30. ágúst 2009

Errata og vandinn að vera mannleg

Komið hefur í ljós að ég er lítið skárri en Einar frá Hermundarfelli þegar kemur að eigin minningum, svo ekki sé minnst á sorglega feila í frádrætti (ártölum og aldri) sem ég hef nú orðið uppvís að í Ættarsögunni Miklu!  Af veikum mætti hef ég reynt að benda ættingjum á þá staðreynd að villurnar kunni að verða metnar til fjár eftir því sem tímar líða, a.m.k. ef maður hefur sjaldgæf frímerki með t.d. röngum lit eða bullustimpli í huga. Ættingjar hafa nú ekki sýnt þessu mikinn skilning eða fagnað frímerkjadæmum. Svo ég sé ekki fram á annað en ég verði að gefa þessum fjórum eigendum svokölluð “errata” í jólagjöf, þ.e.a.s. límmiða með klausum í Georgia-letri í 8, 10, 12 og 14 punktum, svo þeir geti límt snyrtilega leiðréttingar inn í bókina sína fínu. Hvernig líst ykkur bókaeigendum á það?

Til hægri sést rígmontinn höfundurinn, ekki búin að gera sér ljóst hvursu mannleg hún er …

 Sem betur fer veit ég ekki enn um neina villu í Ættarsögunni smærri, sem er einhvers staðar á leið til landsins / mín. Meira að segja upplýsingar um upphaf verslunar á Raufarhöfn eru tékkaðar í bak og fyrir og kórréttar! (Í stað þess að trúa heitnum blaðamanni Þjóðviljans, sem fór hugsanlega eitthvað frjálslega með staðreyndir … ég verð samt að játa að ég hugsa með mér: “Og hverjum er ekki sama?” en svoleiðis hugsanir bera vott um grimmt og guðlaust viðhorf til hagsögu og alveg sérstaklega síldarsögu landsins!)

Þetta er samt ekkert í líkingu við fyrri lífsreynslu: Þá ég var ung, ógeðveik (altént ekki greind) og ofvirk í skólastarfi tók ég m.a. að mér að ritstýra blaði Fjölbrautaskólans á Akranesi (?), Innsýn,  sem senda skyldi á hvert heimili í Vesturlandsfjórðungi. Í þá daga lágu umbrotsforrit ekki á lausu og ég klippti og límdi og mældi með reglustiku hvernig allt efnið skyldi verða, auk þess náttúrlega að skrifa drjúgan hluta þess og snúa upp á handleggi á öðru fólki til að fá eitthvað frá því! Skólameistari fékk svo síðustu “próförk” og gerði örfáar tillögur til breytinga … man ekki hvort hann fékk allar myndir með … nema þegar blaðið kemur í mörg þúsund eintökum úr prentun er mynd á forsíðu, fyrir neðan segir að þetta séu nemendur í vélavarðanámi í Ólafsvík … og helvítis myndin var tekin á Hellissandi!  Stjórnendur og heimamenn supu hveljur og fullvissuðu mig um að þetta væru ófyrirgefanleg mistök! (Svona álíka og að kalla Hveragerði Þorlákshöfn eða eitthvað svoleiðis!) Í einum grænum prentaði prentsmiðjan út fleiri þúsund límmiða í örmjóum ræmum sem þöktu akkúrat myndatextann og sögðu nemendur standa í einhverjum garði á Hellissandi og svo eyddi ég 12 tímum í striklotu  í að líma og líma og líma … vöðvagigtin hvarf ekki fyrr en haustið eftir. Mér er einnig í fersku minni hvað húsvarðarfjölskyldan (þáverandi) var almennileg að taka ein þúsund eintök með sér heim því Júróvissjón var um kvöldið og þau sögðu að krakkarnir hefðu nú bara gaman af því að sitja með foreldrum sínum fyrir framan sjónvarpið og líma; Einstaklega jákvætt fólk þá og nú!

(Myndin að ofan lýsir bloggynju meðan hún var enn perfeksjónisti og ekki búin að átta sig á öllum gildrum stafsetningar og heimsins og svoleiðis.)

Það sem ég lærði af þessu var að treysta mér aldrei til fulls og að nágrannakrytur á Snæfellsnesi væru ekki til að hafa í flimtingum! Sem betur fer er Nesið löngu gengið úr samstarfi við okkur og rekur sinn eigin framhaldsskóla.  

Bilíf mí: Ég hef kynnst errata áður!  Þess vegna var verulega sniðugt af mér að gefa ÆM einungis út í 5 eintökum, ef skyldi þurfa að líma.

Ég reikna með að kúgaðir áskrifendur að verkinu séu svo fjúkandi yfir röngum nöfnum aukapersóna að það skýra hina algeru þögn frá þeim. Gerið ykkur engar vonir: Þið fáið ekki endurgreitt!

— 

Við unglingurinn fórum í berjamó í gær, örsnöggan, í hávaðaroki, og tíndum það lítið að það kláraðist í kvöldmatnum. (Venjulega hefur helmingi berjanna verið hent, fyrir rest.) Svo ég sé nú  alveg heiðarleg þá tókst þetta með því að leggja ríkulega með mér í bensínpeningum en ekki af því unglingurinn héldi að það væri svo gaman að fara með mömmu gömlu í berjamó … 

Loks er að geta þess að ég hef hugsað um gildi sumarskólavinnu í mínu fagi og sé nú að auðvitað á að setja Sturlungu fyrir í maí og byrja á að prófa úr henni, í ÍSL 103 t.d., fyrstu vikuna í september. Þessir unglingar lesa hvort sem alltof lítið og svona kennsluaðferð yrði þá einnig til að kennarinn læsi Sturlungu, því þótt miðaldra kennslukonan hafi tvö meistarapróf í íslensku  - og reyndar fimm háskólagráður ef allt er talið ;) þá hefur hún ekki lesið þessa þekktu  morðsögu ennþá! 

En sé Sturlunga mæld til fjár er hún léttvæg: Námskeiðið Facebook fyrir byrjendur, hjá Endurmenntun HÍ, kostar 15.500 kr. (6 klst. langt) en Leiðarvísir að Sturlungu kostar ekki nema 9.800 og er þó jafnlangt. (Sjá bæklinginn Menning, sjálfsrækt og tungumál, útg. Endurmenntun Háskóla Íslands, haustið 2009.) Af þessu má sjá hve Facebook er miklu mikilvægari og merkilegri bók en Sturlunga enda geymir hún oft miklu fleiri persónur og verður þá að sama skapi flóknari! Samt stefni ég leynt og ljóst að því að verða vinafæsti einstaklingurinn á Facebook því mér leiðist þetta kjaftæði svo hroðalega - ætli ég sé ekki gömul hoggin sál!

Vefurinn er með eindæmum svifaseinn í augnablikinu: Ég held að nú hafi WWW þófnað!

P.s. Takk Vilborg! ;)

11 ummæli við “Errata og vandinn að vera mannleg”

 1. Ragna ritar:

  Takk fyrir að búa til þessa frábæru bók Harpa. Það er engin smá vinna sem liggur þarna á bakvið og það verður gaman að grípa í bókina og skoða hana á næstu árum. Svo er þetta líka ómetanleg heimild fyrir næstu kynslóðir. Öll fjölskyldan er búin að lesa hana spjaldanna á milli og íslenskukennarinn fann tvær stafsetningarvillur. Við höfum ekki fundið neinar staðreyndavillur þannig að þú getur verið alveg róleg.

  Við fórum líka öll í berjamó í dag í glampandi sól og hífandi roki að norðan. Tíndum helling af bæði bláberjum og krækiberjum og þegar heim var komið skellti Vala í bláberjapæ. Við hjónin bjuggum til slatta af bláberjasultu og krækiberjahlaupi sem tókst svona líka glimrandi vel.

 2. Harpa ritar:

  OMG: Stafsetningarvillur líka??? Þetta verða nokkrar blaðsíður af errata á mann …

  En takk fyrir að segja svona sætt, Ragna mín, það kemur einmitt fram í bókinni hvað þú varst þæg og góð (a.m.k. þegar kom að fiskáti). Ert greinilega ennþá þæga miðjusystirin :)

 3. guðrún ritar:

  Fórum líka í berjamó bæði á laugardag og sunnudag auk þess að leggja silunganet(Einar og co) afli 10 stk. vænn silungur. Nú taka allir afleiðingum af og miklu berjaáti.

 4. Einar ritar:

  Þetta er ferlega flott bók. Hló soldið yfir nokkrum vitleysum en þær eru allar svo sannfærandi að ég tel ekki þörf á að atast út í þær

 5. Harpa ritar:

  Takk Einsi: Ég hafði sérstakar áhyggjur af viðbrögðum FRÆÐIMANNA ;( Annars finnst mér leiðinlegt að það séu klaufavillur inn á milli. Bijðst góðfúslega afsökunar …

 6. Einar ritar:

  Smá tilflutningar á fæðingarstöðum eður kyni teljast vart villur.

 7. Harpa ritar:

  Fæðingarstöðum? OMG - það er eitthvað sem ég hef ekki enn tekið eftir sjálf! ;( Sjitturinn sjálfur! Þetta með kyngreiningu hefði vafist meira að segja fyrir fræðimönnum svo ég hef fyrirgefið mér þá villuna, sem og ranggreinda framtíðar-stöðu / nútíðarstöðu / manneskju á mynd.

  Kannski rétt að nefna að ég lagði fram uppkastið 25. júní (?) og reiknaði með að þögn væri sama og samþykki.

 8. freyja systir ritar:

  OMG átti að LESA uppkastið? Mér finnst þetta vera fínasta bók og prent-og kynvillur bara lífga upp á.

  Varðandi þetta námskeið í Facebook fyrir byrjendur þá er ég ekki frá því að ég þyrfti að fara á það því ég er ekki alveg að ná þessu. Mér dettur annars í hug að það væri hægt að fésbókarvæða Njálu, þ.e.a.s. búa til fortíðarfésbók með persónum Njálu sem gætu þá tengst vináttuböndum (hugsanlega líka ættartengsl og hjónabandstengsl). Svo gætu Bergþóra og Hallgerður móðgað hvor aðra með kommentum og sagan smá saman vaxið fram.

 9. Harpa ritar:

  Góð hugmynd, Freyja, myndi og styðja við sumarlestur á eigin vegum!

 10. Harpa ritar:

  Tja … ég sagði eitthvað á þessa leið: “Nennið þið að líta á þetta” og taldi mig hafa beðið foreldrasettið þar með. Þetta var samt óljóst “lagt í loft” á laugvetnska vísu :) Það handrit dekkaði til og með Einar að lesa undir stúdentspróf svo þú, Freyja, hefðir samt verið með villu og einnig Sölvi.

 11. Vilborg D. ritar:

  Takk i ligemode. Skondið hve margt er líkt með okkur stöllum: 1. Fyrir margt löngu gaf ég út endurminningar afa og ömmu fyrir familíuna, og þegar gripurinn kom í gegnum prentvélina munaði sléttum hundrað árum á fæðingardegi afa í fyrstu málsgrein á fyrstu síðu. Nú veit ég hvað það heitir sem ég þurfti þá að gera: líma ,,errata” yfir andskotans vitleysuna í tvö eða þrjú hundruð eintökum, villu sem var ekki einu sinni mér að kenna heldur setjaranum (þetta var skömmu fyrir tölvuöld). 2. Játa að ég hef ekki heldur lesið Sturlungu, bara Einar Kára, en hef nú nýlega reyndar útvegað mér myndskreytt eintak af Íslendingasögu frá þjóðhátíðarárinu og hyggst ótrauð þræla mér í gegnum það áður en vorar á ný. Búin með fyrstu síðu, þar er höggvinn Einar Þorgilsson (annað höggið kom í höfuðið fyrir ofan eyra en hitt á kinnina ok var þat meira ásýndum) og Valgerður Brandsdóttir en því er ekki lýst í neinum smáatriðum, því miður, aðeins stutt og laggott: ,,var unnið á konu þeirri”. Spændende…