4. júní 2009

Dottin í fortíðina

Ég ákvað að slá inn bréfin sem ég fékk á Laugarvatni um síðustu helgi, þ.e. bréfin sem afi skrifaði sumar og haust 1946 til ömmu á spítalanum. Nú sé ég hvaðan blogggenin mín koma því honum tekst ótrúlega vel að skrifa skemmtileg bréf á fárra daga fresti þótt ekki gerist ýkja margt á Raufarhöfn, a.m.k. eftir að síldin lét sig hverfa (ég er komin fram í september í bréfasafninu). Sumt er óskýrt, t.d. get ég ekki lesið almennilega úr öllum gælunöfnum og þarf e.t.v aðstoð við það. Svo þurfti ég að fletta upp orðinu “flæsa” en skil hins vegar ágætlega “dulbeidd”, notað um kvíguna sem talin er kálflaus en af því ég skannaði bréfahrúguna veit ég að hún er með kálfi, hvað kemur í ljós svona í október.

Dyggir fjölskyldulesendur munu kunna að meta þessa klausu, frá 3/9 1946:

Krakkar voru í Lundi á skemtun á sunnudaginn og komu í Valþjófsstaði og heilsuðu Balda og Gunnu. Þau seigja Gunnu hafa stækkað mikið í sumar, hún sé orðin nærri eins há og Baldi, og vel feit. Baldi kvað vera ákaflega duglegur að tína ber, en Gunna heldur löt við það. Baldi sendi Frænda ber í bauk og hafði verið fljótur að tína það, enda kvað vera mikið af berjum í Núpasveit, en minna í Axarfirði.

Menn hafa greinilega haft soldið aðrar skoðanir á vexti barna á þessum tíma og nú. Ekki skrítið að mamma skammaðist sín seinna fyrir horgrindina sína elstu og hafði hana aldrei í stutterma bolum svo ekki sæjust beinin :) Lukkulega hef ég lagast síðan, ekki hvað síst fyrir aukaverkanir lyfja … Mér hefur líka alltaf þótt leiðinlegt að tína ber í óhófi, man þegar ég var send með Árna og Lillu í einhvern tveggja daga maraþon-berjamó, sem krakki. Eiginlega finnst mér best að kaupa bara bláber frá Kanada, í Einarsbúð!

5 ummæli við “Dottin í fortíðina”

 1. guðrún ritar:

  ósköp eru að lesa þetta, ég trúi þessu ekki.
  Man að mér leiddist alltaf ósköpin öll hjá Unnu frænku enda ekki mikið fyrir börn.

 2. Harpa ritar:

  Skv. bréfum virðist þér hafa þótt voða gaman og blessunarlega fitnað í sveitinni :) Er einhver systir ömmu sem gæti hafa verið kölluð Yda? Hvað hét kona Brynjólfs?

 3. freyja systir ritar:

  Mér finnst æðislega gaman í berjamó, sérstaklega með skemmtilegu og metnaðarlausu fólki þannig að tíminn sé mest notaður í að kjafta og borða ber.

  Ég man hins vegar eftir þessu Árna/Lillu berjamósdæmi því við Ragna settum af einskærum kvikindisskap einn lúsamylling (stafsetning?) með. Vorum minnir mig líka að velta fyrir okkur lambasparði í þessu sambandi en kunnum ekki almennilega við það.

  Af hverja fitna börn annars í sveitum? Þetta virðist oft vera eitthvað sem talað er um í sögum. Er það hreina loftið eða hnallþórurnar?

 4. Harpa ritar:

  Ég held að það sé rjóminn. Man eftir stoppum á Valþjófsstöðum þar sem við vorum trakteruð með blönduðum ávöxtum úr dós og sykruðum þeyttum rjóma … Ummmmmm.

  Silli er endurfæddur í líki smaragðsgrænnar Toyotu Corolla, alveg eins og Máni á. Sál Silla færðist yfir um leið og veglykilinn. Gamli Silli fer á partasölu.

  Eigandinn var kominn með svo mikil fráhvarfseinkenni að ég reikna með að hann rúnti í alla nótt, til að slá á þau :)

  Ég held að þetta heiti lúsamuðlingar - þið Ragna hafið greinilega verið ansi hrekkjóttar á bakvið stórusystur, sem átti að hafa á ykkur taumhald!

 5. Einar ritar:

  Mér finnst að Toyotan hefði átt að heita Valdi