2. júní 2009

Um dapurleg örlög Silla og æskilegan fjölda systra

Deyr fé

deyja frændr

deyr Silli ið sama!

Nú hefur verið gefið út dánarvottorð fyrir besta vin Vífils, sem Silli var kallaður en hét fullu nafni Volkswagen Passat. Silli “hné niður” á götu í borg óttans fyrir nokkru, var dreginn í skjól hjá mágkonunni og hennar hænum og skoðaður í dag: Því miður greindist gírkassinn brotinn og bramlaður og of dýrt að blása nýju lífi í Silla, skinnið. Eigandinn hefur verið í talsverðri lægð undanfarið en er nú að jafna sig á sorginni og farinn að huga að öðrum farskjótum því enginn er unglingur án bíls! Líffæri Silla verða gefin frændum hans = hann verður dreginn á partasölu fljótlega.

Af öðrum er allt fínt að frétta nema ég virðist vera að eitra fyrir sjálfri mér með sjálflækningum / oflækningum. Fer þó fjarri að ég taki læknanemaglósur í sátt (sjá síðustu færslu), meira að segja þótt óljósar heimildir séu fyrir því að læknakennarinn sé stúdent úr ML og jafnvel Skagamaður að upplagi. Það gleður mig náttúrlega að hann sé ekki úr MR-klíkunni en þrátt fyrir það er ég sama sinnis um fáránlegar leiðbeiningar til læknanema um meðhöndlun miðaldra kvenna. Ég kenni brotthvarfi Litíums (og Seroquels, þótt engin Einblind, Tvíblind og Þríblind styðji það) um að skjaldkirtilshormón er í sögulegu lágmarki og ég því e.t.v. komin með ofvirkan kirtilsfjanda í stað vanvirks. Ráðið við því er að trappa niður þau lyfin í samráði við útlenda heimilislækninn sem ég hef tekið ástfóstri við, eftir aðeins eina heimsókn ;)

Það var auðvitað mjög gaman um helgina, á míní-ættarmótinu uppi á Laugarvatni! Mesta furða hvað hægt er að troða mörgum manneskjum í eitt íbúðarhús en munaði náttúrlega helling um að hafa krakkana í tjaldi inni í sólstofu ;) Maðurinn var í slíkum önnum að júbba að hann komst ekki yfir mikla myndatöku - og í rauninni mætti segja að þessar fáu sem teknar voru ættu að vera læstar með lykilorði. En manninum finnst þær aðallega sanna að enginn skyldi eiga meir en eina systur! Ég birti því tvær myndir sem sönnunargagn á þessari heimspekilegu teóríu en hef vaðið fyrir neðan mig (eða nefið) og passa að enginn þekki þolandann á myndunum.  Fyrri myndin sýnir systur í samsærislegri hópvinnu (Ragna virðist vera potturinn og pannan), sú síðari árangurinn.  Ógislega fyndið! (fyrir okkur systur).

8 ummæli við “Um dapurleg örlög Silla og æskilegan fjölda systra”

 1. Einar ritar:

  Af þessari mynd er ekki hægt að draga nema eina ályktun og hún er að ég hafi örmagnast við lestur bókar Péturs Gunnarssonar.

 2. Harpa ritar:

  Hvaða ég? Fórnarlambið er gersamlega óþekkjanlegt, á myndunum!

  Aftur á móti var eina leiðin til að ná mynd af öllum systkinunum sú að hrifsa púðann sem einhver hafði breitt yfir höfuð sér, sér til varnar, eftir að hafa lúslesið Púnktinn fram undir morgun ;)

 3. freyja systir ritar:

  Guð hvað við virkum feitar eitthvað á þessari mynd! Kann Atli ekki að taka myndir þannig að það sjáist hvað kona er mjó?

 4. Einar ritar:

  Ég tek undir það Freyja - meir að segja ég virka rindilslegur við hliðina á ykkur

 5. Harpa ritar:

  Sko Atli hefur þessar skoðanir: Fögur (= feit) kona er fengur í ranni, ljót kona löstur á manni o.s.fr. Honum finnst t.d. að ég sé doldið krúttleg með þessi björgunarbelti um miðjuna ;) En annars er augljóst að ef ljósmyndari stendur og tekur mynd af fólki sitjandi á gólfinu þá virðast fyrirsæturnar litlar og feitar á myndinni. Næst þegar við hittumst skulum við láta Atla sitja á gólfinu og við stöndum => munum þá virðast grannar sem fegurðardrottningar nútímans (og 185 cm á hæðina).

  Einar: Þú ERT rindilslegur miðað við okkur! Líkamsrækt tekur sinn toll …

 6. Einar ritar:

  Það verður nú vart talið til líkamsræktar að lesa Pétur Gunnarsson

 7. Ragna ritar:

  Tetta eru alveg frabaerar myndir - hefdi samt viljad sma fotosjopp til ad synast mjorri.

 8. Harpa ritar:

  Ég veit - þetta stafar af stöðu myndasmiðs en ekki kílóum fyrirsæta. Gæti náttúrlega teygt myndina en þá myndi fórnarlambið fitna duglega því hann snýr lárétt á mjúkvaxna böðlana.