestrá Fjörðum eða Nesi. (Nei, ég er ekki snobbuð - bara lífsreynd og raunsæ eftir að hafa unnið í þremur frystihúsum á mínum yngri árum.)

Listar sem troða Skagamönnum í fimmta sæti eða neðar, eins og Akranes sé eitthvert trilluþorp í kjördæminu, geta bara snapað gams og étið það sem úti frýs fyrir mér!

9 ummæli við “Harpa:1, Seroquel:0!!!”

 1. Einar ritar:

  “Lithium” með Nirvana er eitt af mínum uppáhaldslögum.

 2. Harpa ritar:

  Já, ég hef haft einhverjar spurnir af þessu lagi. Ætti kannski að hlusta á það (í ólöglegu auðveldu niðurhali). Annars er Litíum bara salttegund sem gerir mann ógislega þyrstan. Þetta er svona svipað og að vera á svörtum ópal allan sólarhringinn :)

 3. Lalla ritar:

  Ég óska þér til hamingju með úrslit helgarinnar, ég hef sjálf lent í þessu og veit hvað þetta getur verið hrikalega erfitt.
  Ertu þá öll hressari núna?
  Ég vona bara að þér eigi eftir að ganga jafn vel með restina af niðurtröppuninni

 4. Harpa ritar:

  Takk Lalla, fyrir hamingjuóskirnar. Hressari? Ja, ég er eins og ég gangi með þrefalda fyrirtíðarspennu en reikna með að sú líðan hjaðni þegar líður á vikuna og þá verði ég hressari. Og takk fyrir góðar óskir.

 5. Einar ritar:

  uppvask, það er ekkert eins afstressandi eins og uppvask, nema ef ske kynni trésmíði

 6. Harpa ritar:

  Já en Einar, þegar maðurinn lét byggja sitt eigið hannaða eldhús keypti hann uppþvottavél og við eigum fullt í fangi með að venja okkur af því að skola af leirtauinu í vaskinum og náum aldrei að fylla vélina … Svo uppvask yrði ekki vinsæl iðja á heimilinu. Kannski ég ætti frekar að tæja ull?

 7. Einar ritar:

  Var einmitt að klára að setja saman stóru hlutina í nýju innréttingunni og hlusta á uppþvottavélina mala í gamla eldhúsinu. En maður á að skola í vélina! Mæli annars með því að þú kaupir þér hefilbekk, mjúkar spítur, t.d. birki eða lerki og góðan hefil. Svo skrúfar þú birkið/lerkið fast í hefilbekkinn og heflar. Ekki bara afslappandi heldur kemur líka góð lykt… og heilmikill sóðaskapur.

 8. freyja systir ritar:

  Neineinei það á ekki að skola í uppþvottavélar, borgar sig alls ekki að venja þær á það. Gott hobbí fyrir miðaldra konur er að tálga, nægir að kaupa sér einn hníf og finna sér svo greinar í næsta kjarri.

 9. Harpa ritar:

  Þakka vingjarnlegu ráðin. Hvað með að prjóna?