5. október 2009

Blessuð ullin og blessað danska sjónvarpið

Þessi þjóð væri löngu útdauð ef ekki væri fyrir blessaða sauðkindina eða öllu heldur ytra byrði hennar! Í morgun umvafði ég mig lopateppi með ermum, keypt á góðum kjörum, enda eins gott því í skólanum virtist loftræstingin, stillt á 18°, hafa tekið völdin um helgina. (Sennilega er loftræstingarkerfið keypt af Miðjarðarhafsþjóð einhverri og aktar því ágætlega sem loftkæling!) Á eftir ætla ég að taka afstöðu til hinna fjölmörgu ullarpeysa sem ég á, úr skoskri ull og írskri ull og svo náttúrlega lopanum okkar góða - því miður stingur hann helv. mikið svo mikla prinsessu sem ég er.

Enga á ég peysuna úr færeyskri ull en mér skilst að svoleiðis peysa (eins og aðallöggan í Forbrydelsen klæddist í fyrri seríu) sé prjónuð úr óþveginni ull og ekki megi þvo hana. Aðallöggan gekk líka í peysunni í hátt í tuttugu þætti án þess að peysan léti á sjá. Hendur færeyskra prjónakvenna verða silkimjúkar (og angandi af lanólín og annarri fitu) og peysurnar eru vatnsheldar enda ganga færeyskar rollur ekki með regnhlíf og regnið er ærið á eyjunum þeim.

Ég á líka flísar í hrönnum og er þ.a.l. jafnfylgjandi kókflöskum og öðrum endurnýtanlegum plastflöskum og ég styð reyfin sem kindur landsins eru almennt látnar ganga úr í lifanda lífi en hirt eru af skrokkunum á haustin um leið og kjötfjallið er hækkað meir. Akkúrat í augnablikinu er ég í tveimur flísum, loppin á puttum.

Síðan ég lauk samningu á og gaf út Ættarsöguna miklu og Ættarsöguna minni hefur langtímahandavinna orðið svokallað “langsjal”. Það ber nafn með rentu því miðað við mína prjónafestu verður sjalið um 4 m langt, sé farið eftir uppskriftinni. En ég er auðvitað alltaf til í að bregða út af uppskrift! Sjalið er prjónað með krónuprjóni (skítlétt munsturprjón, þegar maður hefur fattað það!) úr þjóðlegu “loðbandi” sem fyrrum hét “eingirni”. Næst þegar ég prjóna svona þjóðlegt sjal ætla ég reyndar ekki að nota íslenska ullargarn, því það stingur, heldur reyna að ná í norskt þelband.

Í morgun gat ég kennt mér til hita (verkleg sýnikennsla í ritun tekur á!) en hef kólnað eftir því sem líður á daginn. Ætli þetta sé ekki einhver andsk. lurða? Eða refsing æðri máttar fyrir að hafa skrópað á Æðruleysismessu í gær af því mig langaði svo miklu meira að horfa á íslenska glæpaþáttinn? Nú kemur sér vel að hafa addað Guði Almáttugum í fésbókarvinasafnið fámenna! (Minnir reyndar að Guð hafi addað mér …)

Planið er: Skella saman góðum opnum ritgerðarefnum handa mínum elskanlegu fyrir morgundaginn, setja einnegin saman vítalista handa sömu  (t.d. “mér persónulega finnst”) og horfa svo á Morse lögregluforingja í danska sjónvarpinu,  undir þykku flísteppi, prjónandi sjalið endalausa á meðan. Pantaði 3 Prins Póló í matinn en ekkert helv. grænmetisgums í kvöld!  Er að vinna upp ógeð á kjöti, sérstaklega lambakjöti. Það lækkar heimilisreikninginn og grennir jafnframt fólk komið á efri ár, einsog bloggynjuna sjálfa.

Lokað er fyrir ummæli.