7. september 2009

Ótrúleg líkindi tollafgreiðslufólks og kvenlegra símadama við persónur Tove Janson

Nú halda kannski dyggu lesendurnir að ég ætli að skrifa um sörpræsið sem beið okkar aðfararnótt 8. ágúst í haust, þegar íslenskum hópi varð ljóst að tollvarslan á Keflavíkurflugvelli, sem og lögreglan á sama flugvelli, hafði gleymt vélinni og farið heim og lagt sig … Þótt maður væri þreyttur eftir að vaka í 21 tíma og kannski ekki fjöðrum fenginn yfir að þurfa að bíða í einar 40 mínútur meðan hið áhyggjulausa og gleymna lið var vakið og sótt í vinnuna … þá nennti ég ekkert að gera mál yfir því, svo fegin varð ég að komast í rúmið mitt og fannst uppákoman heldur ómerkileg miðað við skemmtun frísins.

Nei, ég ætla ekki að tala um þá litlu lögguhattífattana eða tollarana sem auðvitað stoppuðu síðan syfjaða en saklausa MR-nemendur í útskriftarferð af því þau voru eina fólkið undir þrítugu og greinilega kennt í tollaraskólum að svoleiðis fólk geti smyglað, jafnvel eiturlyfjum (komandi frá Tyrklandi)! Auðvitað fannst ekki gramm á blessuðum börnunum.

Nei; ég ætla að blogga aðeins um símaævintýri mitt í dag sem hleypti púlsinum upp í háaloft og því segi ég yður: Það er ekki nema fyrir fullfrískt fólk, nýkomið af AA-fundi, að eiga símtöl við Tollafgreiðsluna á Keflavíkurflugvelli, sérstaklega að tala við hana Maríu smápakkavörð í síma!

Ég pantaði pakka frá USA sem var settur í hraðpóst þann 20. ágúst. Hafandi fengið alveg nákvæmlega eins pakka fyrir um tíu dögum síðan var ég farin að undra mig á seinagangingum í þessum pakka (sem geymir Ættarsöguna smærri) og datt helst í hug að flugvélin hefði hrapað. Á pakkanum var svokallað “tracking” svo ég gat séð afdrif hans í tölvunni og sá, í gær, að pakkinn kom til Keflavíkur þann 28. ágúst (eftir að hafa verið gegnumlýstur bæði í Hollandi og Köln) en hefur setið þar fastur síðan. Mér telst svo til að komnir séu 11 dagar sem hraðsendi pakkinn minn er í pakkahrúgu, væntanlega í Byggingu 10 á Keflavíkurflugvelli. Á eftirlitslistanum (tracking details) var þessi ástæða gefin upp fyrir stöðvun pakkans: “SHIPMENT IS HELD DUE TO UNREALIST VALUE/WEIGHT RATIO. UPS WILL VERIFY VALUE WITH RECEIVER BEFORE CUSTOMS CLEARANCE”. Á ástkæra ylhýra: “Það er óraunsætt hlutfall milli verðmætis og vigtar pakkans. UPS mun tékka á verðmæti pakkans áður en tollurinn lætur hann lausan.”

Ég hringdi í Tollinn í Rv. (tollur.is), var sagt að þetta væri ekki þeirra mál, fékk símanúmer sem átti að vera hjá tollgæslunni í Keflavík en reyndist vera hjá löggunni á sama stað, löggan gaf mér símanúmer hjá tollgæslunni, maðurinn í því númeri sagði að engin nema hún María, sem “ynni í smápökkunum” gæti svarað þessu og María væri í mat, gaf mér svo upp beina símann Maríu, hvað mér fannst sætt uns ég komst að því að María er ekkert að hanga við sitt skrifborð heldur er ferlega móbíl “í byggingunni”.

Tókst loks að hafa upp á Maríu. Um leið og hún fattaði að ég var ekki himinhrópandi ánægð yfir að hraðsendi pakkinn minn væri að mygla í pakkageymslunni hennar, gerðist hún fúl og valdagírug o.s.fr.: Nákvæmlega eins og hemúll!* Meðal þess sem María sagði var:

“Ég get ekki afgreitt pakkann nema ég sjái reikninginn fyrir innihaldinu.” “Ég þarf ekkert leyfi til að opna svona smápakka” (þegar ég bauðst til að senda henni slíkt leyfi í tölvupósti svo hún gæti séð reikninginn). “Ég man ekkert eftir þessum pakka.” “Þetta er ekki mitt mál, þær hjá UPS eiga að sjá um þetta”.

Af stakri greiðasemi gaf María tollvörður (skyldi hún eiga afa sem heitir Einar?) mér samband við UPS, sem reynist vera umboðsaðili fyrir hraðsendingar (!!!!).  Sjá Express ehf. Þar náði ég sambandi við stúlku (?) með ungmeyjartón, átt er við þann tón sem amrískir unglingar brúka í þriðja flokks sápuóperum - kaldhæðnislega kvenlegan. Hún minnti mig að mörgu leyti á snorkstelpuna. Stúlkan heitir Hildur Kjartansdóttir. Hún sagði að í rauninni hefði hún ekkert með þetta að gera heldur stúlkan á neðri hæðinni, sem væri í mat. Auk þess væri þetta ekki þeim að kenna heldur Blurb (fyrirtækinu sem sendi mér pakkann) sem hefði ábyggilega ekki sent reikning. Stúlkan í matnum væri örugglega búin að reyna að hringja í mig útaf þessu. (Seinna í samtalinu kom í ljós að stúlkan hringir í viðskiptavini UPS á morgnana og fram yfir hádegi og nær yfirleitt bara að hringja í fólk fyrstu dagana sem pakkinn er fastur af því það er svo mikið að gera.)

Ég stakk upp á möguleikanum að senda viðskiptavinum tölvupóst í stað þess að reyna að ná í þá í heimasíma á miðjum vinnutíma á rúmhelgum dögum. Jú … Hildur kannaðist við tölvupóst en vissi ekki hvernig maður fyndi svoleiðis ef það stendur ekki á pakkanum. Ég fjarkenndi henni, algerlega ókeypis, á Google, í tölvupósti núna áðan. (Maður getur t.d. gefið upp leitarstrenginn Harpa Hreinsdóttir netfang)

Hildur hélt að kannski gæti stúlkan sem var í mat reynt að tala við Maríu þegar María kemur út í þessa byggingu (nr. 10) í fyrramálið ef ég sendi henni afrit af reikningnum sem ég fékk í tölvupósti frá fyrirtækinu sem sendir pakkann.

Ég var náttúrlega orðin fjúkandi reið og spurði hvort hún gæti ekki bara skokkað yfir, náð í Maríu, fylgt henni í pakkageymslu í byggingu 10, fundið helvítis pakkann og afgreitt og komið honum á Íslandspóst ásamt afsökunarbeiðni til mín fyrir helvítis sleifarlagið, strax í dag! (Reyndar notaði ég ekki þetta orðalag því mér var til efs að Hildur myndi skilja svo fornt orðtak.)

Á endanum framsendi ég frk. Hildi fælu af tölvupóstum, bæði varðandi þennan pakka og nákvæmlega eins pakka sem ég fékk sendan hratt og vel um Íslandspóst en eins og Hildur sagði: “Hann hefur kannski rétt sloppið - það er verið að herða þetta núna.”

Ég er rosalega fegin að þurfa ekki að kenna Hildi meira. Sömuleiðis er ég þakklát fyrir að vinna ekki með hemúlum en skilgreiningin á þeim er glettilega lík framkomu frk. Maríu og hvað kona sér fyrir sér í símtali við slíka:

*  “En hemul har hemskt stora fötter och ingen humor, förklarade jag [muminpappan]. Näsan är lite tillplattad och håret växer i obestämda tottar. En hemul gör ingenting därför att det är roligt, utan bara för att det borde göras, och berättar hela tiden för en vad man själv borde ha gjort och … (Muminpapappans Bravader [1950] 1961: 16)”

 

Einu kynnin sem ég hef áður haft af tollverði voru af öldruðum Lystigarðshemúl í Reykjavík. Það sem þó gleður mig í þessari uppákomu  er að  nú veit ég að fólk sem e.t.v. (ath. að hér slæ ég engu föstu) er haldið greindarörorku (lærði orðið í dag og fæ að nota það, courtesy of Freyja) á von um vinnu ef það vill búa suður með sjó! 

Það er ótrúlega lokkandi að panta Camenbert og mygluost frá USA með hraðpóst og biðja sérstaklega um að reikningnum sé stungið innan í pakkann og UPS sé kirfilega nefnt sem þjónustuaðili hraðsendinga utan á pakkanum ;)

14 ummæli við “Ótrúleg líkindi tollafgreiðslufólks og kvenlegra símadama við persónur Tove Janson”

 1. Harpa J ritar:

  Æ já. Þetta er eiginlega ekki einleikið með tollinn.
  Um daginn fékk ég pakka frá henni Ameríku og tilheyrandi bréf frá Tollinum þar sem beðið er um leyfi til að opna pakkann og leita að reikningi.
  Ég gaf það auðvitað (og sendi með afrit af rafrænum reikningi svona til öryggis) en þegar ég fékk pakkann þá var reikningurinn vandlega límdur utaná og hann hafði greinilega ekki verið opnaður. EN pakkinn hafði tafist í nokkra daga hjá þeim fyrir það…

 2. Valdís ritar:

  Æ, þetta minnir mig á skiptið þegar ég fékk einmitt bréf frá Tollinum þar sem beðið var um leyfi til að opna pakka til að leita að reikningi. Meðfylgjandi var reikningurinn innan úr pakkanum. Mér finnst alltaf skrítið að biðja um leyfi fyrir að gera eitthvað eftir að það hefur verið gert.

  Svo minnir sagan þín ekki síður á Ástrík og þrautirnar tólf, þar sem þeir þurftu að fá eyðublað 33b.

 3. Harpa ritar:

  Já, það eru sjálfsagt margir sem kunna álíka Bakkabræðrasögur af tollinum. Ástríkur og Steinríkur felldu á endanum skrifræðið á eigin bragði … ætli ég biðji þá ekki næst um nokkur eyðublöð frá tollinum og stúlkunni sem er í mat … kannski það liðki fyrir ef staffið smakkar á eigin meðulum og hleypur milli hæða í leit að eyðublöðunum?

 4. Linda ritar:

  Er þetta ekki fulllangt gengið að vera að nafngreina fólk á svona opinberri síðu? Mér finnst það mjög lélegt af þér þó þú sért ekki ánægð með þjónustuna.

  Gerir þú þér grein fyrir því að tollurinn þarf að fara eftir ákveðnum vinnureglum eins og aðrar stofnanir og að þinn böggull sé kannski ekki sá eini sem er að koma í gegn hjá þeim…svo hann er ekki afgreiddur ASAP.

  Fyndið samt að tollurinn á Keflavíkurflugvelli fór undir tollstjórann í Reykjavík um áramótin 2008-2009 og samt gefa þeir þér upp númerið hjá löggunni….sem segir það að þeir eru greinilega ekki starfi sínu vaxnir fyrst þeir vita ekki númerið hjá sínum deildum….væri ekki nær að blogga um það!

 5. Harpa ritar:

  Ég sé ekkert að því að nafngreina opinbera starfsmenn á prívat-bloggsíðu. Finnst þér þá ekki voða ljótt að nafngreina t.d. skrifstofustjóra í Menntamálaráðuneytinu eða einstaka talsmenn lögreglunnar í Reykjavík, í opinberum dagblöðum eða fjölmiðlum? Svo ekki sé minnst á þá ríkisstarfsmenn sem kallast þingmenn ;)

  Ég geri mér reyndar grein fyrir að ég er ekki ein í heiminum en það þýðir ekki að ég sætti mig við að hraðsendingarpakki liggi og úldni í Keflavík af því starfsfólk tollgæslunnar þar og stúlkurnar hjá UPS eru ekki starfi sínu vaxnar. Það að borga fyrir hraðsendingu á einmitt að fela í sér að varan sé afgreidd “eins fljótt og unnt er” (sem þú kallar ASAP).

  Ég er doldið spennt að vita hvort þú sért sama Linda og sendi mér kvittunarbréf v/ kvörtunar í dag, þ.e.a.s. Linda Rut Benediktsdóttir, forstöðumaður þjónustu- og gæðamála hjá Tolli.is? En miðað við síðustu málsgreinina þína býrðu nú sennilega suður með sjó ;)

 6. Linda ritar:

  Nei ég er ekki þessi Linda Rut og vinn ekki hjá tollinum.

  Ef þú ætlar að nafngreina fólk á prívat-bloggsíðu væri þá ekki nær að læsa síðunni…það er fyrst þá sem hún verður prívat! Þar til, geta allir séð þetta.

  Ég rambaði inná síðuna þína í dag í fyrsta skipti…eftir að hafa lesið um skrifin þín á annari síðu, fyndist bara leiðinlegt ef einhver nákominn stelpunum sem þú nafngreinir myndu lesa þetta. Sérstaklega saklaus börn þeirra. Það þarf ekki mikið til að særa fólk.

  Það að nafngreina þingmenn eða talsmenn lögreglunnar finnst mér ekki sambærilegt. Það segir sig sjálft að talsmenn koma fram í sviðsljósið til að tjá sig og þingmenn eru á launum við að vera í sviðsljósinu svo auðvitað er rætt um og við þetta fólk. Það er kannski ekki alveg það sama og einhverjar manneskjur sem er að reyna að vinna vinnuna sína (hversu vel sem það er vaxið í sína vinnu) hjá einhverri stofnun suður með sjó.

  En ég vildi bara benda þér vinsamlega á þetta og þetta er bara mitt álit. Það er nú ekki mjög langt síðan ungur strákur tjáði sig á netsíðu og fékk yfir sig ljót orð og meiðyrðingar af því hann var ekki mjög góður í stafsetningu…þetta endaði með því að strákurinn tók sitt eigið líf.

  Ég hef fullt út á ýmsar stofnanir að setja og úr því yrðu rosa góðar bloggfærslur, en mér dytti ekki í hug að nafngreina fólk, því hvort sem það er í UPS fötum, tollara uniformi eða hvernig sem er, er þetta fólk eins og ég og þú með tilfinningar og mannorð, sem auðvelt er að eyðileggja ef ekki er varlega farið.

  Annars hef ég ekkert út á þig, UPS eða tollinn að setja :)

 7. Harpa ritar:

  Þessi ummæli um “blessuð börnin” bendir til þess að ég sé enn og aftur til umræðu á er.is (fyrrum Barnalandi). Ég er sjóaðri en margur athafnamaðurinn og læt mér í léttu rúmi liggja leðjuslaginn þar inni, undir nafnleynd að sjálfsögðu ;)

 8. Linda ritar:

  Ég hef ekkert séð um þig á er.is enda skoða ég þá síðu ekki.

  Ummælin mín með blessuð börnin voru nú bara meint þannig, að ég veit að ef dóttir mín læsi eitthvað svona um mig á opinberu bloggi, þá eflaust tæki hún það nærri sér. Sem og börn stelpnanna ef þau lesa þessa færslu þína.

  Þú með alla þessa miklu menntun og reynslu sem kennari ert ekki góð fyrirmynd fyrir nemendurna þína eða aðra með því að vera að “drulla” yfir fólk á opinberri síðu. Annars ætla ég ekki að fara að rífast við þig hérna, mitt álit er komið til skila og dæmi hver fyrir sig! :)

 9. Harpa ritar:

  Linda: Flettu upp sögninni “drulla” í orðabók. Venjulegt fólk notar hana ekki, ekki heldur í yfirfærðri merkingu eins og þú gerir.

  Hvernig dettur þér í hug að ég sé fyrirmynd nemenda minna? Ég kenni um 75 manns íslensku, aðallega fornbókmenntir, og geri mér engar gyllivonir um að vera einhver fyrirmynd þess vegna. Aftur á móti reyni ég eins og ég get að vekja áhuga nemenda á þjóðararfinum, í mínum vinnutíma.

  Kennsla er starf en ekki köllun þannig að utan vinnutíma er ég fyrst og fremst ég sjálf en ekki í hlutverki kennarans. Sumt fólk hefur afar undarlegar hugmyndir um kennara.

 10. Linda ritar:

  Ég leit mjög upp til kennaranna minna þegar ég gekk í skóla og álít þá vera ákveðna fyrirmynd, alveg eins og aðrir sem vinna ábyrgðarfull störf. Þar að auki var okkur kennt í Kennaraháskólanum að við værum ákveðin fyrirmynd.

  Ég veit það að ef kennari dóttur minnar, færi að blogga á opinberri síðu hvað henni fyndist hinir og þessir vitlausir og myndi nafngreina þá og úthúða þeim myndi ég ekki líta þessa manneskju sömu augum. Þó hún myndi gera þetta utan vinnutíma.

  Venjulegt fólk eins og ég notar víst sögnina að “drulla” í yfirfærðri merkingu eins og ég geri en það er ekki hægt að ætlast til þess að þú hafir tekið eftir því, enda föst í fornbómenntum.

  Annars er þetta komið út í vitleysu hérna, ég vildi bara vinsamlega benda þér á að vera ekki að nafngreina fólk á opinberri síðu, því það getur haft slæmar afleiðingar í för með sér. Netið er stórhættulegt!

  Kannski ég persónulega sjálf sem slík verði að bloggfærslu hjá þér….bíð spennt :)

 11. Linda ritar:

  Enn og aftur hefur þú rangt fyrir þér um það hver ég er :)

 12. Harpa ritar:

  Spúkí! Þú sem notar tmd.is póstþjóninn, alveg eins og sú sem ég giskaði á. En ég nenni samt ekki í fleiri leiki við þig og stroka út athugasemd nr. 11 til að sú Linda fái nú ekki bágt fyrir eitthvað sem hún ekki gerði. Mér finnst lítilmótlegt að þora ekki að koma fram undir fullu nafni en reikna með að um það séum við ósammála.

 13. Rut ritar:

  Ji en spes, ég var eimitt á sama hóteli og þú í Tyrklandi and guess what…. það þurfti gjörsamlega að taka hótelið í nefið eftir ykkur því það var svo illa farið…. en það er ekki það sem ég er að fara að skrifa um hérna líkt og þú.

  Allavega, þá held ég að þú ættir að passa á þér túllan vinan, ég hef oft átt viðskipti við UPS og aldrei fengið annað en góða þjónustu frá þeim… Tollahliðin, held þeir séu bara að vinna sína vinnu og fá eflaust nokkur tug símtala líkt og þitt, ég hefði eflaust skellt á þig… sem betur fer er lög og regla í þessu landi og fólk til að framfylgja þeim þó svo að þú gerir það ekki.

  Gef ekki mikið fyrir þennan pistil þinn en eitt get ég sagt þér að ég vorkenni þér.

  Kveðja
  Rut

 14. Harpa ritar:

  Til upplýsingar: Ég var á þriggja vikna ferðalagi um Grikkland, gisti einungis fyrstu nóttina í Tyrklandi. Hafði því ekki tíma til að rústa heilu hóteli þarna. Ég hitti ég engan Íslending í þessar þrjár vikur, fyrir utan manninn minn, og er þess vegna alveg klár á að hafa ekki hitt neinn Bifræsting að nafni Rut.