11. nóvember 2009

Lífið hefst á ný

Ég fór í morgun upp í skóla, hitti mína forfallakennara og tók statusinn.  Sömuleiðis sýndi ég mig á kennarastofunni. Ótrúlega margir buðu mig velkomna aftur, sem yljaði náttúrlega og var til bóta því ég skalf eins og hundur allan morguninn áður en ég skrapp yfir götuna. Skjálftinn tengist kennarahópnum ekki baun, hann kemur ósjálfrátt við tilhugsunina um að hitta fleiri en 10 manns í einu og að þurfa að tala í meir en þremur málsgreinum í einu.

Á morgun hitti ég mína litlu góðu nemendur og hlakka til en kvíði svolítið fyrir því að fá sterk kvíðaeinkenni … þetta er undarleg málsgrein - eiginlega um einhvers konar kvíða-kvíða.

Annars er ég svo þreytt að ég meika varla að slá þetta á lyklaborðið - samt er ég búin að sofa 2 klst nú um miðjan daginn. Ég endist örugglega ekki til að horfa á Taggart á DR úr því Danir hafa svissað yfir í vetrartíma … þáttur sem endar um 11 í kvöld er kominn langt fram yfir háttatímann minn.

4 ummæli við “Lífið hefst á ný”

 1. freyja systir ritar:

  Gangi þér vel í vinnunni! Ekki vera of dugleg….

 2. Harpa ritar:

  Ég passa mig á því! Bæðevei var Taggart bara til kl. 22 en ég gafst upp áður en morðingi var ljós og fór að sofa.

 3. guðrún ritar:

  það var líka gott að þú fórst að sofa, ég svaf meginið af myndinni enda doldið ruglingslegur þráður

 4. freyja systir ritar:

  Verður ekki söguþráður sjálfkrafa ruglandi ef maður sofnar oft? Ef maður t.d. sofnar meðan Öskubuska týnir skónum þá verður athæfi prinsins seinna algerlega óskiljanlegt.