26. ágúst 2009

Sniftari allra tíma - eða langlundargeð?

Ég hef byrjað æfingar á mitt pjanóforte undanfarna daga eftir að hafa fengið staðfest að maðurinn á efri hæðinni vinnur aldrei á næturvöktum. Eins og alltaf er ákaflega frústrerandi að fatta hve miklu maður týnir niður á nokkrum mánuðum en ég reyni að vera bjartsýn á að þessi tónverk pikki ég aftur upp innan tíðar og gleðst einnig yfir að hafa nýlega nagað neglurnar upp í kviku því það gerir pjanófortespil miklu auðveldara (en er að sama skapi ókvenlegra að sjá).

Eitt af því sem ég ákvað að æfa er Söngur Sólveigar, í þokkalegri útsetningu. Ekki fylgir textinn en mig minnir að hann sé  nokkurn veginn svona: Kanskje vil der gaa baade vinter og vaar / og neste sommer med og det hele aar o.s.fr. … þangað til hún sæi útrásarvíkinginn Pétur Gaut á ný. Minnir mig að þessi þolinmæði Sólveigar hafi verið fyrir bí og útrásarvíkingurinn aldrei skilað sér úr höllu Dofrans eða hvar hann var nú að þvælast. (Myndin vinstra megin krækir í flennistóra útgáfu hafi menn áhuga á að sjá stilltu góðu þolinmóðu stúlkuna Sólveigu og töffarann Pétur Gaut með útrásarvíkingalokka. Sú til hægri krækir í Söng Sólveigar á YouTube).

En nú er ég farin að prjóna!

Lokað er fyrir ummæli.