16. desember 2009

Erfiður dagur framundan

Ef þetta morgunsár hefur forspárgildi þá verður dagurinn langur, dimmur og kaldur. Fór á fætur rúmlega fimm og fékk ekki nema rétt hálftíma ógeðveik. Veit ekki á gott.

Það er slatti af smámunum sem ég á eftir að gera, t.d. pakka utan um jólagjafir og  fara í sturtu. Allt þetta vex mér í augum og ég er mest að hugsa um að liggja í rúminu í dag, vandlega grafin undir sængur.

Jósefína á líka bágt því í gær var ákveðið að hætta að traktera köttinn á mjólk, vegna meltingartruflana. Hún situr því hissa / bálvond / sár / fortvivlet við ísskápinn þegar ég sæki mér mjólk í kaffið en læt svo fernuna festulega aftur inn í skáp og loka! Ég hef reynt að sleikja úr henni fýluna með því að vera óvenju örlát á kattafreistinguna lax-þurrbitar en mér er ekki vel fyrirgefið. Hin kattafreistingin sem ég keypti er litin sömu augum og ómerkilegt Bónus-þurrfóður. Annars fékk kisan loksins eitthvað almennilegt í gær; kjúklinga, vandlega brytjaða fyrir hana; ótrúlegt hvað svona lítill köttur getur troðið miklu í sig! Matarást hennar snérist umsvifalaust 180° að manninum, sem eldaði og brytjaði oní’ana.

Sá grein um meðvirkni í mogganum áðan. Eru menn ekki aðeins að einfalda hlutina með því að halda því fram að yfir helmingur þjóðarinnar “þjáist” af meðvirkni? Sjálf er ég meðvirk með kettinum og skil vel ásakandi og harmþrungið augnaráð hennar og þarf að beita mig hörku til að loka ísskáp án þess að skaffa mjólk. Og vel að merkja var kötturinn líka búinn að skilyrða mig til að horfa á sig drekka mjólkina - annars drakk hún hana ekki! Hef prófað að bjóða sódavatn í staðinn (úr ísskápnum) en það boð hefur verið hunsað.

Ég er annars of lasin til að skrifa um meðvirkni núna og Lausnina … bendi fólki á að lesa greinina í sneplinum ( ef það kemst einhvers staðar yfir snepilinn)  og spurja sig svo hreinskilnislega hvort það trúi þessu eins og nýju neti. Vel að merkja er ég alls ekki að afneita meðvirkni. Mér finnst hins vegar einum of þegar hún er talin valda flestum geðrænum eða andlegum kvillum. Þessi andsk. alhæfingarárátta; að lausnin á t.d. mínum veikindum sé einfaldlega að svissa úr AA í CODA eða svissa yfir í grænmetisfæði eða svissa yfir í labbitúra fer óskaplega í taugarnar á mér!

Ein ummæli við “Erfiður dagur framundan”

  1. Eva Bjarnadóttir ritar:

    Alveg sammála síðustu málsgreininni, um helvítis alhæfinguna! Gangi þér vel Harpa. Ég hef aldrei verið svona veik held ég, en ef það er einhver huggun, þá hugsa ég til þín.