15. september 2009

Ærdrukknanir og fyrirkvíðanlegur andskoti

Þetta er stutt færsla. Langa færslan um orðafátækt ungs fólks bíður betri tíma. Sömuleiðis rökstuddar staðhæfingar um að sé texti mikið lengri en einn lítill skjár á farsíma sé sá texti of erfiður til að lesa hann.  Mun enn á ný verða rifjuð upp kenning Heimis Pálssonar um homo loquens og homo laborans. En þetta issjú bíður sumsé. 

Ég hafði einnig hugsað mér að skrifa langt kaldhæðnislegt mál, með tilvitnunum í Bjart í Sumarhúsum, um þann árvissa sið gangnamanna að drekkja rollunum sem þeir hafa sótt upp á fjall (með harðfylgi, heyrist manni). En nú nenni ég því ómögulega - þeir drekktu bara 40 ám í ár og hvað eru 40 rollur milli vina? Samt legg ég til námskeið fyrir verðandi gangnamenn þar sem þeir prófa m.a. sjálfir að synda smáspöl klæddir  10 lopapeysum hverri yfir annarri. Þannig gætu þeir skilið sínar vesalings kindur eilítið betri skilningi, held ég.

Ætli maður fái hærra verð út úr tryggingum per drukknaða rollu en per slátraða rollu?

Á morgun fer ég í magaspeglun. Í bæklingnum sem maður fær fyrirfram stendur að þetta sé ekkert mál. Ég hef nú heyrt a.m.k. tvennar sögur farandi af því! Svo ég er eðlilega skjálfhent og kvíðafull núna en verð væntanlega pollróleg á morgun. Hyggst þó þiggja hvaðeina þríhyrningsmerkt sem boðið verður upp á!

Af hverju má ekki reykja í 8 klst fyrir magaspeglun? Ekki reyki ég með maganum og lítil hætta á að hann fyllist af reyk, er það ekki?

3 ummæli við “Ærdrukknanir og fyrirkvíðanlegur andskoti”

  1. Valgerður ritar:

    Mér finnst það svívirða að drekkja kindum í á fyrir hreina heimsku, eins þegar verið er að smala á fjórhjólum í 20 stiga hita og kindurnar liggja dauðar eftir, held að það vanti heilabú í þá bændur. Tek það fram að ég er bóndi sjálf og hef smalað kindum síðan að ég var 6 ára. En ég skal ekki fullyrða með hvort að landbúnaðartryggingin borgar hærra fyrir drekkta kind en sláturhús, líklega er það svo, held að meðalverð á kíló af ærkjöti sé til bænda í kring um 45 kr og svona venjuleg rolla leggur sig á 30-40 kg, hef bara ekki kynnt mér hvað tryggingarnar bjóða í bætur fyrir drekkingar

  2. Harpa J ritar:

    Að fara ódeyfð í magaspeglun er óskemmtilegt en með deyfingu (eins og þetta er framkvæmt hér) er speglunin lítið mál. Það er gott að taka með sér blað og skriffæri til að skrifa niður það sem læknirinn segir eftir að maður vaknar. Ég mundi allavega næstum ekki neitt stundinni lengur sem doktorinn var að upplýsa mig um nývakanaða og ringlaða eftir skoðunina.

  3. Harpa ritar:

    Eins og nafna segir: Speglunin var lítið mál! Þetta er dj. óþægilegt en svo sem ekki verra en tannlæknir og tekur miklu fljótar af en tannlæknir. Ég gef nú lítið fyrir dópið þeirra á SHA, a.m.k. fann ég ekki nokkurn mun (eins og ég var nú búin að hlakka til!) Já, og maginn reyndist í góðu lagi, engin sár eða bólgur, bara pínu roði. Fékk tips um pillur sem gætu lagað sýrustig og læknað magaverki - þarf ekki einu sinni resept. Gaman fyrir mig að fá fleiri pillur ;)