28. nóvember 2009

Þolinmæði er hrikalega erfið dyggð!

Eins og ég hef einhvern tíma bloggað áður þá er varla tilviljun að þolinmæði og sjúklingur er nánast stafsett eins meðal engilsaxa! Og víst er að ég hef ekki nóga þolinmæði (eða æðruleysi) úr því mér er stöðugt sköffuð frekari æfing í slíku, þótt ég sé að verða vitlaus á þessu!

Mér batnar sumsé ekki neitt … vikur hafa liðið án batavottar og í gær setti eitt oggulítið smáatriði mig út af laginu allan seinnipartinn og kikkaði af stað kvíðakasti!

Minn besti vinur er Morfeus - ef ég gæti ekki sofið lungann af sólarhringnum veit ég ekki hvernig ég höndlaði alla þessa ofurlöngu klukkutíma sem leynast í einum sólarhring.

Planið í dag: Vaka núna lengur við að leysa sunnudagskrossgátu, leggja sig svo, reyna svo að byrja að semja próf, leggja sig kannski aftur?, prjóna sig í gegnum seinnipart dags og fyrripart kvölds og hlakka allan tímann svolítið til að geta bráðum farið aftur að sofa! Skv. eigin sunnudagskrossgátumælingum undanfarnar vikur er ekkert að vitsmunum mínum eða fattara. En svo leggst dökka skýið yfir og í verstu tilvikum er ég málstola.

Þeim sem blöskrar væl og víl á þessu bloggi er bent á að vera ekkert að lesa það, lesa frekar Gunnlaugs sögu eða Fóstbræðrasögu (eða Gerplu) í staðinn ;)

Þeir sem vilja stafsetja dyggð með einu g-i mega það fyrir mér.

Lokað er fyrir ummæli.