Færslur frá 22. desember 2009

22. desember 2009

Ég þarf ekki að skammast mín

þótt ég verði að þiggja ölmusu hins illa stadda “ríkis” fram í ágúst á næsta ári!  Nei, ég hef unnið mér inn þennan rétt og á stolt að nota hann … sem og sætta mig við geðveikina sem gerir mér ókleift að vinna eins og manneskja eða yfirleitt vera human being suma daga!

Aftur á móti hefur loksins komist í fjölmiðla hneyksli sem ég (útsvarsgreiðandi með meiru) hef margoft minnst á við kollega minn, sem vill svo til að hefur setið í svokallaðri “Ritnefnd um Sögu Akraness” frá snemma árs 2001. Nú hefur bærinn blætt 75 milljónum í söguritara nokkurn, sem upphaflega var ráðinn í verkið til plástrunar eftir að bærinn hafði neyðst til að segja honum upp öðru starfi … en við skulum ekki fara nánar út í það hér. Viskum heldur ekki nefna það að til er Saga Akraness, bindi I og II, ljómandi skemmtileg en kannski doldið höll undir sjávarútveg til að hugnast lærðum sagnfræðingum … kannski ætti líka ekkert að vera að nefna að Akranesbær borgaði Jóni Böðvarssyni fúlgur fyrir að skrifa Sögu Akraness; af henni kom út 1. bindi sem var aðallega endursögn Sturlungu og fleiri góðra rita sem samin hafa verið hér á Vesturlandi. 

Í DV í dag ber söguritari því við að: ” Það var ókostur hversu óskýrt var byrjað á verkinu. Ég geri þetta eins vel og ég get. Það er síðan annarra að dæma um gæði verksins en ég er afskaplega sáttur að hafa fengið tækifærið. Mér er vel kunnugt um gagnrýnina en þeir sem tala hæst hafa aldrei komið nálægt ritstörfum. Ég leiði gagnrýnina alveg hjá mér og hún snertir mig ekki.“ 

Það er kannski voða óskýrt að til séu tvær atrennur fyrir - hvað veit ég sem hef bara unnið við að gera ómerkilegt kennsluefni, á kvöldin og um helgar? Ég hef reyndar lesið þessar útgáfur annarra sem eru til um sögu Akraness  Ósagnfræðimenntuð þykist ég geta fullyrt að Saga Akraness I, eftir Jón Böðvarsson, er auðvitað ekki nokkurra milljóna virði - af því að hún er að svo miklu leyti eftir Snorra Sturluson, Sturlu Þórðarson, höfund Harðar sögu og fleiri, sem ekki er gerlegt að borga úr þessu. Ég man heldur ekki hvað bærinn borgaði Jóni Böðvarssyni í mörg ár við að skila engu. Mér er heldur ekki kunnugt um menntun Gunnlaugs Haraldssonar en ef honum líður eitthvað betur þá get ég alveg staðhæft að ég hafi óskup lítið komið nálægt ritstörfum - á pappír alla vega!  Það er náttúrlega ótvíræður kostur að geta snúið upp á sig sagt að leiðinda tuð um skil “snerti sig ekki” enda aðallega eitthvert rugl úr ómerkilegum pöpli sem ekki veit hvað sönn sagnfræði er. 

 Sögum annarra bæjarfélaga hefur samt verið snarað fram á liðnum árum, stundum hefur það tekið tímann sinn en mitt bæjarfélag á ábyggilega metið í að láta draga sig á asnaeyrunum í svona söguritun: Ekki einu sinni heldur tvisvar! ! Meira segja stórvirkið seinunna Silfur hafsins- Gull Íslands og Síldarútvegsnefnd nær ekki með tærnar þar sem sagnaritari og Ritnefnd um Sögu Akraness hefur hælana!

Fyrir utan þessar 75 milljónir sem búið er að blæða í karlinn lærða en seinskrifandi eru ótaldar þær fúlgur sem fulltrúar í Ritnefndinni fá fyrir hvern setinn fund. Og þeir fundir eru eðli málsins samkvæmt ansi margir, sjá http://akranes.is/stjornsysla/nefndir-rad-og-fundargerdir/fundargerdir/ritnefnd-um-sogu-akraness/ þar sem lesa má um marga fundi um það sem á að gera en hefur sumsé ekki verið gert.. Í fyrstu ritnefnd sitja t.d. kollegi minn sem ég kýs að nefna ekki, hann er mágur fyrrum bæjarstjóra sem situr í fyrstu ritnefndinni og systkinabarn við núverandi skólastjóra sem sat einmitt  í sömu ritnefnd en aðrar ættir kann ég ekki að rekja. Eitthvað hefur svo kvistast úr þessari ætt í ritnefndinni, í áranna rás,  enda gæti ég trúað að það reyndi á þolinmæðina að sitja svona fundi, a.m.k. ef maður kann ekki að prjóna. Kollegi minn er þó nógu staðfastur til að mæta samviskusamlega á fundi, ár eftir ár. Sumum er gefið ótrúlegt langlundargeð.

—- 

Mér finnst voða gott að geta fundist eitthvað - því miður finnst mér samt kannski of lítið um þetta mál, af því þetta er stórmál, sérstaklega ef haft er í huga hve bæjarfélagið er nískt þegar ekki er um að ræða íþróttir neðan klofs …  en það aðeins hreyfir við mér. Og gott er að geta fundið eitthvað annað til bloggunar en sífellt væl og víl hinnar óritstarfandi þunglyndu kvenpíslar sem hér ræður ríkjum.

Á morgun hitti ég minn góða lækni. Maður skyldi ætla að á degi heilags Þolláks sé séns á kraftaverki. Ég hef þegar kveikt á kerti. Annars er ég búin að liggja í rúminu í allan dag.

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf