30. október 2009

Home again …

Ég er komin í helgarleyfi heima hjá mér. Það gengur vonandi að óskum.  Allt í fínu sem komið er og ég hlakka til að fá almennilegan mat (Atli gefur systur sinni lítið eftir í eldhús-meistara-töktum).  Svo náði ég að knúsa Vífilinn minn milli Morfísæfinga og vinnu.

Vikan hefur verið mér afskaplega erfið. Að miklu leyti er það sjálfri mér að kenna; ég hef þurft að horfast í augu við ýmislegt sem er mér ekki að skapi, breyta kannski svolítið áherslum í lífi og starfi og láta af stjórn. Þetta veittist mér erfitt og ég var bæði með beibí-blús skap og missti mig í jarðálfa-takta.

Nú, undir vikulokin, lítur allt mun betur út. Skapið er að vísu eins og ég liggi á fæðingardeild en það má díla við það. Ég hef beðist afsökunar á því sem ég gerði á hlut annarra og á nú bara eftir að fyrirgefa sjálfri mér (sem er einmitt oft erfiðara). Það góða fólk í geðbatteríinu hefur vísað mér á nýja vegu og nýja möguleika og ég ætla að reyna eins og ég get að fara að hollráðum þess.

Ég fer aftur inn á deild 32 A á sunnudagseftirmiddaginn einhvern tíma, reikna ég með. Einhvern tíma í næstu viku verður ljóst hvort ný lyf og ný nálgun að helvítis þunglyndinu skili árangri. Útskriftin mín ræðst náttúrlega dálítið af því … ekki mikið gagn í að senda mig til vinnu ólæsa, óskrifandi og eiginlega doldið mikið grænmeti. (Ég held ég sé með AHCD, öðru nafni “hálfan SKALA”.  Þetta er enn óuppgötvaður geðsjúkdómur …) 

Nemendur mínir eru væntanlega í góðum höndum og ef einhverjir þeirra lesa bloggið mitt þá upplýsi ég hér með að ég er ekki enn hæf til að fara yfir ritgerðirnar ykkar ;)   Svo tók ég þá ákvörðun að vera ekki fésbókarvinur nemenda (það gætu orðið alls konar hagsmunaárekstrar út af því) svo ég neyðist til að ignórera og sparka út yndislegum úllígum (sorrí strákar!).

This.is svæðið mitt er allt í hakki svo allar myndir og myndasöfn eru óaðgengileg í augnablikinu. Þessu get ég ekki kippt í liðinn fyrr en ég er komin á rétt ról. Vefsíðurnar mínar ættu að virka, þökk sé mínum góða kerfisstjóra og eldra afriti. Aftur á móti þarf nauðsynlega að kemba vefina mína og uppfæra og það er svo sem ekkert áhlaupsverk.

Úr eldhúsinu leggur dýrlega gríska matarangan … svo ég hætti núna.

2 ummæli við “Home again …”

  1. Vilborg D. ritar:

    Mikið er ég fegin að heyra að þetta er allt í áttina. Takk fyrir orðsendinguna. Hugsa til þín.

  2. hildigunnur ritar:

    Já það er talsvert annað hljóð í þér - þó ekki sé allt fínt enn, puttarnir eru enn fast krossaðir.