13. maí 2009

Að sögn elstu manna … um Einar frá Hermundarfelli

Þar sem Sesselja þríspyr mig í kommenti við síðustu færslu get ég ekki annað en hnoðað í nýja færslu um þennan Hermundarfellsmann þótt ég þrísegi ekki tíðindin (þess þurfti bara við Njál eða af Njáli).*

Einar þessi var aðallega húsvörður við Barnaskóla Akureyrar í sinni tíð (held ég, athugið að ég nenni ekki að lesa fleiri bindi). Hann er mér og mínum manni í fersku óþægilegu minni frá því einungis var til rás 1 og karlinn hélt úti þættinum “Mér eru fornu minnin kær”, sem okkur minnir að hafi einkum fjallað um frostaveturinn mikla 1918 (þegar kollurnar frusu á hreiðrunum á Sléttu og Skagamenn fóru fótgangandi yfir Flóann til Borgar óttans og það allt …) Maðurinn þurfti að hlusta á þennan harmagrát árum saman, vinnandi í gróðurhúsi frá blautu barnsbeini, þar sem útvarpið átti að stytta mönnum stundir. Ég var svo heppin að vinna bara eitt sumar í gróðurhúsi og á þeim vinnustöðum sem tóku þá við var ekki mikið um rás 1.

Þetta er inngangur til að skýra fyrirframgefna andúð á aumingja Einari Kristjánssyni. Í gær æxlaði ég mér hin bindin af ævisögunni og hellti mér í Ungs manns gaman, sem er 2. bindið, meðan ég horfði á júróvissjónið. Í því bindi segir hann frá sumardvöl á Raufarhöfn, 1929.  Þetta leit nokkuð vel út til að byrja með: “Á Raufarhöfn voru snotrar og glaðlegar yngismeyjar, eins og annars staðar á byggðu bóli …” (s. 22) og svo talar hann fallega um Lúllu Lund (í 1. bindinu var heilsíðumynd af henni … ætli hann hafi verið skotinn í henni?).  Svo snýr hann sér að Búðinni og fólkinu þar.

Til að byrja með er ósmekkleg kjaftasaga um að Jón (langafi minn) hafi ofurverðlagt allt í útibúinu á Kópaskeri og platað bændur. Miðað við framhaldið (s. 24 og áfram) er þessi saga örugglega lygi.

Hann telur að heimilisfólk í Búðinni hafi verið “kaupmaðurinn Sveinn, og kona hans, Guðrún Pétursdóttir. … Þau hjónin áttu að einkabarni son, Pétur að nafni.”  Svo segir hann frá tannkýlinu Péturs, “á miðju sumri 1930″ sem varð að blóðeitrun og leiddi hann til bana 1930, “með þessum sviplega hætti og var þá rétt um tvítugsaldur.” Skv. Íslendingabók var Pétur Guðjohnsen Sveinsson fæddur 1904 og dó 1929 (11. september, skv. dánartilkynningu í dagblaði). Í Ættarsögunni miklu, sem enn er í smíðum og óvíst er að verði lokið á næstunni, skiptir talsverðu máli að hann og amma voru jafnaldra og góðir vinir, t.d. græddi hún örugglega á því að fá að læra sumt af því sem Pétri var kennt.  Ég fæ út að Pétur hafi verið 25 ára þegar hann dó en ekki “rétt um tvítugsaldur”. (Myndin er sjálfsagt tekin skömmu áður en hann dó.)

“Guðrún yfirgaf Raufarhöfn ekki löngu síðar og flutti til frændfólks síns í Reykjavík. Hún hafði ekki búið þar lengi er hún hlaut skjótan dauðdaga í ökuslysi.” Þetta er náttúrlega ósköp trist en á hinn bóginn haugalygi! Guðrún Pétursdóttir Guðjohnsen var fædd 1878, giftist Sveini Einarssyni kaupmanni 16. júní 1903 og var gift honum í rúmlega hálfa öld. Sveinn dó rúmlega áttræður, árið 1954, en frú Guðrún varð fyrir bíl í Reykjavík 17. nóvember 1955, eftir að hafa dvalið í Reykjavík í 5 ár til að leita sér lækninga. Ég fæ út að hún hafi verið 77 ára þegar hún lést af slysförum og fullyrðingar Einars á Hermundarfelli um þessa konu og hennar fjölskyldumál eru náttúrlega alveg út úr kú!

Víkur sögunni nú að ömmu minni og afa: “Einar Baldvin, sonur Jóns, bjó einnig í “Búðinni” og var föðurbróður sínum til aðstoðar við verslunina. Einar var hæglátur alvörumaður, vandaður og traustvekjandi. Kona hans var Hólmfríður Árnadóttir frá Bakka við Kópasker. Þau áttu börn á ýmsum aldri. Hómfríður hafði alist upp hjá Guðrúnu og Sveini frá því að hún var á barnsaldri. Hún var bráðmyndarleg í sjón, glaðlynd og þokkarík. Aldrei var hún nefnd annað en Fríða í Búðinni.  … Þar sem ég taldi til náinnar frændsemi við Fríðu, fannst mér sjálfsagt að koma mér í kunningsskap við hana og var það engum vandkvæðum bundið, því hún var félagslynd og gestrisin. Ég hafði því ekki lítið gaman af að heimsækja hana í eldhúsið þegar ég átti frívakt …” (s. 24)

Ég tek að sjálfsögðu undir karakterlýsingar á ömmu og afa. Hitt er náttúrlega nánast pjúra lygi. Til að mynd ólst Fríða amma alls ekki upp hjá Sveini og Guðrúnu heldur var tekin í fóstur af Jóni og Pálínu, foreldrum Einars afa. Ég vona að höfundur ævisögunnar ljúgi líka til um “nána frændsemi” því maður sem ekki tekur betur eftir væri betur kominn í annarri ætt! Mér er ókunnugt um hversu miklum tíma amma mín eyddi í eldhúsinu en tel ólíklegt að hann hafi verið langur; til hvers voru þá vinnukonurnar? Sjálfsagt hefur amma Fríða vorkennt þessum sveitalega slöttólfi austan Fjallgarðs og gefið honum kaffi og spilað soldið fyrir hann, af meðfæddri greiðasemi við lítilmagnann.

Einar á Hermundarfelli tekur svo til að lýsa Sveini Einarssyni sem einhverju ofurnísku fríki (s. 24 - 26). Ég hef það ekki eftir.

Einhver góð sál hafði bent mér á þessar æviminningar og þar gæti ég fundið frásagnir frá Raufarhöfn fyrri tíma, sem e.t.v. gætu nýst mér. Vissulega fann ég svoleiðis frásagnir en árangurinn er sá að ég trúi ekki orði af neinu sem finna má í þeim fjórum bindum sem Einar Kristjánsson frá Hermundarfelli gaf út, þar af þrjú bindi ævisaga hans sjálfs en hið fjórða frásagnir af öðrum. Best gæti ég trúað að skyldur Einari þessum sé ákveðinn tollvörður með sama nafni, sem laug blákalt að mér í síma, ekki einu sinni og ekki tvisvar heldur þangað til hann var gersamlega kominn út í horn með sitt lygimál og neyddist til að afhenda mér hluti sem hann var að reyna að lúra á áratugum saman, án þess að eiga hætis hót í þeim! Einhvern veginn finnst mér að meðferð þessara tveggja Einara á sannleikanum sé svipuð.

Ég er verulega farin að efast um að kollurnar hafi frosið á hreiðrunum 1918, þær gerðu það hins vegar 18hundruðogeitthvað (sjá Jón Trausta einhvers staðar) og eftir þetta tek ég sjálfsævisögum óbloggandi fólks með mörgum varnöglum. (Minnið er valt en blogg er traust. Feisbúkk er húmbúkk!)

* Ég verð að fara að snúa mér að einhverjum nútímabókmenntum - liggur orðið við að ég tali 13. aldar íslensku svona dags daglega. Elsku maðurinn benti mér á að búa til valáfanga um ljóðagerð Nýhílista, með sérstakri áherslu á Eirík Örn Nordahl og Ingólf nokkurn stærðfræðing og netpennavin um skeið (man ekki föðurnafnið).  Best að skoða það í sumar ;)  

**  Almáttugur minn, ég var að fatta að sonur Einars frá Hermundarfelli er vinur foreldra minna og að barnabarn hans situr fundi með manninum mínum. Varnagli: Kannski er allt hitt satt í öllum hinum bindunum en vill bara svo óheppilega til að minningar frá akkúrat sumrinu 1929 hafi skolast til í minni hans.

12 ummæli við “Að sögn elstu manna … um Einar frá Hermundarfelli”

 1. Jónas Hreinsson ritar:

  Sæl Harpa

  Hefur þú séð þessa vefsíðu?

  kveðja Jónas Hreinsson

  http://raufarhofn.net/

 2. Harpa ritar:

  Nei, ég vissi ekki um þessa síðu. Takk fyrir að benda mér á hana. Hvar fékkstu allar gömlu myndirnar? (Ég hef reyndar ekki tíma til að kíkja á nema smávegis af þeim í kvöld en ef ég rekst á einhverja sem passar í mitt pródjekt, við hvern ætti ég að tala um að fá leyfi til að nota slíka ljósmynd?)

 3. Einar ritar:

  Ég vil benda þér á að barnabarn Einars var nýlega skipaður málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins ohf - afar vandaður maður í alla staði sem talar gott mál þar að auki og er skólastjórasonur úr Skúlagarði eins og aðrir. Einar kaddlinn og amma voru fjórmenningar. Varðandi síðsustu færslu get ég viðurkennt að mér hefur verið skilað á minn gamla vinnustað, alla vega svona 90% en er reyndar fluttur meir eða minna á aðra deild. Aukinheldur get ég fullyrt að vér munum ekki júbbílera þar sem að vér verðum í Bergen að sinna alþjóðasamfélaginu og komum þaðan seint og illa. Stefnum á Laugarvatn á sunnudegi kannski en drengnum verður ef til vill prangað inn á Rögnu sem ég hef lofað að lána eitt stykki bifreið. En e´g er búinn að kaupa mér bát svo að nú eru ef til vill meiri hægindi að koma í heimsókn, alla vega þegar flóinn er íslaus

 4. Sesselja ritar:

  Ég þakka fyrir færsluna um Einar…..mér þykir þó afar óheppilegt að lesa ævisögur sem er mikið af ættfræðilegum rangfærslum í því að þá verður restin svona frekar ótraustvekjandi!!! Ég gleymi hins vegar aldrei því að hafa á unga aldri lesið amk. tvö bindi af ævisögu Ólafar á Oddhól sem að voru ýktustu grobbsögur og kvennafarsögur í bland við vitleysu sem saklaust sveitabarn að austan hafði séð á prenti!! En þú hefur nú örugglega lesið í þeim ritum einhverntímann:O)
  Kveðjur Sesselja

 5. Lyftustjórinn ritar:

  Yndislega Harpa mín!
  Leystu nú vandræði mín. Þannig er að einhverntímann í fyrndinni komstu með á bloggsíðunni þinni mynd af firmamerki KB bánka, nema þetta firmamerki var alls ekki íslensks bánka heldur frá einhverju, að mig minnir, rússnesku snjóbrettaframleiðendakompaníi. Heldurðu að ef þú kíktir í sálarkirnuna að þú gætir kannski grafið þetta upp? Sennilega er þetta einhvers staðar á bloggsíðunni þinni en vér analfabetar í tölvumálum komumst ekki svo langt.
  Svo þakka ég þér með virktum og gleðst yfir sérhverjum sigri sem þín fjölskylda vinnur, -nema ef hann tengist vexti ránfuglsflokksins.-
  Libbðu svo heil
  Þorvaldur

 6. Harpa ritar:

  Einsi: Bát???? Snýr ekki vörin þín að Keflavík og frá Akranesi? Til hvers þá að eiga bát?

  Nýi málfarsráðunauturinn fjarfór yfir mín heimaverkefni þá ég var í námsleyfi. Minnir að það hafi hann gert vel og smásmugulega svo þessar ýkjur hafa rjátlast af ættinni.

  Sesselja: Ja, ég hef nú ekki hugsað mér að sérhæfa mig í ótraustum æviminningum en gott að vita af þessari ef mig skyldi einhvern tíma langa til þess.

  Þorvaldur: Ég mun nú ganga í að fletta gegnum bloggmyndasafnið á tölvunni og gá hvort ég finn þessa ágætu mynd. Gæti reynst meira mál að finna fyrirtækið - en maður gerir svo sem allt til að tefja sig frá yfirferð í 102 ;)

 7. Einar ritar:

  Mar þarf nú bara rétt að rúlla fyrir Gróttu og svo bara beint stím

 8. freyja systir ritar:

  Einar, líklega einfaldast að sigla inn Skerjafjörðinn til okkar.

 9. Atli Harðarson ritar:

  Ég skil athugasemd númer 7 svo að um mótorbát sé að ræða.

 10. Einar ritar:

  Já, um mótordrifinn bát er að ræða en viðkomandi bátur er reyndar eins og er mótorlaus en það stendur til bóta.

 11. Hrefna ritar:

  Mér finns að Einar eigi að róa líkt og húskarlar Magnúsar (eða var það Ólafur) Stephensenar gerðu forðum með hann. En eins og allir vita sem hafa lesið bréf Magnúsar/Ólafs þá er flóinn fullur af illvígum hvalfiskum en ég er í óða önn að vinna bót á því.

 12. Harpa ritar:

  Þú stendur þig greinilega ekki í stykkinu, Hrefna, því ég er nýbúin að lesa í lókalblaðinu að aðstæður til hrefnuveiða og annarra illvígra hvalfiska séu með ólíkindum heftandi og smásmugulegar í ár - svo mjög að stakkels útgerðamenn í mínum góða bæ eru hættir við að verka hval í sumar!

  Mér skildist á greininni að fjölga ætti þessum illræmdu og illvígu kvikendum í Faxaflóa svo útlendingar og umhverfissauðir gætu barið dýrin augum, úr öruggri fjarlægð … reyndar telja hvalveiðisinnar í mínum bæ og víðar að þetta geti vel farið saman og kannski fengju útlendingarnir o.fl. soldið kikk út úr spennandi eltingaleik og blóðugum sjó?

  Úr því morðsögur seljast eins og heitar lummur held ég þetta geti vel verið.