22. september 2009

Dýrseldar einokunarkerlingar í þjóðbúningabransa!

Tæpast hefur farið fram hjá dyggum lesendum mínum að ég erfði þjóðbúninga á afmælinu mínu og hef verið afskaplega upptekin af því að skoða, lesa mér til o.s.fr. og yfir mig glöð og hreykin yfir að hafa eignast þessar gersemar!

Í ljós hefur komið að mig vantar blússu, öllu heldur skyrtu, við upphlutinn. Ég hélt að það væri nú ekki mikið mál, þetta er óskaplega einföld flík (skv. sniðum og myndum í bók Fríðar Ólafsdóttur, Íslenskur búningur. Upphlutur á 20. öld, sem kom út 1994). Svo ég hringdi í Heimilisiðnaðarfélag Íslands sem gaf mér samband við Þjóðbúningastofu. Þar sagðist ung kona geta selt mér gamla upphlutsskyrtu úr bómull, eilítið farna að gulna, á 10.000 kr. Ég spurði hvað ný skyrta myndi þá kosta. Hana þarf að sérsauma, sagði stúlkan, og kostar það 28.000 kr. fyrir utan efni. Ég fór að flissa og spurði hvort þær væru virkilega að handsauma þessar einföldu skyrtur - já, sagði stúlkan, hluti er handsaumaður. Ég sagðist ekki sjá að það væri mikið verk að rigga upp einni svona skyrtu. Jú, það er heilmikið verk, sagði Þjóðbúningastofustúlkan; sjálf sauma ég nokkrar á dag. (!!) Breytti svo “á viku” þegar ég hló illkvittnislega.

Svo hringdi ég í annað “Þjóðbúninga”eitthvað í símaskránni og komst að því að Þjóðbúningastofan Nálaraugað selur skyrtusaum á 30.000, fyrir utan efni og Þjóðbúningafatagerð Sólveigar selur sama á 21.000 + skattur + efni.

Þetta er náttúrlega hreinasta brjálæði og helvítis okur!  Þetta félag, Heimilisiðnaðarfélag Íslands, “… fær styrki til rekstrar skólans frá ríki og Reykjavíkurborg en að öðru leyti er starfsemi félagsins fjármögnuð með framlögum og sjálfboðaliðsvinnu félagsmanna.” 

Félagið rekur verslun og þjónustudeild: ”Þjónustudeildin er eini aðilinn sem selur allt til þjóðbúningagerðar og veitir ítarlegar upplýsingar um búninga.” ”Félagið rekur Heimilisiðnaðarskólann sem skipuleggur markvisst nám í mörgum greinum heimilisiðnaðar, handmennta og lista.” 

Sem sagt: Nokkrar kerlingar hafa ákveðið hvernig íslenskur þjóðbúningur á að vera (sbr. Þjóðbúningaráð, sem er einhvern veginn tengt Heimilisiðnaðarfélaginu). Þær einoka efnissölu, ef einhver vildi nú gera eitthvað á eigin spýtur, þær gæta þess að ekki sé hægt að labba út í búð og kaupa sér peysuföt heldur verður að sauma sjálf á þeirra námskeiðum eða láta sauma á sig á svipuðu verði og skaðabætur þær sem Hafliði nokkur Másson hlaut um árið!

Sem dæmi um námskeið má taka þetta:

Þjóðbúningur kvenna – upphlutur eða peysuföt
Saumaður er upphlutur eða peysuföt.
Kennari: Jófríður Benediktsdóttir
Fjöldi kennslustunda: 50 (11 skipti)
Tími: Miðvikud. kl. 19-22, 16. sep.- 2. des. Fyrsti tími verður máltaka og mátun.  Annar tími 30. sep. og síðan vikulega.
Námskeiðsgjald kr. 79.500. Efni ekki innifalið. Nemendur mæta með saumavél og áhöld.”

Til samanburðar má taka námskeið sem Símenntunarmiðstöð Vesturlands auglýsir í nýjasta bæklingi sínum, s. 7:

Þjóðbúningagerð

Á námskeiðinu munu þátttakendur sauma þjóðbúning.

Grundaskóli Akranesi Mán. 28. sept - 7. des. kl. 18:30 - 21.30 Leiðbeinandi Una Løvdal klæðskeri.Verð: 39.900.

Einokunarfélagið / Heimilisiðnaðarfélag Íslands, kennir 11 sinnum, þrjá tíma í senn. Símenntunarmiðstöð Vesturlands býður upp á samskonar námskeið, 11 sinnum, þrjá tíma í senn. Munurinn er sá að lærði klæðskerinn á Skaganum tekur um helmingi minna fyrir kennsluna en Jófríður sú sem kennir fyrir Heimilisiðnaðarfélag Íslands (og vill auk þess svo skemmtilega til að sama Jófríður á einmitt Saumastofuna Nálaraugað, sem metur skyrtusaum á sama prís og Heimilisiðnaðarfélagið …) Gæti munurinn legið í útlendu eftirnafni? Eða í því að Una Løvdal virðist ekkert tengd einokunarkerlingunum í Heimilisiðnaðarfélaginu og ekki einokunarsaumastofunum sem virðast einhvern veginn vera á hægra brjósti sama Heimilisiðnaðarfélags?

Markmið einokunarkvennanna er þetta: “Félagið vinnur að því að viðhalda þjóðlegum íslenskum heimilisiðnaði, auka hann og efla og stuðla að vöndun hans og fegurð. Einnig að vekja áhuga landsmanna á því að framleiða fallega og nytsama hluti, er hæfa kröfum nýs tíma en hafa rót sína í hinum gamla og þjóðlega menningararfi.”

Þetta með “stuðla að vöndun og fegurð” er út í hött meðan félagið hefur einungis nokkra samþykkta, staðlaða búninga á sinni stefnuskrá (miðað við lestur bloggynju á Hugi og hönd, tímariti þeirra, frá upphafi) meðan hreinasta anarkí ríkti í íslenskum þjóðbúningum áður fyrr. Það er ekki fyrr en með Sigurði málara, homma sem dó úr vesöld, sem einhver samræming kemst á, a.m.k. í skatteruðum hrútaberjamunstrum og skautbúningi, fyrir um einni og hálfri öld.  Ég reikna fastlega með að vönduð og fögur upphlutsskyrta eigi að vera hvít eða ljós og í stíl við svuntu, þótt svoleiðis skyrtur hafi verið alla vega á litinn úr alla vega efni uns stílistinn Sigurður og seinna Heimilisiðnarafélagið fann upp sitt samræmda göngulag fornt í þeim efnum! (Um þetta dugir að skoða Til gagns og fegurðar eftir Æsu Sigurjónsdóttur og fyrrnefnda bók Fríðar Ólafsdóttur um íslenska upphlutinn.)

Einokunin og stjórnsemin beinist einungis að konum því engum heilvita manni dettur í hug að klæðast samþykktum íslenskum þjóðbúningi, sem sést á þessu frímerki hér til hliðar. En einhverja karl-kúnna fá þær Heimilisiðnaðarkonur e.t.v. inn á milli.  

Hvað er svo til ráða? Ég myndi fagna því ef þeir góðu Bónusfeðgar létu sauma peysuföt, upphluti og gamla faldbúninginn í útlöndum, baldýra og skattera í tölvustýrðum saumavélum og sauma úr efnum sem þvola þvott í vél! Silfurvíravirki fékkst í Búlgaríu fyrir áratugum fyrir algert slikk og er væntanlega hobbí eða ferðamannaiðnaður þeirra þar austur frá.  Svoleiðis að milludótið og víravirkið ætti ekki að vera vandamál. Og mundi stokkabelti úr gylltu áli ekki gera sig vel? Það væri a.m.k. heldur léttara að bera og félli tæpast á það! Ef einhver tæki sig til og léti framleiða litskrúðugri og miklu ódýrari dress væri kannski séns á að þau yrðu þjóðbúningur en ekki rándýrir safngripir eins og núna.

Fljótlega ætla ég í HM og kaupa mér ljómandi fallega mussu, sem virðist vera orkeruð að ofan, hafa hana hvíta eða ljósa og vonast til að hægt sé að punta hana með ermahnöppum (ekki að það sé sáluhjálparatriði). Gangi hún ekki tékka ég á Hagkaup. Í ítrustu neyð væri hægt að kaupa eitthvert lekkert gardínuefni eða sængurverasett í Rúmfatalagernum, með huggulegri brókaði eða damaskáferð og sauma helv. skyrtuna sjálf; því þótt ég kunni á þessari stundu ekki að þræða saumavél get ég ekki séð annað en verkið sé álíka erfitt og að sauma öskupoka, miðað við upplýsingar frá öðrum en Heimilisiðnaðarfélaginu!

E.S. Voru það ekki kerlingarnar í Heimilisiðnaðarfélagi Íslands sem supu hveljur og vígbjuggust þegar Stuðmenn létu prenta hvíta boli með upphlutsmynd framan á?  Gott ef sú framleiðsla var ekki bara stöðvuð! - annars man ég þetta ekki svo naujið.

Og voru það ekki einmitt þær líka sem urðu hysterískar þegar Reykjavik Grapevine birti mynd af blökkukonu í skautbúningi Kvenfélags Laugdæla, árið 2004? (Litla myndin krækir í stærri og fegurri útgáfu.)

12 ummæli við “Dýrseldar einokunarkerlingar í þjóðbúningabransa!”

 1. Jóhanna Hafliðadóttir ritar:

  Hlustum ekki á svona rugl. 30 þús. fyrir að sauma flíkina! Ömmur okkar notuðu gardínuefni og hvað eina sem þeim þótti fallegt í skyrturnar. Og ég á sniðið einhversstaðar í fórum mínum. Ertu ekki jafn góð á saumavél og prjónana?

 2. Harpa J ritar:

  Þeim búningum sem ég er með í fóstri fylgja þrjár skyrtur. Þær eru afskaplega svipaðar, en þó ekki alveg eins. Tvær þeirra eru greinilega úr bómull en sú þriðja ekki. Og eru þær þó allar ,,samþykktar” af Þjóðdansafélaginu og viðlíka autoritetum. En sniðið er einfalt, svona beint skandinaviskt blússusnið, eins og var í sniðabókunum frá sjötíuog eitthvað. Algerlega við hæfi byrjenda í saumaskap. Fáðu endilega sniðið hjá henni Jóhönnu og efni færð þú í hvaða tuskubúð sem er. Virka og Föndra eru til dæmis með prýðlegt úrval.

 3. Einar ritar:

  Ég vil benda á að strax upp úr 1760 fór heimasætan fyrrverandi á Bessastöðum, síðar húsmóðir á Indre-Holm að láta eiginmann sinn panta fyrir sig betri kjóla frá Kaupmannahöfn og markaði hún þar með upphaf þeirrar hefðar að heldri konur í Garðahreppi klæddust útlensku. Reyndar lét sonur hennar, hann Magnús blessaður, gjarnan klæða dóttur sína íslenskum búningi ef betri útlenda gesti bar að garði. En ég vil ennfremur halda uppi nokkrum vörnum fyrir Heimilisiðnaðarfjelagið og benda á að konur á þeim bæ halda greinilega mjög í heiðri þeirri mörghundruð ára gömlu venju að selja þjóðbúninga mjög dýrt. Til er fjöldinn allur af varðveittum frásögnum erlendra ferðamanna frá 18. og 19. öld sem geta þess að íslenskar konur setji upp okurverð fyrir þjóðlegan klæðnað sinn. Hinar sömu konur voru á sama tíma fyllilega reiðubúnar að gefa börn sín vandalausum, eins og fram kemur fyrst í frásögnum engelskra á 16. öld. Svo að ef þig vantar börn er líklega best að byrja á því að hringja í Heimilisiðaðarfjelagið.

 4. Einar ritar:

  Já og ég gleymdi að það hversu löng hefð er fyrir því á Skaganum að ganga í útlenskum kjólum skýrir efalítið verðmuninn enda ekki hægt að selja konum af lægri stjettum, sem helst nota íslenskan klæðnað, svona dýr námskeið. Þá kætti mig einnig að sjá þessa mynd af hinni íðilfögru konu í íslenzka búningnum sem sækja þurfi austur í sveitir þar sem að þjóðdansafjelagið neitaði að lán búning fyrir þessa myndatöku þegar úr spurðist um útlit fyirrsætunnar þarna á haustdögum 2004. Þjóðlegt skal það vera hvort sem um föt eður útlit ræðir.

 5. Harpa ritar:

  Því miður kann ég ekki að sauma. Á hinn bóginn gæti ég sjálfsagt lært það - eða prjónað helv. skyrtuna (hefur eflaust einhvern tíma verið gert). Svo þekki ég saumakonur …

  Þessi pistill um gróðabrall Heimilisiðnaðarfélagsins er eiginlega líka pistill um tröðkun á kvenréttindum því þarna gera örfáar manneskjur sér að leik að torvelda konum einum að eignast þjóðbúning. Enda sér maður nánast aldrei kvenmann í slíkri flík, því fullbúnar eru flíkurnar svo ofboðslega dýrar og dýrmætar að þær má vart snerta. Í mogganum í dag er fögur mynd á baksíðu af eld-gamla íslenska faldbúningnum, sem einhver stúlka gifti sig í, á dögunum. Móðir hennar var þrjú ár að sauma búninginn (á námskeiðum Heim.iðn.fél.) og auk þess komu tvær aðrar konur að útsaumnum. Eftir giftinguna mun þessi fína dýrindisflík hanga uppi til sýnis í Reykholti, næstu árin. Enda vinnan orðin á við altarisklæði kaþólskra.

  Ef ég missi vinnuna í kreppunni stofna ég hvunndags-þjóðbúningabúð! Ef mig vantar börn (sem mig gerir ekki, hef t.d. um 75 unglinga til umráða dag hvern) hringi ég í Heim.iðn.fél.

  Og Einar: Næsta þriðjudag er planið að labba með Leó að Innra-Hólmi og heyra valdar sögur af þeim illu Stefánungum (sem áttu náttúrlega nóg búningasilfur meðan alþýðan svalt).

 6. Máni Atlason ritar:

  Gæti ekki Eva frænka dúndrað saman einni svona skyrtu fyrir þig?

 7. Harpa ritar:

  Hm … Máni … ég veit ekki hvort þú trúir því en þegar ég sagðist þekkja konur sem kynnu að sauma var ég náttúrlega voða mikið að hugsa um nýjasta klæðskerasveininn í familíunni :)

  En af þrjóskunni einni saman prófa ég HM og Hagkaup fyrst! “Made in Taiwan” er í fínu lagi mín vegna.

 8. Þóra Geirlaug ritar:

  Ef HM og Hagkaup virka ekki þá á móðir mín elskuleg snið af svona voða fínni upphlutsskyrtu. Amk þótti sú skyrta boðleg bæði sem fermingar- og útskriftarklæði fyrir mig.
  kv, Þóra Geirlaug

 9. Pétur G. Ingimarsson ritar:

  Það er ekki rétt að þjóðbúningur karla sé eitthvað ódýrari en þjóðbúningar kvenna. Kostnaður við námskeið og efni í hann fer vel yfir 120 þúsund krónur. Verðið er ekkert skrýtið, enda er efnið í þjóðbúninga ekki búið til af sveltandi börnum í verksmiðjum þriðja heimsins.

  Opinberar fullyrðingar um það að „engum heilvita manni“ dytti í hug að klæðast þjóðbúningi karla eru jafnfram einstaklega furðulegar. Íslensk karlmenni eru fullsæmd því að klæðast þeim glæsta búniningi, sem er að mínu viti, utan vel skrýdds faldbúnings, fegurstu þjóðklæði íslensku þjóðarinnar.

 10. Harpa ritar:

  Takk fyrir tilboðið, Þóra Geirlaug, aldrei að vita nema næst læri ég að sauma og þá koma snið sér vel …

  Pétur: Ég er ekki viss um hvort þú ert að grínast eða tala í alvöru þegar þú segir “fegurstu þjóðklæði íslensku þjóðarinnar” … en fullyrðing mín um heilvita manninn og karlkyns-búning-Sigurðar-málara er m.a. byggð á því að aldrei hef ég séð nokkurn klæðast slíkum búningi! En ég bý náttúrlega úti á landi en ekki í borg óttans.

  Mér finnst ólíklegt að flutt sé inn mikið fataefni sem unnið er af sveltandi börnum þriðja heimsins. Áttirðu kannski við að þau sveltandi saumi almennt og yfirleitt þær flíkur sem fást?

 11. Gunnar D ritar:

  Sæl Harpa. Ég er forvitinn hvort þú fannst góða skyrtu á þokkalegu verði einhverstaðar og þá hvar? Kveðja Gunnar Davíðs

 12. Karlotta ritar:

  Ég rakst á þessa færslu þegar ég fletti upp Upphlutsskyrta. Það er alveg rétt sem þú segir um furðulega sölumennsku. Mig vantaði efni í svona blússu og hélt að ég vissi af langri saumavinnu hvað ég þyrfti af efni, sem sagt tvær ermalengkir en kona sem þarna var fullyrti að ekki dygði minna en þrjár síddar. Efnið kostaði milli 6 og 7 þúsund meteinn. Hefði ég farið að hennar ráðum, sæti ég uppi með nokkur þús. í umfram efni, en tek það fram að ég er af venjulegri stærð. Ég tók eftir því að skyrtur sem þarna voru í vinnslu voru með kappmelluðum hnappagötum eins og gert var fyrir 40-50 árum, fyrir tíma fullkomina saumavéla sem nánast er hægt að gera allt með. Fyrr má nú aldeilis fyrr vera þjóðlegheitin. Kannski við förum að þvo á bretti vegna þjóðarstoltsins. Allavega er ég ánægð með þig Harpa og finndu þér bara fallega langerma blússu sem passar við svuntuna. Gangi þér vel. Kv.